Færsluflokkur: Íþróttir

Þriðji franski sigurinn í Frakklandsreiðinni

Þegar ég ritaði um sigur Brice Feillu í Tour de France láðist mér að ýta á réttan hnapp og senda bloggið upp á himnafestinguna. Í millitíðinni hafa Frakkar fagnað þriðja sinni því Pierrick nokkur Fedrigo vann síðustu lotuna í Pýrenneafjöllum í gær, sunnudag.

Fedrigo, sem er liðsfélagi Thomas Voeckler hjá Bouygues Telecom-liðinu er vann dagleið sl. miðvikudag, háði tvísýnt og spennandi endasprettseinvígi við ítalskan hjólreiðagarp, Franco Pellizotti, á 160,5 km leið frá Saint-Gaudens til Tarbes. 

Pierrick Fedrigo stendur á þrítugu og hefur verið atvinnuhjólreiðamaður frá árinu 2000. Árið 2006 vann hann eina dagleið Tour de France.

Leiðin lá yfir tvö erfið fjöll, þar á meðal um Tourmalet-skarðið sem er einhver erfiðasti fjallvegur í Pýrenneafjöllum.  Eftir um 24 km gerði Lance Armstrong tilraun til að brjótast frá meginhópnum og elta uppi þá er áður höfðu slitið sig lausa. Það gekk ekki eftir og var hann dreginn fljótt uppi.

Rinaldo Nocentini hélt forystu í heildarkeppninni og klæðist því gulu treyjunni á morgun, þegar níunda dagleiðin fer fram. Staða efstu manna breyttist ekkert um helgina. Sigurvegarinn frá 2007, Alberto Contador, er annar og liðsfélagi hans Armstrong, þriðji, en þeir keppa fyrir Astana.

Í dag áttu keppendur frí og söfnuðu þeir kröftum fyrir næstu lotu. Á morgun, þjóðhátíðardag Frakka, liggur leiðin um flatlendi er henta ætti sprettmönnum, sem verið hafa í bakgrunni síðustu daga.

Á morgun verða engar talstöðvar eða gemsar leyfðir sem liðsstjórar nota óspart til að stýra sínum mönnum í keppninni. Einnig verða tæki og tól af því tagi bönnuð nk. föstudag, í Ölpunum. Því er haldið fram að fjarskiptabúnaðurinn drepi í dróma allt frumkvæði hjólreiðamannanna sjálfra; það séu liðsstjórarnir í bílunum á eftir hópnum sem ráði ferðinni en þeir fylgjast með öllu í sjónvarpstækjum í bílum sínum.

 


Franskur nýliði sigrar óvænt í Pýrenneafjöllunum

Ungur franskur hjólreiðagarpur á fyrsta ári í atvinnumennsku, Brice Feillu, kom, sá og sigraði Tour de France í dag með eftirminnilegum hætti. Kleif hann hraðast upp brekkurnar upp til skíðastaðarins Arcallis, sem er í 2.240 metra hæð í smáríkinu Andorra í Pýrenneafjöllum.

Unun var að fylgjast með Feillu er hann sagði skilið við hóp samferðamenn sína sem slitið höfðu sig löngu áður frá meginhópnum á 224 km dagleiðinni frá Barcelona til Andorra.  Nokkrum sinnum áður gerðu einstakir knapar í fremsta hópi tilraun til að slíta sig frá og komast á auðan sjó en voru dregnir jafnharðan uppi.

Þegar Feillu lét hins vegar til skarar skríða er um sex km voru í mark fékk enginn við honum ráðið. Steig hann fák sinn jafnt og þétt og eitthvað svo áreynslulaust það sem eftir var upp fjallið. Þetta var fyrsti fjallaáfanginn af mörgum, enn bíða Alparnir alræmdu. Og annar dagleiðasigur Frakka í fyrstu viku túrsins, en Thomas Voeckler vann leið miðvikudagsins sl.

Feillu er aðeins 23 ára en verður 24 ára daginn sem Frakklandsreiðinni lýkur í París eftir hálfan mánuð. Og þetta er fyrsti sigur hans í atvinnumennsku og í fyrsta sinn sem hann keppir í mótinu.

Hann er 1,.88 m á hæð og 67 kíló og því langur og grannholda, eða rengla eins og sumir myndu segja. Með líkamsbygginguna eins og bestu klifrarar og því veikari á sprettreið. Þar er bróðir hans Romain hins vegar öflugur enda höfðinu lægri og samanrekið vöðvabúnt. Kom hann í mark ásamt hópi annarra sprettkarla tæpri hálfri klukkustundu á eftir.

Þar með var hann ekki fyrstur til að samfagna með yngri bróðurnum og liðsfélaga hjá Agritubelliðinu. En sýndi þó kröftugustu tilfinningar yfir sigrinum. „Um leið og mér var sagt í gegnum talstöðina að Brice hafði unnið brutust fram gleðitár hjá mér. Og ég grét alla leið í mark,“ sagði hann.  Í fyrra skrýddist Romain gulu treyju forystusauðs reiðarinnar í einn dag. Þá vann hann Bretlandsreiðina fyrir tveimur árum.

Feillu skrýddist rauðdoppóttu skyrtunni eftir daginn en henni klæðist sá er flest stig hefur í klifuráföngum. Það dró svo ekki úr gleðinni, að í öðru sæti varð annar Frakki, Christophe Kern í Cofidisliðinu.

Feillu er frá bænum Chateaudun í Lurudal, ekki langt frá borginni Orléans.

Sigur Voeckler í Perpignan og Feillu í Andorra gladdi aðstandendur Tour de France sem lifa í voninni að fyrr en varir eignist Frakkar sigurvegara í keppninni erfiðu. Það gerði Bernard Hinault, sem ég bý í næsta nágrenni við, 1985. Hann vann túrinn fjórum sinnum á sínum tíma og hefur undanfarin ár stjórnað verðlaunaafhendingu eftir hverja dagleið.

Þá skipti gula treyjan um hendur, öllu heldur búk, í dag. Ítalinn Rinaldo Nocentini var í fremsta hópnum og kom nógu langt á undan öðrum í mark til að taka hana af Fabian Cancellara, sikileyskum Svisslendingi. Þá reif Alberto Contador sig frá megin hópnum síðustu tvo km upp fjallið og komst upp fyrir liðsfélaga sinn Lance Armstrong í annað sæti í heildarkeppninni. Er hann 6 sek á eftir Nocentini og Armstrong átta.

Fyrir dagleiðina var Armstrong með 18 sekúndna forskot á Contador. Virtist sá síðarnefda koma útspil Contadors í opna skjöldu og lagði hann ekki upp í eftirför. Milli þeirra ríkir mikil spenna um forystuhlutverkið innan Astanaliðsins.

Nocentini er 31 árs og frá Toscanahéraði á Ítalíu. Hann er að keppa í fyrsta sinn í Tour de France. Hann á 10 bræður og systur. Hann er fyrsti Ítalinn til að skrýðast gulu treyjunni frá því Alberto Elli klæddist henni í fjóra daga árið 2000.

 


Franskur sigur í Tour de France

Vart gat það betra verið í Frakklandsreiðinni [Tour de France] í dag. Franskur sigur á fimmta degi, hinn fyrsti í ár, en vonandi verða þeir fleiri. Einn litríkasti hjólreiðamaður Frakklands undanfarin ár, Thomas Voeckler, hjólaði fyrstur yfir marklinuna eftir 196 km kappreið.

Voeckler sleit sig frá megin hópnum ásamt fimm öðrum eftir um 15 kílómetra. Og svo spretti hann frá keppinautum sínum er tæpir 5 km voru í mark. Megin hópurinn dró á hann á síðustu kílómetrunum en ekki nóg; Voeckler var sjö sekúndum á undan Rússanum Ignatiev og Bretanum Cavendish.

Þetta er í fyrsta sinn sem Voeckler vinnur dagleið í Frakklandsreiðinni. Og það bar ekki aðeins upp á afmælisdag liðsstjóra hans, Jean-René Bernaudeau, yfirmanns Bbox Bouygues Telecom. Heldur eru  einnig í dag nákvæmlega fimm ár frá því Voeckler hrifsaði til sín gulu treyjuna sem forystusauðurinn í keppninni skrýðist. Henni klæddist hann í nokkra daga í Túrnum 2004, eða þar til Lance nokkur Armstrong tók við henni í Ölpunum.

Þeir Voeckler og Armstrong eiga það sameiginlegt,  að báðir viðbeinsbrotnuðu með nokkurra daga millibili í mars sl.

Um Frakklandsreiðina er það annars að segja, að Svisslendingurinn Fabian Cancellara hefur enn forystu í keppninni og hefur skrýðst gulu treyjunni frá fyrsta degi. Armstrong er í öðru sæti, sekúndubrotum á eftir og þriðji er liðsfélagi Armstrong, Spánverjinn Alberto Contador, sem talinn er líklegur til að vinna keppnina í ár.

 


Frakklandsreiðin að hefjast - augu allra á Armstrong

Frakklandsreiðin, Tour de France, hefst í dag með einstaklingskeppni í kapp við klukkuna. Þetta er í 96. sinn sem túrinn fer fram, en honum hefur verið lýst sem erfiðustu íþróttakeppni heims. Það hefur aukið á athygli og eftirvæntingu fyrir keppninni í ár, að bandaríski knapinn Lance Armstrong er snúinn aftur til keppni.

Armstrong vann Tour de France á sínum tíma sjö sinnum í röð, sem er einstakt í sögu keppninnar. Löngum hefur loðað við hann að hafa beitt óleyfilegum meðölum til að ná þessum árangri og ekki hefur vantað á að jafnvel gamlir sigurvegarar - eins og landi hans Greg Lemond - hafa haldið slíku fram opinberlega.

Aldrei hefur þó neitt misjafn sannast á Armstrong. Vissulega voru lyfjapróf færri þegar hann var upp á sitt besta og framleiðendur jafnvel langt á undan eftirlitinu. Öldin er líklega önnur núna og síðast í þessari viku var hollenskur hjólreiðagarpur, Tomas Dekker, felldur á grundvellil sýnis frá í desember 2008.

Og Armstrong til stuðnings hefur hann sætt hvorki fleiri né færri en 55 lyfjaprófunum það sem af er þessu ári. Í viðtali við franska sjónvarpsstöð sl. sunnudag kom t.d. fram, að einn daginn nýlega hafi hann verið prófaður tvisvar sama daginn - af sitthvoru eftirlitinu!

Frönskum almenningi er afar illa við sviksemi í íþróttum og margir gruna Armstrong um græsku. Því má hann búast við misjöfnum móttökum á reiðinni, ekki síst ef hann er í keppni um toppsæti. Vonandi fær hann þó frið og frelsi til að glíma við keppinauta sína. Hann hefur undirbúið sig einstaklega vel og hef ég enga trú á öðru, en hann verði í fremstu röð þótt flestir toppmannanna séu um og yfir 10 árum yngri.

Í gær vann belgíski hjólreiðagarpurinn Tom Boonen mál fyrir áfrýjunardómstól frönsku ólympíunefndarinnar og getur keppt. Frönsku framkvæmdaraðilarnir höfðu hafnað þátttöku hans á þeirri forsendu að hann hafi verið fundinn sekur af notkun kókaíns í apríl. Slíkt skemmtanadóp utan íþróttakeppni mun ekki bannað.

Mótshaldarar héldu því engu að síður fram, að marg skjalfest fíkniefnanotkun Boonen setti óæskilegan og skaðlegan blett á Túrinn. Fíkniefnaneysla sannaðist einnig á Boonen í fyrravor og kom þá í veg fyrir þátttöku hans í Frakklandsreiðinni. Boonen er einstaklega öflugur á endaspretti ef hann er annars vegar í fremstu röð þegar á sprettinn kemur. Fjöllin hafa hins vegar löngum verið honum Þrándur í Götu.

Hvað sem öllu líður, þá verð ég límdur við sjónvarpið næstu þrjár vikurnar meðan Tour de France fer fram. Gamanið byrjar í Mónakó í dag með rúmlega 15 km keppni í kapp við klukkuna. Keppendur eru sendir af stað með nokkurra mínútna millibili og hjóla um götur furstadæmisins.

Armstrong er í hópi þeirra sem sigurstranlegastir teljast í ár. Þar er einnig sigurvegarinn frá í fyrra, Spánverjinn Carlos Sastre, Christian Vande Velde og sigurvegarinn frá 2007,  Alberto Contador sem er í sama liði og Armstrong, Astana. Keppnisleiðin er sögð henta klifrurum betur en öðrum og þar eru allir farmangreindir á heimavelli, sérstaklega þó Sastre.

Alls er keppnisvegalengdin um 3.500 km og dagleiðirnar 21. Lýkur Frakklandsreiðinni í París sunnudaginn 26. júlí.


Jeannie Longo - Ótrúlega seig frönsk afrekskona

Franska hjólreiðakonan Jeannie Longo hefur lengi verið að og unnið margt afrekið. Um helgina varð hún franskur meistari í 56. er hún vann kapp við klukkuna á franska meistaramótinu, sem fram fer um helgina í og við borgina Saint Brieuc á Bretaníuskaga.

Það sem fertugur getur, gerir fimmtugur betur, var einhvern tíma sagt. Það sannas á Longo sem er á 51. aldursári. Á ólympíuleikunum í Peking í fyrra varð hún hálf svekkt yfir því að hljóta aðeins fjórða sætið í tímareið, keppni við klukkuna.

Fyrsta franska meistaratitilinn vann Longo árið 1979 eða fyir 30 árum. Eftir að hafa unnið tímareiðina keppti hún í 115 km einstaklingskeppni kvenna daginn eftir en varð þriðja, tapaði tveimur áratugum yngri konum fram úr sér á lokametrunum.

Longo hefur á ferlinum unnið 106 verðlaunapeninga á ólympíuleikjum, heimsmeistaramótum og frönsku meistaramótunum. Þar á meðal eru ein gullverðlaun frá í Atlanta 1996 er hún varð ólympíumeistari á götuhjóli. Í safni þessu eru einnig frönsk stúlknameistaraverðlaun á skíðum frá 1973, héraðsmeistaramótsgull í kringlukasti unglinga frá 1975 og 800 m hlaupi 1976.

Sex sinnum hefur hún unnið bæði tímareiðina og götureiðina á franska meistaramótinu, síðast í fyrra. Sjöunda tilraunin nú gekk ekki upp, eins og fyrr segir. Alls hefur Longo unnið 1.069 kappreiðar á hjólaferlinum. Meðal afreka hennar eru heimsmet í klukkundarreið á lokaðri braut. Það setti hún í þunna loftinu í Mexíkó árið 2000 og lagði þá að baki 45.094 metra.

Samkvæmt könnun á vegum íþróttadagblaðsins L'Equipe er Longo sjötti vinsælasti íþróttamaður Frakklands um þessar mundir - og fremsta konan.


Rossi vinnur 100. kappaksturinn

Aldrei hef ég verið neitt fyrir mótorhjól, þ.e. aldrei haft löngun til að ferðast á slíkum fákum. Tek reiðhjólið og bílinn fram yfir. Það getur hins vegar verið gaman að horfa á keppni á mótorhjólum. Því langar mig að halda því til haga, að ítalski knapinn frái, Valentino Rossi, vann í dag sinn hundraðasta kappakstur í HM á mótorhjólum, MotoGP.

Afrekið vann Rossi, sem keppir fyrir Yamaha, á HM-móti sem fram fór í Assen í Hollandi í dag. Annar varð liðsfélagi hans Jorge Lorenzo frá Spáni og þriðji Ástralinn Casey Stoner, sem ekur á Ducati.

Rossi hefur margoft orðið heimsmeistari á mótorhjólum og stefnir hraðbyri að titlinum í ár. Aðeins einn annar knapi hefur unnið 100 mót í æðsta flokki HM á mótorhjólum. Þar er um að ræða annan Ítala, Giacomo Agostini.


Lágvaxinn Frakki smýgur yfir 6,01 metra á stöng

Franska stangarstökkvaranum Renaud Lavillenie hefur farið mjög fram á árinu. Í gær stökk hann 6,01 metra sem er franskt met og besti árangur í heiminum. Frakkar hafa átt urmul góðra stangarstökkvara um langt árabil en samt hefur engum þeirra tekist að rjúfa sex metra múrinn fyrr en Lavillenie nú.

Lavillenie vakti fyrst athygli á alþjóðavettvangi svo um munar er hann varð Evrópumeistari innanhúss sl. vetur. Múrinn mikla rauf hann í Evrópubikarkeppninni í Leira í Portúgal í gær. Hann hafði stokkið 5,96 fyrir viku sem var einnig besti árangur í heiminum í ár. Framfarirnar eru miklar því hann hefur bætt árangur sinn utanhúss frá í fyrra um 15 sentimetra.  

Lavillenie er tíundi stangarstökkvari heims til að stökkva yfir 6 metra. Í Leira komst hann yfir 5,80 metra í þriðju tilraun og lét þá hækka beint í 6,01. Fyrsta tilraun við þá hæð misheppnaðist en ekki sú næsta. „Stökkið yfir 6,01 var tæknilega ljótt en ég hafði það þó,“ sagði hann.

Gamla franska metið átti Jean Galfione, ólympíumeistari í Atlanta 1996. Var það 5,98 og vantaði rúman mánuð á að verða 10 ára gamalt. Galfione stökk reyndar 6,00 metra á heimsmeistaramótinu ínnanhúss árið 1999 í Maebashi í Japan. Þá var stangarstökk innanhúss ekki viðurkennt til utanhússmeta.

Lavillenie er ekki stór af stangarstökkvara að vera. Mælist sjálfur aðeins 1,78 metrar á hæð. Sannast því hið fornkveðna um að atgervi og færni ræðst ekki af líkamshæð.  


Schevchenko sagður vilja til Mónakó

Chelsea hefur haft samband við nokkur af helstu knattspyrnufélögum Frakklands og boðið þeim Andrei Shevchenko, leikmann ársins í heiminum 2004. Lyon, Marseille og Mónakó hafa fengið boðið og mun síðastnefnda félagið vera líklegast til að hreppa hann.

Frá þessu segir í dag í stærsta blaði Frakklands,  Ouest-France. Shevchenko mun vera náinn vinur Alexei Fedorichev, forstjóra Fedcom, helsta styrktarfyrirtækis Mónakófélagsins. Blaðið segir úkraínska leikmanninn tilbúinn að taka á sig helmings launalækkun, úr 8 milljónum evra á ári í 4, til að komast í frönsku fyrstu deildina.

Í sama blaði segir, að ítalska félagið Inter í Mílanó hafi falast eftir Karim Benzema frá Lyon. Í staðinn fyrir hann bjóðist Inter til að láta Lyon hafa Vieira og Mancini og 20 milljónir evra að auki Pa   

Fróðlegt verður að sjá hvernig þessum hugsanlegu leikmannaskiptum reiðir af.

 


Takk fyrir, Gourcuff

Verð að lýsa ánægju með franska knattspyrnumanninn Yoann Gourcuff. Hann samdi í dag um að vera fjögur næstu árin í herbúðum Bordeaux í stað þess að snúa til AC Milan á Ítalíu, sem lánaði hann í fyrra til Bordeaux til eins árs.

Gourcuff er að mínu mati afskaplega leikinn og nettur spilari, útsjónarsamur og með mjög gott auga fyrir samspili. Skapar ætíð usla og hættu þegar hann er með knöttinn í nánd við vítateig andstæðinganna.  Það hefur verið ánægjulegt að fylgjast með honum síðastliðið ár. Og eflaust á hann eftir að skemmta manni oft á næstu árum.

Í lánssamningnum fékk franska félagið kost á því að kaupa Gourcuff þar sem hann var þá ekki inni í langtímaplönum þjálfarans Carlo Ancelotti. Það voru skemmtileg mistök hjá Ancelotti því hjá Bordeaux hefur Gourcuff blómstrað - og einnig með franska landsliðinu en þar hefur hann verið fastamaður frá í fyrrasumar. Í liðinu hefur hann náð vel saman með Thierry Henry og Franck Ribery. Ætli hann sé ekki betur settur í Frakklandi en í Mílanó.

Sl. sunnudag kusu leikmenn frönsku deildarinnra Gourcuff sem leikmann ársins. Allar líkur eru á því að hann verði franskur meistari um komandi helgi. Fyrir lokaumferðina er Bordeaux með þriggja stiga forskot á Marseilles. Þarf aðeins að komast hjá því að tapa í Caen á laugardaginn kemur. Bordeaux hefur unnið 10 síðustu leiki sína í röð og allra síst má það við því að tapa núna.

Gourcuff hefur skorað 12 mörk í deildinni frönsku á vertíðinni og eins og að framan segir, stefnir allt í að Bordeaux hampi meistaratitlinum í fyrsta sinn frá 1999. Þá hefur hann sett upp mörg fyrir framherjann Marouane Chamakh.

Laurent Blanc, heimsmeistari frá 1998, hefur stýrt Bordeaux í vetur og segir það hafa verið forgangsmál hjá sér að endurráða Gourcuff. Sjálfur framlengdi hann sinn samning til að sannfæra hinn 22 ára leikmann um að vera um kyrrt.

Markmið Blanc er að Bordeaux geri stærri hluti í meistaradeild Evrópu á næstu leiktíð en í ár. Þesss vegna lagði hann svo mikla áherslu á að halda í Gourcuff.

Samkvæmt skilyrðum lánssamningsins varð Bordeaux að greiða AC Milan 15 milljónir evra fyrir að halda Gourcuff. Í samningi við hann sem undirritaður var í dag, þurfa önnur lið að bjóða a.m.k. 20 milljónir evra í hann til að leysa hann undan samningi við Bordeaux.

Með samningnum vænkast fjárhagur Gourcuff. Hann hefur haft 170.000 evrur í mánaðarlaun. Hann vildi fá hækkun í 400.000 en Bordeaux bauð 300.000. Hver niðurstaðan varð hefur ekki verið skýrt frá, en ekki ólíklegt að hún liggi einhvers staðar á milli launatilboðsins og kaupkröfunnar.

 


Skarð fyrir skildi við brottför Juninho frá Lyon

Þá er það staðfest, sem legið hefur í loftinu, að brasilíski miðvallarleikamaðurinn Juninho er á förum frá Lyon. Þangað kom aukaspyrnusnillingurinn árið 2001 og hefur unnið sjö Frakklandsmeistaratitla með liðinu - og það í röð - og einn bikartitil.

Juninho er 34 ára að aldri og hefur leikið 344 leiki með Lyon. Um helgina skoraði hann sitt 100. mark fyrir liðið, á heimavelli  gegn Caen, og var ákaft hylltur af áhorfendum. Um nokkurra ára skeið hefur hann verið fyrirliði Lyon.

Það er eftirsjá af þessum kraftmikla og snjalla leikmanni, sem 44 sinnum hefur klæðst landsliðstreyju Brasilíu. Í fljótu bragði sé ég ekki hver ætti að fylla skarð hans svo vel sé. Yfirleitt er þó svo, að maður kemur í manns stað í boltanum.

Það eina sem vantar á er að Juninho kveðji sem meistari, en sú von er úr sögunni. Þegar aðeins ein umferð er eftir í frönsku deildinni er Bordeaux með pálmann í höndum, með þremur stigum meira en Marseilles, 77:74 og Lyon er í þriðja sæti með 70 stig. Á laugardaginn kemur lýkur deildinni; Bordeaux fer til Caen og Marseilles tekur á móti Rennes heima.   

Juninho átti eitt ár eftir af samningi við Lyon en fær sig nú lausan allra mála og frjálst að ráða sig hvert sem er. „Hann bað í gær um lausn undan samningi. Fyrir allt sem hann hefur gert fyrir liðið og allt sem hann er tákngervingur fyrir fannst okkur sanngjarnt að verða við því,“ sagði Jean-Michel Aulas stjórnarformaður Lyon við blaðamenn í dag.  „Juni er á förum,“ bætti hann við.  Vinsamleg orð Aulas snertu taugar leikmannsins sem sat við hlið hans og vatnaði músum.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband