Bílar brenna sem bálkestir um áramót

Sú einkennilega iðja er stunduð um hver áramót í Frakklandi, að kveikt er í bifreiðum sem loga síðan eins og bálkestir á götum úti eða bílastæðum. Skemmdarverk þessi voru mun fleiri um nýliðin áramót en þau fyrri. Eldur var borin að 1147 bílum í stað 878 ári fyrr.

Uppátektir þessar eiga rætur að rekja til austurhéraða landsins í kringum 1970 og eru þar mest ástundaðar. Aðallega eru að verki ungir skemmdarvargar sem haldnir eru þessari undarlegu hvöt að brenna bíla borgaranna.

En þó ekki  einvörðungu, því grunur leikur á að nokkuð sé um, að sjálfir eigendur bílanna notfæri sér ástandið til að setja bruna á svið í þeim tilgangi að svíkja út tryggingaféð. Og innanríkisráðuneytið í París telur að hin mikla aukning á bílabrennum frá í fyrra sé að hluta til vegna sviksemi af þessu tagi.

Lögregla og slökkviliðsmenn höfðu í nógu að snúast við að reyna slökkva bílelda en sums staðar hafði fólk sig í frammi og truflaði aðgerðir sem mest mátti, aðallega í vandræðahverfum á Parísarsvæðinu.

Alls hafði lögregla afskipti af 288 manns vegna bílabrunanna sem er 11,2% aukning frá í fyrra. Margir þeirra reyndust ekki háir í loftinu. Í borginni Nantes á norðvesturströndinni var t.d. 13 ára piltur gripinn glóðvolgur með logandi pappírsrúllu sem hann gerði sig líklegan til að stinga inn í bílinn, um brotna rúðu.

Nicolas Sarkozy forseti krafðist þess af stjórninni á nýársdag að skoðaðir yrðu möguleikar á lagasetningu og regluverki er kæmi í veg fyrir að bílabrennuvargar fengju hvers kyns ökuréttindi.

 


Citroën-bragginn sextugur

Sextíu ár eru í haust frá því Citroën Deux Chevaux (2CV) bíllinn leit fyrst dagsins ljós á götum Frakklands, en landsmönnum leist ekki of vel á gripinn í fyrstu. Jafnframt eru 18 ár frá því síðasti bíllinn af um fimm milljónum smíðuðum rann af framleiðslulínunni.

Vegna tímamótanna hefur verið opnuð sýning í vísindasafninu í París (Cité des Sciences) sem tileinkuð er afmæli „braggans“, eins og bíllinn hefur löngum verið uppnefndur á Íslandi.

Þar eru smíðiseintök frá ýmsum tíma, allt frá meinlætislega gráum bíl frá 1948 upp í „Charleston“-stælbílinn frá níunda áratugnum. Fyrir augu ber hvernig bíllinn hefur þróast og breyst í áranna rás þó að ytri línur hafi í aðalatriðum haldið sér. Einnig er gerð grein fyrir ýmsum nýjungum sem Citroën hefur fundið upp um dagana.

Þar má sjá strigasætin gömlu sem kippa mátti úr bílnum í lautarferðum svo vel færi um menn úti í náttúrunni. Líka langa bensínfetilinn sem var í fyrstu módelunum svo bændur gætu ekið bílnum í tréklossunum sem þeir klæddust jafnan.

Setjast má upp í bíl og finna hina miklu færslulengd sem var í fjöðrun 2CV-bílsins en sú útfærsla kom sér vel á ferðalögum á misjafnlega vel viðhöldnum sveitavegum.

Traustur og bilar sjaldan

Meðal hönnunarforsendna braggans var að hann væri „lítill fjögurra sæta bíll er gæti ekið yfir plægðan akur með eggjakörfu í aftursætinu án þess að neitt þeirra brotnaði“. Upphaflega var hann hugsaður sem ódýrt farartæki fyrir efnalítið dreifbýlisfólk með sæti fyrir fjóra.

Í sýningarskránni segir að með uppsetningunni sé pínulítill og tæknilega framúrstefnulegur bíll er þjónaði kynslóðum notenda heiðraður. Blaðið Le Monde segir sýninguna „tilfinningalega lofgjörð“. Blaðið sagði einnig: „Allt annað en að dást að bílnum er erfitt, miðað við þá þjónustu sem hann innti af hendi og þær minningar sem honum tengjast.“

Allir núlifandi Frakkar á miðjum aldri og eldri eiga minningar tengdar 2CV-bílnum. Hann reyndist traustur og bilaði sjaldan, var ódýr í rekstri.

Segja má að hann hafi enst vel því vart líður sá dagur að maður sjái ekki „bragga“ á ferð. Einkum þó úti á landi, í sveitum, t.a.m. á Bretaníuskaganum þar sem hann þjónar ennþá eigendum sínum – yfirleitt öldruðu bændafólki – vel.

Á eftirstríðsárunum komu fram litlir fólksbílar sem áttu eftir að verða nokkurs konar þjóðartákn og ná miklum vinsældum. Jafnvel langt út fyrir landsteina viðkomandi ríkja.

Ítalir fengu Fiat 500, Þjóðverjar bjölluna frá Volkswagen, Bretar mínibílinn frá Austin og Frakkar framdrifna „tvíhófinn“ eins og margir nefna 2CV-bílinn. Þar er óbeint skírskotað til þess að framan af var hann knúinn tveggja strokka, 375 rúmsentimetra og níu hestafla loftkældum mótor.

Stöðutákn víða um heim

Langlífi Citroën-bílsins er annálað og einungis bjallan stenst honum snúning í þeim efnum. Báðir bílarnir voru fundnir upp fyrir seinna stríðið. Fyrstu 2CV-bílarnir, sem Citroën nefndi reyndar TPV, voru tilbúnir til að fara á markað sumarið 1939.

Citroën greip hins vegar til þess ráðs að eyðileggja nær alla bílana hundrað sem tilbúnir voru svo að þeir féllu ekki í hendur innrásarherja nasista. Nokkrir voru faldir á sveitabæjum og í geymsluskúrum. Komu fyrstu bílarnir af þessari földu frumsmíð ekki fram í dagsljósið fyrr en árið 1968.

Þrír TPV-bílar í mjög góðu ásigkomulagi fundust árið 1998 undir heyi í hlöðu við gamla æfingabraut Citroën við Ferté-Vidame í héraðinu Eure-et-Loir. Vöktu þeir mikla athygli á fornbílasýningu í París sama ár.

Þegar 2CV-bíllinn birtist svo í sýningargluggum bílasala í París 14. október 1948 og fór þar með á almennan markað var hann ögn nútímalegri en frumsmíðin. Bílablaðamönnum þótti hann þó gamaldags og hálfúreltur og almenningur hafði í fyrstu efasemdir um bílinn. En ekki leið á löngu þar til almenningur tók ástfóstri við braggann vegna einfaldleikans. Áður en varði var fimm ára biðlisti eftir bílnum.

Á sjöunda áratugnum og síðar þjónaði 2CV-bíllinn eigendum sínum í öllum löndum Evrópu og í Suður–Ameríku. Og hann var í lykilhlutverki í margri kvikmyndinni, þar á meðal í Bond-myndinni „For Your Eyes Only“ frá árinu 1981 og í „Apocalypse Now“. Að því kom að franski fátæklingabíllinn varð að stöðutákni víða um heim. Jafnvel á Íslandi.


Einföldun að segja að Sarkozy hafi fengið falleinkunn

Það er kannski til of mikils mælst að ætlast til mjög nákvæmra fréttaskrifa utan Frakklandssteina af sveitarstjórnarkosningum hér í Frakklandi. Ég hef reynt að setja mig nokkuð vel inn í þær og hef auk þess reynt að fylgjast með því hvernig engilsaxneskar fréttastofur hafa fjallað um þær. Oft finnst mér eins og þar stýri franskir sósíalistar penna, svo einhliða og yfirborðskenndar eru fréttirnar oftast.

Það er t.d. í besta falli talsverð einföldun að segja að Nicolas Sarkozy forseti hafi fengið falleinkunn í kosningunum. Verið getur að einhverjir kjósendur hafi vilja með atkvæði sínu mótmæla stjórnarstefnu hans. Líklegra finnst mér að stefna forsetans hafi frekar stuðlað að því að drífa stuðningsmenn Sósíalistaflokksins á kjörstað því dræm kjörsókn er áberandi og ein af athyglisverðari niðurstöðum kosninganna.

Vissulega unnu sósíalistar á og endurheimtu margar borgir og bæi sem þeir töpuðu í hendur hægrimanna í síðustu kosningum, 2001. Nær væri þó að segja að meira jafnvægi sé komið í pólitískt landslag á landsmælikvarða eftir sigur hægrimanna í bæði forseta- og þingkosningunum í fyrra.

Dræmasta kjörsókn frá 1959

Þannig mun Sósíalistaflokkurinn hafa fengið um 49,5% greiddra atkvæða í gær en flokkur Sarkozy um 47,5%. Mikla athygli vekur hins vegar dræmasta kjörsókn í nokkrum kosningum í Frakklandi frá 1959. Á landsvísu greiddu aðeins 65% atkvæði og var kjörsóknin minni í þéttbýli en dreifbýli. Í einstökum hverfum Parísar höfðu vel yfir 40% kjósenda að jafnaði ekki fyrir því að sækja kjörstað. Í því hverfi sem harðast var barist, hinu fimmta, var kjörsóknin aðeins 68,49% og í hverfunum 20 í heild 56,25%.

Þá er algengt að nú séu komnir til valda borgarstjórar sem ekki hafa meirihluta kjósenda á bak við sig, þökk sé kosningakerfinu. Í seinni umferðinni er kosið aftur milli allra sem fengu a.m.k. 10% atkvæða í fyrri umferðinni. Því var algengt að frambjóðendur væru þrír og að atkvæði dreifðust þannig að enginn fékk meirihluta; sá atkvæðamesti hlýtur þá hnossið.

Fyrir barðinu á þessu varð Francois Bayrou, leiðtogi miðjuflokksins, Modem, sem hafnaði samstarfi við flokk Sarkozy (UMP) í heimaborg sinni Pau við Pýrenneafjöll og mistókst að nýta sér klofning í röðum sósíalista. Hann fékk 38,81% atkvæða en nýr borgarstjóri sósíalista 39,76%. Frambjóðandi UMP hlaut 21,42% en þar var um fyrrverandi borgarstjóra og sósíalista að ræða.

Kjósendur vilja hraðari umbætur

Vart getur það talist falleinkunn fyrir Sarkozy, að 20 ráðherrar af 24 í stjórn hans sem buðu sig fram til borgarstjóra eða til borgarstjórnarsætis náðu kjöri. Tveir töpuðu mjög naumlega. Annar þeirra fráfarandi borgarstjóri (Xavier Darcos) en hinn nýr í framboði (Rama Yade). Vantaði Darcos einungis 113 atkvæði til að halda velli í Perigueux.

Þá vill svo til að stofnanir sem fást við skoðanakannanir spurðu fólk við kjörstaði um afstöðu þess til umbótastefnu ríkisstjórnar Sarkozy. Drjúgur meirihluti vildi að aukinn kraftur yrði settur í umbætur eða haldið áfram á sama hraða, en aðeins um fjórðungur vildi að hægt yrði á ferðinni. Við þessum niðurstöðum áttu forystumenn sósíalista engin svör í kosningasjónvarpi í gærkvöldi.

Mjög óvenjulegt fyrirkomulag er á sveitarstjórnarkosningunum. Í París er ekki bara kosinn borgarstjóri Parísar, heldur líka fyrir hvert hinna 20 hverfa borgarinnar. Svipað gildir um aðrar stærstu borgir. Hægrimenn héldu 8 af 20 hverfum Parísar og meðal nýrra hverfaborgarstjóra er Rachida Dati dómsmálaráðherra. Hún var kosin borgarstjóri með 57,7% atkvæða í sjöunda hverfi en frambjóðandi Sósíalistaflokksins fékk 27,2%.

Delanoe styrkir stöðu sína í Sósíalistaflokknum

Bertrand Delanoe styrkti stöðu sína sem borgarstjóri Parísar, hlaut 57,7% atkvæða miðað við 49,6% 2001. Skiptir niðurstaðan líklega þó mestu fyrir hann vegna nýs leiðtogakjörs í Sósíalistaflokknum sem verið hefur hálfgert rekald frá í forsetakosningunum í fyrra. Hann sækist eftir því hlutverki auk fjölda annarra, þ. á m. Segolene Royal sem tapaði fyrir Sarkozy í forsetakosningunum í fyrra.

Dræm kjörsókn vekur athygli, eins og fyrr segir. Var aðeins tæp 65% og hefur ekki verið minni í neinum kosningum frá 1959. Í fyrri umferðinni fyrir hálfum mánuði var kjörsóknin um 67,5% og hafði ekki verið meiri í nær hálfa öld.

Þetta gerist þrátt fyrir gríðarlega herkvaðningu bæði hægri- og vinstriflokka eftir fyrri umferðina. Hægrimenn segja þetta skýran vott um að það séu staðbundin mál sem kosið er um í sveitarstjórnarkosningum en ekki landsmálin. Francois Fillon forsætisráðherra sagði að ríkisstjórnin þyrfti engan lærdóm að draga af úrslitunum.

„Þögn kjörklefans“

Valerie Pecresse sem fer með málefni háskóla og æðri menntunar í stjórninni gekk svo langt að kalla úrslit sveitarstjórnanna „þögn kjörklefans“ gagnvart landsmálunum. Roger Karoutchi, sem fer með samskipti stjórnarinnar við þingið, mótmælti staðhæfingum sósíalista um að líta bæri á úrslitin sem kröftug mótmæli við stjórnarstefnuna. Karoutchi sagði það einkenni á andófskosningum að kjörsókn væri gríðarleg. Raunveruleikinn væri því sá, hin dræma kjörsókn, að sósíalistum hefði mistekist það ætlunarverk sitt að fá kjósendur til að vanda um fyrir ríkisstjórn Sarkozy.

Margt fleira mætti tína til um kosningarnar sem ýtir undir þá skoðun mína, að varlegt sé í besta falli að nota niðurstöðuna til að fella sérstakan dóm um störf Sarkozy og stjórnar hans. Einkamál hans voru í sviðsljósinu um tíma og jafnvel meira en fólk almennt kærir sig um. Þau hafa fyrst og fremst stuðlað að því að draga úr almennu trausti í garð forsetans en ekki stjórnarstefnunnar. Þá hefur það bitnað á vinsældum hans að segjast lítið geta gert í að auka kaupmátt almennings þar sem ríkiskassinn sé tómur, en í kosningabaráttunni í fyrra var kaupmátturinn eitt stærsta mál hans og Sarkozy; sagðist ætla verða „kaupmáttarforseti“ Frakklands, næði hann kjöri. Nú vilja kjósendur að hann hraði umbótum, sem m.a. eiga að bæta kjör og hag fólks.

Hin rósrauða bylgja sem reis í sveitarstjórnarkosningunum nú er misjafnlega há. Einna minnst er hún á mínum slóðum, á Bretaníuskaga í vesturhluta landsins. Hún virðist sýna, að pólitískt starf sósíalista sé mun skilvirkara í sveitarstjórnum en á landsvísu, þegar á heildina er litið. Sósíalistar áttu þó alls ekki upp á pallborðið í mínu kjördæmi en þar réðust úrslitin strax í fyrri umferðinni. Hægrimenn fengu 65% atkvæða og 24 af 29 bæjarfulltrúum í þessum 6.000 manna bæ. Kjörsókn var langt umfram það sem gerðist á landsvísu, eða 77,5%.

p.s.

Rétt að halda því til haga, að í kvöldfréttum sjónvarps voru endanlegar tölur um fylgi og kjörsókn birtar. Sósíalistar fengu 49%, flokkur Sarkozy 47,5% og kjörsóknin 62%. Því sniðgengu 38% kjörklefann, en ekki 36% eins og talið var við lok kjörstaða í gær.

 


Sego og Sarko vörðu 8,3 milljónum í förðun og hársnyrtingu

Þeir sem standa í pólitísku brölti og þurfa að reiða sig á stuðning kjósenda fara ýmsar leiðir til að vinna atkvæði og öðlast brautargengi. Í aðdraganda frönsku forsetakosninganna sl. vor eyddi Nicolas Sarkozy jafnvirði 3,3 milljóna króna í andlits- og hársnyrtingu. Var þó ekki nema hálfdrættingur á við helsta keppinautinn, Segolene Royal sem borgaði 52.000 evrur eða 5 milljónir króna fyrir förðun og hársnyrtingu.


Franska ríkisendurskoðunin hefur lokið yfirferð yfir kostnaðarreikninga frambjóðendanna allra, ekki bara Sarkozy og Royal sem kosið var á milli í seinni umferðinni.


Eftir hálfs árs yfirlegu þótti endurskoðuninni þessi kostnaður óhóflega mikill og ekki réttlætanlegt að niðurgreiða nema hluta hans, eða um þriðjung. Hún sagði að alla jafnan væri um persónulegar þarfir að ræða. Sarkozy, sem borgaði stundum 450 evrur á tímann í fínum snyrtistofum, fær því 1,1 milljónir króna af skattfé almennings upp í snyrtikostnaðinn og Royal 1,6 milljónir.


Mér finnst ólíklegt að þessar upplýsingar mælist vel fyrir hjá almenningi hér í landi  sem fyrst og fremst hefur áhyggjur af þverrandi kaupmætti og mun því blöskra bruðl sem þetta og að það skuli að hluta til kostað af skattfé hans.


Segolene Royal vildi fá förðunarkostnað sinn endurgreiddan en verður að borga tvo þriðju hans úr eigin vasa. Henni var einnig synjað um endurgreiðslu á 53.500 evra  kostnaði (um 5,2 m.kr.) við gagnnjósnabúnað, rafeindaskynjara, sem hún lét koma fyrir á kosningaskrifstofu sinni af ótta við að Sarkozy reyndi að njósna um starfsfólk skrifstofunnar.

Í heildina samþykkti ríkisendurskoðun einungis að endurgreiddur yrði um helmingur þeirrar 21 milljónar evru sem frambjóðendurnir tveir vörðu í kosningabaráttu sína.

Leiðtoga Þjóðfylkingarinnar, Jean-Marie Le Pen, var synjað um endurgreiðslu á 15 milljóna króna kostnaði við veisluhöld fyrir baráttusveitir sínar. Tímaritið L'Express hefur reiknað út að hlutfallslega mest kostaði hvert atkvæði sem féll á frambjóðandann Marie-George Buffet, leiðtogi  kommúnistaflokksins, eða 6,81 evru, jafngildi 653 króna.

Í samanburði var hvert atkvæði Sarkozy næstum fjórum sinnum ódýrara, kostaði 1,83 evrur, eða 175 krónur.

Lang ódýrust voru atkvæði trotskíistans og póstmannsins Olivier Besancenot. Kostuðu  0,61 evru hvert, 58 krónur.


Blair ergir franska sósíalista sem vilja hann ekki sem forseta ESB

Franskir sósíalistar vilja ekki sjá að Tony Blair verði fyrsti forseti Evrópusambandsins (ESB). Hann á hins vegar stuðning hægrimanna og Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta vísan.

Blair var gestur ársfundar flokks hægrimanna (UMP) sl. laugardag og lýsti þar framtíðarsýn sinni fyrir Evrópu. Þykir koma hans til fundarins og ræða til marks um að hann hyggist sækjast eftir starfanum nýja sem til verður síðar á árinu.

Það líst leiðtoga Sósíalistaflokksins, Francois Hollande, meinilla á. Hann segir stuðning Blair við herförina í Írak gera hann óheppilegan til forsetastarfans.

„Við þurfum forseta sem gæti verið fulltrúi Evrópu sem hefur eigin stefnu og er óháð Bandaríkjunum. Og ég held að Tony Blair uppfylli þau skilyrði ekki,“ sagði Hollande við frönsku útvarpsstöðina Radio J.

Í ræðu sinni á þingi flokks UMP, sem Sarkozy var formaður uns hann var kosinn forseti, lét Blair þau orð falla að með skoðunum sínum og viðhorfum myndi hann eiga vel heima í stjórn Sarkozy. Þau ummæli kunnu franskir sósíalistar ekki að meta.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband