27.4.2009 | 08:59
Engin svínaflensa í Frakklandi
Búandi í einu mesta landbúnaðarhéraði Frakklands verður ekki annað sagt en ég hafi orðið fegin að heyra franska heilbrigðisráðherrann með karlmannsröddina, Roselyne Bachelot, skýra frá því í morgun, að svínaflensan hefði ekki breiðst til Frakklands.
Tilfellin sem grunur lék á að gætu verið svínaflensa reyndust ekki vera það, sagði Bachelot við útvarpsstöðina RTL í morgun. Við aðra stöð, Europe 1, sagði hún síðar í morgun, að engin ástæða væri að óttast og Frakkar væru vel undir það búnir að mæta svínaflensu, bærist faraldurinn til landsins.
Veikin hefur dregið næstum 100 manns til dauða í Mexíkó og grunur lék á að tveir ferðalangar þaðan hafi sýkst. Rannsóknir hafa nú leitt í ljós að þeir voru með hversdagslega flensu en ekki svína.
27.4.2009 | 07:50
Chirac verður saksóttur fyrir að misnota almannafé
Jacques Chirac fyrrum Frakklandsforseti er ekki búinn að bíta úr nálinni vegna spillingarmála í tíð hans sem borgarstjóri Parísar. Hann verður að líkindum dreginn fyrir rétt í sumar fyrir að misnota sjóði borgarinnar í þágu til að fjármagna kosningabaráttu sína.
Eftir að Chirac lét af forsetastarfi sumarið 2007 hafa vinsældir hans aukist jafnt og þétt þó hann hafi að mestu haldið sig utan kastljóss fjölmiðla og sjáist sjaldan á almannafæri. Mestur er stuðningur þessi meðal vinstri sinnaðra kjósenda. Vafasöm fortíð hans vofir hins vegar yfir honum sem draugur og gæti átt eftir að sverta ímynd hans.
Nú hefur rannsóknardómarinn Xaviere Simeoni sem fer með annað af tveimur málum gegn Chirac gefið lögmönnum hans frest fram í júlí til að gera athugasemdir við gögn málsins og fara fram á frekari rannsókn málsþátta. Að þeim fresti liðnum þykir blasa við að ákæra fyrir misnotkun almannafjár verði birt forsetanum fyrrverandi.
Chriac er gefið að sök að hafa sett fylgismenn sína og vini á launaskrá Parísar í borgarstjóratíð sinni. Hlutverk þessa sérlega starfsafla hafi ekki falist í öðru en undirbúa forsetaframboð hans. Út á við neitar hann þessum ásökunum staðfestlega en heimildir úr dómskerfinu herma, að við yfirheyrslur hafi Chirac játað, að hann einn ætti að bera sök á ólögmætum ráðningum en ekki nánustu ráðgjafara og samverkamenn hans.
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 07:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2009 | 19:47
Loeb ósigrandi
Franski ökumaðurinn Sebastien Loeb, sem ekur Citroen C4, er í algjörum sérflokki í HM í ralli. Í dag fór hann með sigur af hólmi í argentínska rallinu fimmta árið í röð. Þá vann hann fimmta mótssigur sinn í ár en hann hefur verið ósigrandi frá í fyrra.
Liðsfélagi Loeb, Spánverjinn Dani Sordo, varð í öðru sæti í Argentínu, 1,13 mínútum á eftir. Þriðji varð Norðmaðurinn Henning Solberg, rúmum fjórum mínútum á eftir Frakkanum.
Loeb er kominn með 20 stiga forystu í keppninni um heimsmeistaratitil ökuþóra, en vertíðin er að verða hálfnuð. Hefur hann 50 stig, Sordo 31 og Finninn Mikko Hirvonen hjá Ford 30 stig.
Ég held að ekkert geti komið í veg fyrir að Loeb vinni titil ökuþóra í ár, sjötta árið í röð. Enginn annar ökumaður í sögu HM í ralli kemst með tærnar þar sem hann hefur hælana hvað árangur og afrek varðar.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
26.4.2009 | 19:33
Sarkozy yrði kjörinn færu forsetakosningar fram nú
Væru haldnar forsetakosningar í Frakklandi í dag með sömu frambjóðendum í fyrstu umferð og fyrir tveimur árum myndi Nicolas Sarkozy fara með sigur af hólmi. Hann hlyti 28% í fyrstu umferð, Segolene Royal 20,5% og Francois Bayrou 19%.
Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Ifop-stofnunin gerði fyrir franska dagblaðið Sud-Ouest. Í kosningunum 2007 hlaut Sarkozy 31% í fyrstu umferð og var kosið milli þeirra Royal í seinni umferðinni.
3.1.2009 | 16:55
Frakkar teljast vera 63.185.925
Franska hagstofan birti á gamlársdag íbúatölur eins og þær voru við árslok 2006. Þá reyndust Frakkar vera alls 63.185.925 talsins og telst það hin opinbera íbúatala landsins við upphaf ársins 2009. Fjölgaði Frökkum um 5% eða þrjár milljónir á árunum 1999-2006, en 1999 voru þeir 60.185.831. Af ríkjum Evrópusambandsins (ESB) eru íbúar Þýskalands einungis fleiri.
Af einstökum héruðum landsins varð fjölgunin á tímabilinu hlutfallslega mest á Korsíku, eða 13%, í Languedoc-Roussillon var hún 10,4%, í Midi-Pyrénées 8,8% og 7,3% í héraðinu l'Aquitaine. Minnst varð fjölgunin í norður- og austurhluta landsins, eða 0,5% í Nord-Pas-de-Calais, 1,1% í Lorraine og 1,9% í Picardie. Í aðeins einu héraði varð fækkun, um 0,3%, þ.e.a.s.í Champagne-Ardenne.
Á landsvísu skýrist fjölgun íbúa mest af fæðingum sem hafa verið talsvert umfram dauðsföll. Fólksflutningar hafa hins vegar talsverð áhrif varðandi íbúafjölgun einstakra héraða landsins. Stórborgir eiga sinn skerf af fjölguninni.
Þannig fjölgaði íbúum Parísar í herfunum 20 innan hringvegarins um tæp 60.000 á tímabilinu, eða úr 2.122.848 íbúum í 2.191.371. Hjálpar þar til auknar fæðingar og nýbyggingar fjölbýlishúsa en hlutfallslega er meðalaldur íbúa Parísar lágur - og dánartíðni þar af leiðandi lægri - vegna brottflutnings lífeyrisþegar til suðurhluta landsins.
Á eftir París er Marseille næstfjölmennastas borg Frakklands, með 847.084 íbúa, í þriðja sæti er Lyon með 480.778, í fjórða Toulouse með 444.392, í fimmta Nice með 350.735, í sjötta Nantes með 282.853, í sjöunda Strasbourg með 276.867, í áttunda Montpellier með 254.974, í níunda Bordeaux með 235.878 og tíunda stærsta borg Frakklands er Lille með 232.432 íbúa. Helmingur 10 stærstu borganna sem sagt á belti syðst í landinu, frá Bordeaux til Nice.
Mest er íbúaþéttnin á Stór-Parísarsvæðinu, svæði er nefnist Ile-de-France eða 11,5 milljónir. Munar þar mest um útborgir Parísar. Í héruðunum fjórum syðst í landinu frá Atlantshafi til Alpafjalla búa rúmar 13 milljónir. Næstfjölmennasta einstaka héraðið er Rhone-Alpes með sex milljónir íbúa en á því er að finna þriðju stærstu borgina, Lyon.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)