Þegar Mitterrand forseti fór í jólafrí til Egyptalands flaug hann á einni þotu og sendi hjákonuna með annarri. Almannafé var notað til að borga brúsann. Þetta sagði Sarkozy forseti er hann svaraði gagnrýni á að hafa flogið í jólafrí að Nílarbökkum á Falcon-einkaþotu vinar síns.
Sarkozy sagðist ekkert sjá athugavert við að hafa þegið boð um afnot af þotu auðkýfingsins Vincent Bolloré. Ekki einni einustu krónu af skattfé almennings hafi verið varið til ferðalagsins. Það sagði hann mestu máli skipta og spurði hvers vegna fjölmiðlar hefðu ekki spurt forvera sína um þeirra einkaferðalög, sem öll hefðu verið á kostnað ríkisins.
Það vissu það allir en þið sögðuð aldrei neitt og spurðuð aldrei út í það, sagði Sarkozy við hátt í þúsund blaðamenn sem sóttu blaðamannafund hans í Elyseehöllinni í gær og skírskotaði til einkaferðalaga Mitterrands þar sem hann hefði notað eina þotu fyrir sig og fjölskyldu sína og aðra fyrir hina fjölskyldu hans, hjákonuna og laundóttur hans.
Hann fjallaði í sömu andrá um ástarsamband þeirra Carla Bruni og sagðist ekki vilja fela samband þeirra eða leika einhverja leiki, svo sem Mitterrand gerði á sínum tíma. Gátu fjölmiðlar ekki um ástarsamband þeirra Anne Pingeot fyrr en það hafði staðið árum saman og laundóttur forsetans með henni, Mazarine, orðin tvítug er ljóstrað var upp um "hina" fjölskyldu Mitterrands.
Mitterrand og Pingeot fóru margsinnis saman í frí að Nílarbökkum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2008 | 20:43
Geldur ekki ásta Bruni
Það er líkast til bábilja að halda því fram að samhengi sé á milli þverrandi trausts í garð Nicolas Sarkozy forseta og sambands hans við Carla Bruni, ofurfyrirsætuna fyrrverandi. Sá frásagnarmáti er líkast til frá engilsaxneskum blaðamönnum kominn því ekki eru þessi tvö mál tengd saman með þessum hætti í Frakklandi.
Þvert á móti segja sérfræðingar fyrirtækja og stofnana sem vinna skoðanakannanir fyrir fjölmiðla, að ekkert samasem merki megi setja þarna á milli. Fólk sé fyrst og síðast spurt hvort það treysti forsetanum til tilgreindra eða ótilgreindra verka.
Þegar kafað sé dýpra og menn spurðir hvort ástarmál forsetans hafi áhrif á afstöðu þeirra er svarið nei. Og þeir sem ákveðnastir séu í stuðningi við Sarkozy og treysti honum mest sé þeir einu sem láti í ljós óánægju með hversu hann flíki sambandi þeirra.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.1.2008 | 17:14
Sarkozy vill auglýsingar burt úr ríkissjónvarpsstöðvunum
Kannski sér maður fram til þeirra tíma að geta horft á sjónvarp hér í Frakklandi án þess að auglýsingar teygi á dagskránni. Alltjent sagðist Sarkozy forseti á blaðamannafundi í morgun vilja stoppa allar auglýsingar á ríkisstöðvunum, sem eru margar og ágætar.
Sarkozy sagðist vilja skoða þetta mál á næstunni. Hann sagði að bæta yrði stöðvunum upp tekjumissinn af auglýsingabanni með því að skattleggja auglýsingatekjur einkastöðvanna og með sérstökum skatti á veltu net- og farsímafyrirtækja.
Þarna fannst mér forsetanum bregðast bogalistin því nær hefði verið að ætla að hann lokaði eða seldi eitthvað af þessum urmul sjónvarps- og útvarpsstöðva sem ríkið rekur. Af nógu er að taka hér í landi og einkastöðvar ná betur eyrum almennings, samkvæmt áhorfsmælingum.
Sarkozy sagðist ennfremur óska þess að tvær sjónvarpsstöðvar og ein útvarpsstöð myndu renna saman í eina öfluga stöð, France Monde, þegar í ár. Ætti hún ekki að senda bara út á frönsku, eins og hann sagði. Forsetinn vill að TV5, France 24 og útvarpsstöðin Radio France Internationale, sameini þannig krafta sína. Ein þeirra, France 24, hefur sent út á þremur rásum allan sólarhringinn; á frönsku, ensku og arabísku.
Yfirlýsingar Sarkozy um auglýsingabann á ríkisstöðvunum leiddu til mikillar hækkunar á hlutabréf einkastöðvanna TF1 og M6. Bréf þeirrar fyrrnefndu hækkuðu um 9,94% og þeirrar síðarnefndu um 4,49%. Þá hækkuðu bréf Bouygues, móðurfélags TF1, um 3,07%.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:46 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2008 | 22:46
Sádar vilja ekki að Bruni fylgi Sarkozy
Háttsettir embættismenn í Saudi-Arabíu hafa hvatt Sarkozy forseta til að virða íhaldssama íslamska menningu Saudi-Arabíu og skilja unnustu sína, Carla Bruni, eftir í París er hann heldur í opinbera heimsókn til Saudi-Arabíu næstkomandi sunnudag, 13. janúar.
Bruni fylgdi Sarkozy í jólafrí til Egyptalands en í lok þess fundaði hann með Hosni Mubarak forseta. Um nýliðna helgi lá leið þeirra til Jórdaníu þar sem Sarkozy ræddi við Jórdaníukonung. Egypskir embættismenn gagnrýndu franska forsetann opinberlega fyrir að deila herbergi með Bruni meðan á dvöl þeirra stóð þar í landi.
Saudi-Arabar munu tiltölulega íhaldssamari í þessum efnum en Egyptar og meina t.d. ógiftum vestrænum pörum að deila hótelherbergi.
Háttsettur ótilgreindur sádi-arabískur embættismaður sagði að Sarkozy bæri af trúarlegum ástæðum og viðkvæmni málsins að skilja Bruni eftir. Hann skildi við konu sína Ceciliu í október sl. en komst í tygi við Bruni aðeins nokkrum vikum seinna.
Íslamskar reglur eru túlkaðar með þeim hætti í Saudi-Arabíu, að ógift par eða maður og kona sem eru ókunnug mega ekki dveljast saman útaf fyrir sig.
Heimildir í París í dag herma, að einskis sé að óttast því Bruni hafi engin áform um að fara til Saudi-Arabíu í fylgd Sarkozy forseta.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.1.2008 | 22:32
Bjargaðist úr köldum sjó þremur stundum eftir að togarinn fórst
Kraftaverk þykir að portúgalskur háseti á frönskum togbát, P'tite Julie, skyldi bjargast eftir að skipið fórst undan Bretaníuskaga sl. nótt. Áhöfn björgunarþyrlu fann hann í köldum og úfnum sjónum þremur stundum eftir skipskaðann. Sagði hún það slembilukku að hann skyldi sjást í nætursjónauka.
Maðurinn var á t-skyrtu og nærbrók einum fata og sjórinn var aðeins 11°C heitur. Hann tjáði björgunarmönnum að einungis um stundarfjórðungi áður en hann fannst hefði ungur félagi hans gefist upp, örmagnast og sokkið.
Sjálfur var hann þrekaður mjög og líkamshitinn hafði lækkað umtalsvert er honum var bjargað og komið undir læknishendur á sjúkrahúsi í Brest. Hann sagði skipverja hafa flesta verið í koju er óhappið varð. Sjálfur rauk hann upp í brú er sá sem þar var á vakt kom niður í skip og lét vita hvernig komið var. Hann sagði engan tíma hafa verið til að nálgast björgunarvesti og ekki um annað að ræða en fleygja sér í sjóinn til að dragast ekki niður með skipinu. Hefði hann náð í baujukippu sem varð til þess að hann gat haldið sér á floti.
Lík tveggja sjómanna fundust í dag en fjögurra er enn saknað. Litlar líkur þykja á að þeir hafi komist af því slysið bar mjög snöggt að, höfðu fulltrúar strandgæslunnar frönsku eftir hásetanum sem komst af.
Orsakir slyssins sem varð um klukkan fimm í morgun að frönskum tíma, klukkan fjögur að nóttu til á Íslandi, þykja óljósar. Skipverjum tókst að senda út neyðarkall. Illt var í sjó en togarinn sökk um 50 km undan eynni Vierge. P'tite Julie var 24 metra langt skip, smíðað 1991 en ætíð vel við haldið. Kom það úr klössun í desember sl. og þótti fyrsta flokks.
Bloggar | Breytt 8.1.2008 kl. 20:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)