Hitabylgja hrjáir Frakka

Það er býsna heitt á okkur Frönsurum þessa dagana. Hitabylgja þjarmar að og franska veðurstofan hefur ekki látið á sér standa í viðvörunum. Ástandið er einna skást á mínum slóðum og engin ástæða til að kvarta undan eins og 30°C hita. Ekkert lát verður á hitunum fyrr en á föstudag en þá munu þeir sem verst eru settir líklega fagna komu þrumuveðri og rigningu.

Vegna ástandsins 2003 eru Frakkar á varðbergi gagnvart hitabylgjum. Um 15.000 manns biðu bana þá af völdum óbærilegs hita. Aðallega var þar um að ræða eldra fólk og hjartveika.

Hættuástandi hefur verið lýst í nokkrum sýslum, s.s. Rhone, Ardeche, Grome og Vaucluse í suðausturhluta landsins. Sérstöku viðbúnaðarástandi hefur verið lýst í öðrum sýslum á þeim slóðum og í suðvesturhluta Frakklands.

Veðurstofan spáði allt að 38 stiga hita í forsælu í Rhonedalnum í dag.  Í gær mældist hiti 34°C í Lyon, 35°C í Montelimar og Aubernas og 37°C í Avignon.

Fólki hefur verið ráðlagt að drekka sem mest af vatni þótt það þyrsti ekki. Að lágmarki hálfan annan lítra yfir daginn. Einnig hefur það verið hvatt til að halda sig inni við yfir hádaginn þegar hitinn er hvað mestur - og dvelja tvo til þrjá tíma í svölum salarkynnum.

Hitabylgjan hefur sín áhrif á andrúmsloftið og gæði þess. Hafa ökumenn á Bouches-du-Rhone svæðinu fengið fyrirmæli um að aka ekki hraðar en 80 km/klst á vegum þar sem hámarkshraði er ella 110 km eða meiri. Sömuleiðis hafa iðnfyrirtæki verið beðin að draga úr framleiðslukrafti og þar með losun mengandi lofttegunda.

Hitabylgjan nú er ekkert í líkingu við hitana 2003 og mun staðbundnari, en þá sagði hún til sín í landinu öllu og eirði engu.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband