25.7.2009 | 16:25
Rauð boxerbrók kom upp um glæponinn
Búlgari nokkur að nafni Vanko Stoyanov hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi í Frakklandi fyrir þátttöku í skipulagðri glæpastarfsemi og endurtekin afbrot. Rauð boxerbrók kom upp um hann.
Brókin fannst á vettvangi eins glæpsins í mars árið 2007 og sönnuðu að lokum sekt Stoyanovs. Hann sérhæfði sig í stuldi á snekkjum og lúxusbílum.
Forsaga málsins er sú, að jeppi með lúxussnekkju á kerru í aftanídragi staðnæmdist á A8-hraðbrautinni er leiðin lokaðist vegna umferðarslyss. Er lögregla kom á vettvang voru bæði ökumaðurinn og skrásetningarnúmer bílsins horfin.
Fljótlega kom í ljós að snekkjunni hafði verið stolið á Spáni daginn áður, en hún var að verðmæti um 100.000 evrur, um 18 milljónir króna.
Lögregla komst að þeirri niðurstöðu, að hér hafi verið á ferð liðsmaður gengis sem ætlaði að flytja snekkjuna til Svartahafs. Einu sönnunargögnin sem þeir fundu í bílnum var boxerbrókin rauða. Ljóst þótti eftir erfðatæknifræðilegar rannsókn að Vanko Stoyanov hafi klæðst þeim.
Hann var á franskri sakarskrá fyrir stuld á dýrum bílum við Saint Tropez-flóa, á heimaslóðum Birgittu Bardot. Hann var nýlega framseldur til Frakklands frá Búlgaríu til að horfast í augu við réttvísina.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.