Franskur nýliði sigrar óvænt í Pýrenneafjöllunum

Ungur franskur hjólreiðagarpur á fyrsta ári í atvinnumennsku, Brice Feillu, kom, sá og sigraði Tour de France í dag með eftirminnilegum hætti. Kleif hann hraðast upp brekkurnar upp til skíðastaðarins Arcallis, sem er í 2.240 metra hæð í smáríkinu Andorra í Pýrenneafjöllum.

Unun var að fylgjast með Feillu er hann sagði skilið við hóp samferðamenn sína sem slitið höfðu sig löngu áður frá meginhópnum á 224 km dagleiðinni frá Barcelona til Andorra.  Nokkrum sinnum áður gerðu einstakir knapar í fremsta hópi tilraun til að slíta sig frá og komast á auðan sjó en voru dregnir jafnharðan uppi.

Þegar Feillu lét hins vegar til skarar skríða er um sex km voru í mark fékk enginn við honum ráðið. Steig hann fák sinn jafnt og þétt og eitthvað svo áreynslulaust það sem eftir var upp fjallið. Þetta var fyrsti fjallaáfanginn af mörgum, enn bíða Alparnir alræmdu. Og annar dagleiðasigur Frakka í fyrstu viku túrsins, en Thomas Voeckler vann leið miðvikudagsins sl.

Feillu er aðeins 23 ára en verður 24 ára daginn sem Frakklandsreiðinni lýkur í París eftir hálfan mánuð. Og þetta er fyrsti sigur hans í atvinnumennsku og í fyrsta sinn sem hann keppir í mótinu.

Hann er 1,.88 m á hæð og 67 kíló og því langur og grannholda, eða rengla eins og sumir myndu segja. Með líkamsbygginguna eins og bestu klifrarar og því veikari á sprettreið. Þar er bróðir hans Romain hins vegar öflugur enda höfðinu lægri og samanrekið vöðvabúnt. Kom hann í mark ásamt hópi annarra sprettkarla tæpri hálfri klukkustundu á eftir.

Þar með var hann ekki fyrstur til að samfagna með yngri bróðurnum og liðsfélaga hjá Agritubelliðinu. En sýndi þó kröftugustu tilfinningar yfir sigrinum. „Um leið og mér var sagt í gegnum talstöðina að Brice hafði unnið brutust fram gleðitár hjá mér. Og ég grét alla leið í mark,“ sagði hann.  Í fyrra skrýddist Romain gulu treyju forystusauðs reiðarinnar í einn dag. Þá vann hann Bretlandsreiðina fyrir tveimur árum.

Feillu skrýddist rauðdoppóttu skyrtunni eftir daginn en henni klæðist sá er flest stig hefur í klifuráföngum. Það dró svo ekki úr gleðinni, að í öðru sæti varð annar Frakki, Christophe Kern í Cofidisliðinu.

Feillu er frá bænum Chateaudun í Lurudal, ekki langt frá borginni Orléans.

Sigur Voeckler í Perpignan og Feillu í Andorra gladdi aðstandendur Tour de France sem lifa í voninni að fyrr en varir eignist Frakkar sigurvegara í keppninni erfiðu. Það gerði Bernard Hinault, sem ég bý í næsta nágrenni við, 1985. Hann vann túrinn fjórum sinnum á sínum tíma og hefur undanfarin ár stjórnað verðlaunaafhendingu eftir hverja dagleið.

Þá skipti gula treyjan um hendur, öllu heldur búk, í dag. Ítalinn Rinaldo Nocentini var í fremsta hópnum og kom nógu langt á undan öðrum í mark til að taka hana af Fabian Cancellara, sikileyskum Svisslendingi. Þá reif Alberto Contador sig frá megin hópnum síðustu tvo km upp fjallið og komst upp fyrir liðsfélaga sinn Lance Armstrong í annað sæti í heildarkeppninni. Er hann 6 sek á eftir Nocentini og Armstrong átta.

Fyrir dagleiðina var Armstrong með 18 sekúndna forskot á Contador. Virtist sá síðarnefda koma útspil Contadors í opna skjöldu og lagði hann ekki upp í eftirför. Milli þeirra ríkir mikil spenna um forystuhlutverkið innan Astanaliðsins.

Nocentini er 31 árs og frá Toscanahéraði á Ítalíu. Hann er að keppa í fyrsta sinn í Tour de France. Hann á 10 bræður og systur. Hann er fyrsti Ítalinn til að skrýðast gulu treyjunni frá því Alberto Elli klæddist henni í fjóra daga árið 2000.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband