Eru Íslendingar áhugasamari um ESB en þegnar sambandsríkjanna?

Því velti ég stundum fyrir mér hvort Íslendingar séu áhugasamari um Evrópusambandið (ESB) en þegnar ríkja þess. Það finnst mér helst þegar saman eru bornar umræður heima á Íslandi um ESB og væntingar sem stór hluti þjóðarinnar virðist bera til þess. Á sama tíma búast þegnar aðildarríkjanna ekki við miklu af sambandinu. Og áhugaleysi þeirra á kosningum til Evrópuþingsins er algjört.

Til að mynda er Frökkum er „skítsama“ um kosningarnar, svo notað sé vont götumál. Hér hefur samt ekki vantað auglýsingar og áróður fyrir því að kjósendur flykkist á kjörstað á sunnudag og 161 flokkur er í framboði. Fjölmiðlar hafa varið miklu rými undanfarnar vikur og lagt sitt af mörkum til að vekja áhuga á kosningunum.

Þá hefur Sarkozy forseti ítrekað hvatt þjóðina til að nýta atkvæði sitt og talað máli Evrópusamstarfsins. En allt kemur fyrir ekki, það sýna hver skoðanakönnunin af annarri undanfarnar vikur. Í könnun Opinionway fyrir fjölmiðlana Apco, La Tribune og BFM og birtist í dag segjast 64% ekki ætla á kjörstað.

Hún leiðir og í ljós, að 73% Frakka og 67% Þjóðverja hafi engan áhuga á kosningunum.

Frakkar sem á annað borð ætla á kjörstað virðast ekki ætla að nota tækifærið til að kjósa gegn stjórn Sarkozy og efnahagsráðstöfunum hennar. Það sýna margar kannanir. Nú síðast í dag könnun TNS Sofres/Logica fyrir frönsku ríkissjónvarpsstöðvarnar, franska ríkisútvarpið og blaðið Le Monde.

Hún er á sama veg og margar fyrri kannanir; kosningabandalag stjórnarflokkanna (UMP og Nouveau centre) muni fá flesta fulltrúa kjörna á Evrópuþingið. Segjast 27% ætla kjósa þessa flokka, en t.a.m. aðeins 19% Sósíalistaflokkinn, stærsta stjórnarandstöðuflokkinn.

Stjórnarflokkarnir hafa grætt á því hversu sundraður Sósíalistaflokkurinn hefur verið frá í frönsku forsetakosningunum fyrir tveimur árum. Og eins samstöðuleysi vinstri flokkanna, sem ekki hafa getað komið sér saman um sameiginleg framboð gegn stjórnarflokkunum.

Umhverfisflokkur Daniels Cohn-Bendit, Europe Ecologie, hefur sótt í sig veðrið og er í þriðja sæti með 15,5% fylgi. Miðjuflokkur Francois Bayrou nýtur 12,5% fylgis. Aðrir flokkar njóta mun minna fylgis, t.d. Þjóðfylking Jean-Marie Le Pen er t.a.m. með 5,0% fylgi. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gísli Ingvarsson

Íslendingar hafa engan sérstakan áhuga á ESB sem slíku. Skiptast menn yfirleitt í frekar andstæða hópa með eða á móti og svo er stór hópur manna sem virðist ekki gefa sjítt.

Vegna þess að þjóðin hefur misst hagkerfið sitt aftur á stig "verðbólguáranna" sem menn trúðu að væru að baki hafa þær raddir gerst háværar að við ættum erindi inn í ESB til að styrkja stöðu okkar í alþjóðlegum samskiptum. "að styrkja stöðu" en ekki til að ESB gerði sjitt fyrir okkur.

Um þetta er hinsvegar deilt að "staða okkar styrkist" við inngöngu í ESB. Hópur manna telur að fullveldissögu Íslendinga sé þá formlega lokið.

Mér segir nú samt hugur að með skuldsetningu þjóðarinnar hafi menn sett fullveldið einmitt að veði og tapað. Því gerir ESB aðild okkur ekkert verra en það að verða aftur teknir alvarlega sem þjóð.

En þetta er semsagt umdeilanlegt og skil ég það vel. Að aðrar evrópuþjóðir (almennir borgarar) séu áhugalausir um bæði okkur og aðild sína að ESB get ég ekki skilið öðruvísi en að hver sé sjálfum sér næstur í þessu einsog öðru.

Gísli Ingvarsson, 6.6.2009 kl. 00:30

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband