23.7.2009 | 19:14
Franski herinn fær á baukinn fyrir að valda skógareldum
Í mínu ungdæmi var sagt um óhittna menn, að þeir myndu ekki hæfa belju þótt þeir héldu í halann á henni. Þetta rifjaðist upp er ég las fréttir af skógareldum í nágrenni Marseilles. Þeir eru raktir til misheppnaðra skotæfinga útlendingaherdeildarinnar. Hefur franski herinn fyrir bragðið verið hæddur í fjölmiðlum í dag.
Í stað þess að bæta hittni liðsmanna útlendingaherdeildarinnar olli æfingin víðtækum eldum og eyðileggingu í náttúrunni rétt við úthverfi Marseilles.
Heimskingjar og hálfvitar eru orð sem hafa fallið vegna eldanna sem eyðilagt hafa tugi íbúðarhúsa með þeim afleiðingum að hundruð manns hafa misst heimili sín.
Um 170 slökkviliðsmenn hafa tekist á við eldana frá í gærkvöldi en á þá hefur og verið varpað vatni úr þyrlum og sérsmíðuðum slökkviflugvélum. Náðu þeir yfirhöndinni í glímunni við eldana í dag. Þeir eru hinir umfangsmestu við suðurströnd Frakklands í þrjú ár.
Liðþjálfi í útlendingaherdeildinni hefur verið settur af ótímabundið og bíður hans að verða dregin fyrir herdómstól. Hann stjórnaði æfingu 1sta herdeildar útlendingahersins við bækistöðvar hennar við Marseille í gær. Hann er sakaður um að hafa virt að vettugi fyrirmæli um að nota ekki sérlegar glóðarkúlur við æfingar yfir sumarið á svæðum þar sem eldhætta er mikil vegna sumarhita, svo sem í nágrenni suðurstrandar Frakklands. Slíkar byssukúlu eru með efni sem brennur og skilur eftir sig slóð þegar hleypt er af. Af þeim sökum sjást þær á flugi.
Jean-Claude Gaudin borgarstjóri í Marseilles var ómyrkur í máli í garð hersins. Ég fæ ekki séð hvers vegna efnt skuli til heræfinga í 32°C hita og sterkum vindi. Þegar frámunalegur fíflaskapur sem þessi á sér stað verður að upplýsa um það.
Og lögreglustjórinn Michel Sappin gagnrýndi aulabárðana sem stjórnuðu æfingunni og sagði málið skaprauna sér sérdeilis. Hvatti hann til fullrar rannsóknar og að allir foringjarnir sem við sögu æfinganna komu yrðu dregnir fyrir herdómstól.
Meðal þeirra sem misstu heimili sitt í eldunum voru 120 íbúar elliheimilis. Þá varð að rýma fæðingardeild sem eldarnir ógnuðu. Voru nýorðnar mæður og kornabörn flutt í íþróttasal þar sem þau voru óhult.
Franski herinn þykir oft hafa gert hin ótrúlegustu axarsköft og skógareldarnir við Marseilles minnkar ekki skömm hans. Þetta voru hræðileg mistök og okkur þykir miður hvernig fór, sagði talsmaður hans í miklum iðrunartón í dag.
Flokkur: Utanríkismál/alþjóðamál | Facebook
Athugasemdir
Veit nú ekki hvort Franski herinn hafi gert sig seka um einhver fleiri axarsköft en aðrir herir, held það sé nú mest áróður frá Hollywood. Slys koma fyrir í öllum herum. Þess má geta að útlendingahersveit Franska hersins er rómuð fyrir að vera sú allra harðskeyttasta og besta sveit í heiminum eins og þú ættir kannski að vita þar sem þú ert búsettur þar.
Síðan kom þessi staðhæfing sem mér þótti nú ekki lítið undarleg:
"Jean-Claude Gaudin borgarstjóri í Marseilles var ómyrkur í máli í garð hersins. „Ég fæ ekki séð hvers vegna efnt skuli til heræfinga í 32°C hita og sterkum vindi." Heldur þessi ágæti maður að stríð eigi sér bara stað í blankalogni og hæfilegum hita???????
Jón Gunnar Bjarkan, 24.7.2009 kl. 07:01
Ég hugsaði nákvæmlega eins og þú þegar hann sagði þetta. Málið er að hættan á mögnuðum eldi margfaldast þegar hann blæs því gróðurinn er tindurþurr. Það er líklega það sem borgarstjórinn á við. Þegar þurrt er og snarpur vindur þarf ekki nema einn logandi sígaretturstubb til að kveikja eld sem verður að risabáli.
Ágúst Ásgeirsson, 24.7.2009 kl. 08:17
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.