8.7.2009 | 13:12
Gasfélögin GDF og E.ON fá risasekt fyrir samkeppnisbrot
Þá er best að búa sig undir hækkun á gasreikningnum því franska gasfélagið GDF Suez var sektað um 553 milljónir evra í dag fyrir brot á samkeppnislögum. Sömu sekt fékk þýska gasfélagið E.ON en félögin reyndust sek af samráði um verðlagningu og markaðsaðgang.
Þetta mun vera fyrsta sekt sem beitt er gegn orkufyrirtækjum í ESB af hálfu samkeppnisyfirvalda sambandsins. Bæði fyrirtækin neita enn sekt sinni og ætla að áfrýja niðurstöðunni.
Þau lögðu árið 1975 svonefnda Megal-leiðslu þvert yfir Þýskaland til að flytja gas frá Síberíu. Sömdu félögin um að leisluna myndu þau aldrei nota til að selja gas inn á markaðssvæði hvors um sig. Uppvíst varð um samninginn árið 2005.
Afleiðing var skortur á samkeppni og með samningnum komu félögin í veg fyrir að birgjar sem boðið gátu upp á enn ódýrara gas fengju afnot af leiðslunni. Þar með var komið í veg fyrir að þeir gætu náð fótfestu á gasmarkaði í Þýskalandi og Frakklandi, segir í upphaflegri kæru framkvæmdastjórnar ESB.
Sektirnar eru meðal þeirra hæstu sem sögur fara af en ekki nema skiptimynt í hlutfalli við veltu félaganna. Velta E.ON um víða veröld nam 87 milljörðum evra í fyrra og velta GDF Suez 68 milljörðum evra.
Flokkur: Viðskipti og fjármál | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.