Gruna að hrím eða ísing hafi ruglað flugtölvur Air France þotunnar

Hvarf frönsku Airbusþotunnar milli Brasilíu og Senegal er sérfræðingum enn hulin ráðgáta. Þeir virðast þó vera hallast helst að því, að hrím eða ísing hafi hlaðist á hana í gríðarlega ókyrru lofti í grennd við miðbaug. Jafnvel að ísing hafi myndast inni í hreyflunum og við það hafi flókið kerfi skynjara og rafeindabúnaðar ruglast í ríminu og sent villandi upplýsingar til flugtölvunnar, sem matar sjálfstýringuna og/eða flugmenn á upplýsingum um virkan búnaðar þotunnar.

A330 þota Airbus er sögð ein tæknivæddasta farþegaþota heims. Tölvukerfi hennar sendir m.a. sjálfvirkt gögn og athugasemdir um virkan stjórnbúnaðar til viðhaldsstöðva Air France til að auðvelda eftirlit og viðhald. Fjöldi slíkra boða bárust á þriggja mínútna skeiði undir lok flugsins. Af slíkum sendingum á síðustu mínútum flugferðarinnar örlagaríku hefur verið reynt að púsla saman mynd af því sem hugsanlega gerðist.

Meðal slíkra gagna eru boð um skyndilegan rafkerfisbrest og einnig að þrýstingur hafi farið af stjórn- og farþegaklefanum. Hið fyrrnefnda þykir benda til að drepist hafi samtímis á báðum hreyflum og þeir ekki farið aftur í gang. Mörg dæmi eru um grunsamlega hreyfilslokknun á flugi en m.a. hefur verið girt fyrir slíkar hættur með því að hafa afísingarbúnað í gangi þegar flogið er í mjög ókyrra lofti þar sem þruma og eldinga er von.

Eigi slík slokknun sér stað er í þotum búnaður tengdur hreyflunum sem nýtir hreyfiþrýsting og gerir flugmönnum m.a. kleift að hafa stjórn á lækkun hreyfildauðrar flugvélar svo nauðlenda megi henni. Hafi sá búnaður skemmst einnig, vegna ísingar sem brotið hefur t.d. hreyfilblöð, hafi flugmennirnir ekkert fengið að gert og þotan hrapað stjórnlaust.

Meðan flugriti þotunnar er ófundinn kemur hið sanna ekki í ljós. Og ekki heldur hvort flugmennirnir hafi reitt sig á sjálfstýringu flugvélarinnar eða tekið stjórn flugsins yfir. Sé kenningin um villandi boð frá nemum þotunnar til stjórntölvunnar hafi viðbrögð við þeim eftir sem áður getað verið röng og leitt til þess að hún fórst. Þegar flugvélin ferst sýna rannsóknir á veðurfari á þeim slóðum, að hún hafi verið búin að vera í 10-15 mínútur í einstaklega ókyrru lofti, þar sem skipst hafi á gríðarlegt uppstreymi og niðurstreymi lofts.

Eins og svo oft áður, þykja því líkur á, að margir samverkandi þættir hafi orsakað flugslysið. Til að leiða hið sanna í ljós, svo koma megi í veg fyrir endurtekningar óhappa sem þessa, verður áhersla lögð á að finna flugrita þotunnar. Og brak, sem a.m.k. getur gefið vísbendingar um hvort hún hafi byrjað að brotna og splundrast á flugi eða hrapað tiltölulega heil í hafið.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Af hverju fljúga menn inn í svona hrikalegt óveðursbelti, allt fullt af CB's? Af hverju ekki snúa til baka eða til "alternate" flugvallar, sem valinn hefur verið með tilliti til svæðisins, þar sem óveðrið geysar. Þetta á eftir að breytast. Ég held að flugmenn séu orðnir of værukærir hvað Meteo varðar.

Haukur Kristinsson (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 08:04

2 identicon

"Eigi slík slokknun sér stað er í þotum búnaður tengdur hreyflunum sem nýtir hreyfiþrýsting og gerir flugmönnum m.a. kleift að hafa stjórn á lækkun hreyfildauðrar flugvélar svo nauðlenda megi henni. Hafi sá búnaður skemmst einnig, vegna ísingar sem brotið hefur t.d. hreyfilblöð, hafi flugmennirnir ekkert fengið að gert og þotan hrapað stjórnlaust."

Þetta er ekki alveg rétt hjá þér, að auki geta þeir sett niður litla vindmyllu ef allt annað er farið og geta þannig framleitt rafmagn.

karl (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 11:20

3 identicon

Það hlýtur eiginlega að vera að skrokkur eða vængir hafi einfaldlega gefið sig í einhverjum ógnarkröftum í þessu þrumuskýi, þó að það þurfi gríðarlega mikið til að það gerist. Þó að rafkerfi detti út þá eru til staðar varakerfi og þó að hreyflar drepi á sér þá eru farþegaþotur líka góðar svifflugur og hrynja ekki bara niður á punktinum. Ef það er rétt að síðustu sjálfvirku skilaboðin hafi verið um þrýstingsfall í stjórn og farþegarými þá gæti það bent til þess að skrokkurinn hafi gefið sig. Sömuleiðis hefur aðeins fundist smátt brak úr vélinni dreift yfir nokkurt svæði þannig að líklegt er að vélin hafi sundrast á flugi. Það verður að finna þennan flugrita og fá botn í málið, það þarf að draga einhvern lærdóm af þessum hörmungum.

Bjarki (IP-tala skráð) 3.6.2009 kl. 11:39

4 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Það er óhjákvæmilegt að fara um svona veðrakerfi eins og þarna við miðbaug, þar sem loftstraumar tveggja jarðarhvela mætast og krauma. Flugmenn sjá helstu hættur á veðurratsjá sinni og eiga þess kost að krækja fyrir þær, ef svo  ber undir. Þarna voru um svipað leyti fullt af öðrum vélum á ferð og komust klakklaust áfram - ef frá eru talin óþægindi og mikilli ókyrrð. Franska þotan hefur kannski verið á röngum stað á röngum tíma og lent í verstu hugsanlegu aðstæðum.

Ég vissi ekki af þessum vindmyllum í nútímaþotum, hélt þetta væri eitthvað sem var aðeins til í gamla daga. Og hvernig á að koma vindmyllunni niður ef allt rafmagn er farið. Þarf ekki að opna einhvern hlera? Með rafmagni?

Það er nóg að gluggi í farþegaklefa brotni, þá er þrýstingur farinn af á svipstundu í svona hæð. En það er líka rétt, Bjarki, að einn möguleikinn er sá sem þú nefnir, að skrokkurinn sé að liðast í sundur. Spurningin þá er hvenær hætta tölvur þotunnar að senda frá sér þessar sjálfvirku athugasemdir. Verða tölvurnar ekki að vera í gangi til þess? Og fá rafmagn? Eru þær kannski tengdar við sjálfstæð batterí?

Fyrirfram er ekkert útilokað að flugritinn finnist og náist. Það er þó talið verða afar erfitt og flókið, a.m.k. ekki minna mál en reyna leyta nálar í heystakki. Sendar hans gefa frá sér merki í aðeins 30 daga eða svo.

Ágúst Ásgeirsson, 3.6.2009 kl. 16:02

5 Smámynd: Kolbrún Hilmars

Eru þessar stóru flugvélar ef til vill orðnar of tæknivæddar?  Sú sem hér spyr hefur ekki hundsvit á málinu en er spurn; er ekki lengur neitt svigrúm fyrir flugmennina að bregðast við í neyð - svona "manualt"?

Kolbrún Hilmars, 3.6.2009 kl. 17:09

6 identicon

Það má lesa meira um þessar "vindmyllur" hér. Þær verða virkar sjálfkrafa þegar rafkerfi vélarinnar detta út, í millitíðinni er notast við rafhlöður.

Bjarki (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 08:13

7 identicon

Hvernig er það ef loftþrýstingskerfi dettur út í farþegarýminu, líður þá nokkuð langur tími þar til fólkið deyr? Þannig að það finnur kannski ekki fyrir fallinu?

Guðrún Geirsdóttir (IP-tala skráð) 4.6.2009 kl. 15:09

8 identicon

Fólk missir meðvitund út af súrefnisskorti á mínútu eða minna við skyndilegt þrýstingsfall í þessari hæð. Maður vonar eiginlega þeirra vegna að sú hafi verið atburðarásin.

TR (IP-tala skráð) 5.6.2009 kl. 13:43

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband