Skilar þetta sér ekki aftur í ríkissjóð í aukinni neyslu?

Stenst það hagfræðina að tala um að eitthvað kosti ríkissjóð, eins og Vilhjálmur segir um aukinn  persónuafslátt? Og gleymir hann ekki að reikna þá hvað mikið af þessari kjarabót skilar sér aftur í ríkissjóð í formi virðisauka o.s.frv.? Lækkun skatta jafngildir verulegri hækkun kaupmáttar og það er augljóst að menn eyða aukaseðlunum sem þeir hefðu milli handa með skattalækkun.

 


mbl.is Aukinn persónuafsláttur kostar 40 milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

10 teiknimyndabækur á dag

Frakkar eru að sönnu mikil bókaþjóð. Útgáfa teiknimyndabóka ber því glöggt vitni, en í þær eru landsmenn sérdeilis sólgnir. Munu nær 10 slíkar hafa komið út að jafnaði dag hvern í ár, og eru þá allir 365 dagar ársins taldir með.

Samkvæmt útreikningum samtaka franskra bókagagnrýnenda voru gefnar út 4.300 teiknimyndatitlar á nýliðnu ári. Þar af 3.312 nýir titlar en afgangurinn eru endurútgáfa eldri bóka.

Kemur þetta fram frétt stærsta blaðs Frakklands, Ouest-France. Þar segir jafnframt að útgáfa teiknimyndabók hafi aukist ár frá ári síðustu 12 árin í röð.

Því fer fjarri að teiknimyndabækur séu þær einu sem gefnar eru út hér í landi. Í einni viku í október sl. komu t.d. út um 700 nýir bókartitlar.

 

 


Sarkozy vill heiðra fleiri konur, ekki bara karla!

Nicolas Sarkozy Frakklandsforseti hefur gert ráðherra og æðstu yfirmenn ráðuneyta afturræka með því að hafna tillögum þeirra um orðuveitingar um áramótin. Of mikið var af körlum á listum þeirra, og alltof mikið af opinberum embættismönnum og stjórnmálamönnum.

Nú hamast yfirmenn í ráðuneytum við að smíða nýja lista yfir þá sem forsetinn mun sæma viðurkenningum í byrjun árs því Sarkozy fleygði listunum sem þeir lögðu fyrir hann um áramótin.

Drottnandi á fyrstu listum voru ríkisstarfsmenn og stjórnmálamenn. Líka alltof mikið af körlum, sagði hann. Af 1.340 tillögum um fólk til að hljóta næstæðstu orðu ríkisins, Ordré du Merite, var aðeins þriðjungur konur. Hermt er að Sarkozy vilji a.m.k. jafn margar konur verði sæmdar orðunni og karlar, en slíku jafnvægi hefur aldrei verið náð áður.

Hermt er að aldrei fleiri konur hafi verið tilnefndar en nú til æðstu heiðursviðurkenningarinnar, Légion d'Honneur. Listann átti að birta á nýjársdag en það dregst vegna óánægju forsetans með fyrstu tillögur ráðuneytanna. Sarkozy vildi að jafnt yrði með kynjunum til þeirrar sæmdar en óvíst er að það takist nú.

Að sögn Le Monde var Sarkozy einnig óhress með listana þar sem á þeim voru of margir hvítir menn. Bað hann að nýjar tillögur endurspegluðu fjölbreytilega fransks samfélags og að í þeim yrði að finna fleira fólk úr atvinnulífinu og frá félögum og samtökum er fást við mannúðarmál.

Sarkozy hefur sett fleiri konur til ábyrgðarstarfa í ríkisstjórn sinni en nokkur annar forveri hans á forsetastóli. Meðal þeirra eru þrjár ungar konur úr röðum innflytjenda frá Afríku og arabaríkjum. 

Segolene Royal sækist eftir hlutverki leiðtogi sósíalista

Segolene Royal staðfesti í dag það sem legið hefur í loftinu, að hún hyggst freista þess að verða kjörin formaður Sósíalistaflokksins og taka við því embætti af fyrrverandi eiginmanni sínum, Francois Hollande. Allt frá því hún tapaði fyrir Nicolas Sarkozy í forsetakosningunum í maí sl. hefur blasað við að hún vill verða frambjóðandi flokksins við næstu kosningar, 2012.

 

Með tíðindunum í dag má segja að undirbúningur Royal fyrir forsetakosningarnar 2012 sé hafinn. „Ég ætla að fylgja því eftir til loka sem ég hóf í kosningabaráttunni, að endurnýja vinstriöflin og fylkja sósíalista að baki því pólitíska verkefni,“ sagði hún við frönsku sjónvarpsstöðina France 2 í dag.

  

Sósíaflokkurinn hefur verið í upplausn allt frá í kosningunum í maí en það voru þriðju forsetakosningarnar í röð sem flokkurinn tapar. Á þessari stundu er ekki hægt að ganga út frá því sem vísu að Hollande dragi sig í hlé á flokksþinginu í haust þótt í það hafi stefnt.  Að honum frátöldum blasir ekkert foringjaefni við, fyrir utan Royal, nema ef til vill Bertrand Delanoe borgarstjóri Parísar. Hann hefur jafnvel notið meiri vinsælda og álits en Segolene samkvæmt könnunum.

 

Dominique Strauss-Kahn er ekki lengur inni í myndinni sem nýr leiðtogi sósíalista þar sem hann hefur tekið við stöðu framkvæmdastjóra Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (IMF) í Washington. Hann hefur hins vegar ekki viljað útiloka forsetaframboð 2012, árið sem ráðningatími hans hjá IMF rennur út.

Kennir öllum nema sjálfri sér um


Royal gagnrýndi áhrifamenn í flokknum í bók sem út kom í byrjun desember og sagði þá hafa grafið undan kosningabaráttu hennar. Sagði ósigur sinn fyrir Sarkozy hafa verið sigurfæri sem hafi verið glatað. Kenndi fjölmiðlum um og sagði það ekki hafa verið henni sjálfri að kenna hvernig fór. Skaut meðal annars föstum skotum á sinn fyrrum ektamann.

 

Í umsögnum var hæðst að bókinni og sumir sögðu sér líða sem hálfu ári yngri því Segolene skrifaði eins og ekkert hefði gerst í maí.

 

Vegna gremju sinnar yfir úrslitum kosninganna dró hún sig um nokkurra mánaða skeið út úr flokksstarfi og tók t.a.m. ekki þátt í tveimur áberandi samkomum um pólitíska endurnýjun meðal vinstri manna.

 

Hún hvatti árangurslaust í fyrravor til þess að flokksþing yrði kallað saman hið fyrsta og nýr leiðtogi kjörinn er yrði jafnframt frambjóðandi sósíalista 2012. Jafnframt sagði hún flokkinn verða að ganga í gegnum hreinsunareld og endurnýjast, en hefur engar tillögur lagt fram í þeim efnum. 


Segolene Royal hefur að miklu leyti haldið sig til hlés undanfarna mánuði. Hún mun nýta sveitarstjórnarkosningar í mars til að láta til sín taka á ný.

 

Ótímabær yfirlýsing?

Eins og við var að búast mætti yfirlýsing Royal um að hún vilji leiðtogahlutverk Sósíalistaflokksins lítilli hrifningu meðal áhrifamanna í flokknum. Flestir sögðu hana ótímabæra, keppnin um leiðtogahlutverkið væri hafin alltof snemma með þessu, nær væri að einbeita sér næstu mánuði að sveitarstjórnarkosningum og endurnýjun flokksins.

 

Aðrir sögðu að með tilliti til ósigurs hennar í forsetakosningunum gæti hún tæpast talist besti holdgervingur umbreytinga og uppstokkunar Sósíalistaflokksins. „Ég held að sjónarmið hennar í dag, strategískur spuni og þokukennd pólitísk viðhorf til efnahags- og félagslegra viðfangsefna endurspegli ekki nútíma sósíalisma,“ sagði Benoit Hamon, vinstri sinnaður sósíalisti sem situr á Evrópuþinginu.

 

Hann sagði að Royal hefði vissulega í hlutverki að gegna í pólitískri umræðu á vettvangi vinstrimanna en sakaði hana og menn af hennar kynslóð um að gera stjórnmálin að átökum þar sem sjálfselska réði ferð.

 

Spurning er hvernig Segolene Royal á eftir að reiða af en hún þarf að mínu mati að vera mun stefnufastari og skýrari í hugmyndum og skoðunum til að ná frumkvæði á ný.


Áhorf meira á einkasjónvarp en ríkisstöðvarnar

Birtur hefur verið listi yfir vinsælustu þætti franskra sjónvarpsstöðva á nýliðnu ári. Athygli vekur að  100 vinsælustu þættirnir, þ.e. þar sem áhorf mældist mest, voru allir sýndir á einkareknu stöðinni TF1.

Samkvæmt upplýsingum sjónvarpsstöðvarinnar er þetta í fyrsta sinn frá því samræmd áhorfsmæling var tekin upp í Frakklandi árið 1989 að ein og sama stöðin einokar áhorf með þessum hætti.

Litlu munaði í fyrra, en þá átti TF1 98 af 100 mest áhorfðu, ef svo mætti segja, útsendingarnar. Þetta vekur óneitanlega athygli því stöðin á í keppni við mikinn fjölda sjónvarpsstöðva, m.a. fjórar öflugar ríkissjónvarpsstöðvar, France-2, France-3, France-4 og France-5.

Sú útsending sem situr í efsta sæti eftir árið er undanúrslitaleikur Frakka og Englendinga í heimsmeistaramótinu í rugby, eða ruðningi, sem fram fór í París 13. október. Á hann horfðu 18,3 milljónir eða 67,4% heimila. Útsendingar frá íþróttaviðburðum voru áberandi því í efstu fimm sætunum voru jafn margir leikir Frakka í keppninni.

Kappræður Segolene Royal og Nicolas Sarkozy á lokaspretti forsetakosninganna sl. vor mældust með sjötta mesta áhorfið á árinu, en á útsendinguna horfðu 13 milljónir manna. Af útsendingum í 13. - 50. sæti voru 25 stakir þættir af bandarísku sakamálaseríunum CSI Miami og CSI New York.Samkvæmt mælingum Médiamétrie horfðu að meðaltali langflestir á TF1-stöðina, eða 30,7% að jafnaði hvern dag. Er það 0,9% minna jafnaðar áhorf en 2006. Í öðru sæti var France-2 með 18,1% áhorf og France-3 í þriðja með 14,1%. Skerfur áskriftarstöðvarinnar Canal+ var hins vegar aðeins  3,4% áhorf.

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband