13.7.2009 | 22:15
Þriðji franski sigurinn í Frakklandsreiðinni
Þegar ég ritaði um sigur Brice Feillu í Tour de France láðist mér að ýta á réttan hnapp og senda bloggið upp á himnafestinguna. Í millitíðinni hafa Frakkar fagnað þriðja sinni því Pierrick nokkur Fedrigo vann síðustu lotuna í Pýrenneafjöllum í gær, sunnudag.
Fedrigo, sem er liðsfélagi Thomas Voeckler hjá Bouygues Telecom-liðinu er vann dagleið sl. miðvikudag, háði tvísýnt og spennandi endasprettseinvígi við ítalskan hjólreiðagarp, Franco Pellizotti, á 160,5 km leið frá Saint-Gaudens til Tarbes.
Pierrick Fedrigo stendur á þrítugu og hefur verið atvinnuhjólreiðamaður frá árinu 2000. Árið 2006 vann hann eina dagleið Tour de France.
Leiðin lá yfir tvö erfið fjöll, þar á meðal um Tourmalet-skarðið sem er einhver erfiðasti fjallvegur í Pýrenneafjöllum. Eftir um 24 km gerði Lance Armstrong tilraun til að brjótast frá meginhópnum og elta uppi þá er áður höfðu slitið sig lausa. Það gekk ekki eftir og var hann dreginn fljótt uppi.
Rinaldo Nocentini hélt forystu í heildarkeppninni og klæðist því gulu treyjunni á morgun, þegar níunda dagleiðin fer fram. Staða efstu manna breyttist ekkert um helgina. Sigurvegarinn frá 2007, Alberto Contador, er annar og liðsfélagi hans Armstrong, þriðji, en þeir keppa fyrir Astana.
Í dag áttu keppendur frí og söfnuðu þeir kröftum fyrir næstu lotu. Á morgun, þjóðhátíðardag Frakka, liggur leiðin um flatlendi er henta ætti sprettmönnum, sem verið hafa í bakgrunni síðustu daga.
Á morgun verða engar talstöðvar eða gemsar leyfðir sem liðsstjórar nota óspart til að stýra sínum mönnum í keppninni. Einnig verða tæki og tól af því tagi bönnuð nk. föstudag, í Ölpunum. Því er haldið fram að fjarskiptabúnaðurinn drepi í dróma allt frumkvæði hjólreiðamannanna sjálfra; það séu liðsstjórarnir í bílunum á eftir hópnum sem ráði ferðinni en þeir fylgjast með öllu í sjónvarpstækjum í bílum sínum.
Athugasemdir
Næstu leiðir verða spennandi og vonandi sér maður einhverja hugrakka hjólamenn taka af skarið. Einnig mun farskiptabannið hafa áhrif, einkum og sér í lagi á stóru liðin þar sem liðsstjórar virðast fjarstýra öllu. Það á ekki að vera hægt að hafa stöðuna óbreytta líkt og gerðist í dag. Fyrirfram var á hreinu hver úrslitin yrðu. Annars verður spennandi að sjá Armstrong og Contador berjast næstu daga. Liðið þeirra er nú í öðru sæti og þeir munu örugglega taka vel á því til að endurheimta fyrsta sætið aftur.
Steinn J. (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 22:40
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.