29.7.2010 | 06:51
Hörundslitur skiptir ekki máli

Menn þurfa ekki að vera svartir til að sigra í spretthlaupi. Það sannaði franski stráklingurinn og nýstúdentinn Christophe Lemaitre með eftirminnilegum hætti á Evrópumeistaramótinu í frjálsíþróttum í gærkvöldi. Hann er fyrsti hvíti maðurinn til að hlaupa 100 metra á innan við 10 sekúndum.
Franskir íþróttamenn; tennisleikarar, hjólreiðamenn og nú Lemaitre, hafa heldur betur lyft brúninni á franskri þjóð eftir skandalann á HM í fótbolta. Fótboltamennirnir brugðust þjóð sinni ærlega þar og sitja um langan aldur í skammarkróknum. Stórstjörnurnar sjálfhverfu sem þar áttu í hlut eiga ekkert sameiginlegt með hjólreiðagörpunum sem glöddu landa sína í Tour de France og Lemaitre.
Christophe Lemaitre er hálfgert náttúrubarn og gjörsamlega laus við að vera uppfullur af sjálfum sér, eins og t.d. fótboltamennirnir Henry, Evra, Anelka og Ribery, svo einhverjir þeirra séu nefndir. Svo óhönduglega tókst þeim til á HM - innan vallar og ekki síður utan - að enginn 23 sem þangað voru sendir verða í næsta landsliði Frakklands, sem nýi landsliðseinvaldurinn velur senn til keppni við Norðmenn. Nei, þeir verða áfram í skammarkrók, og sama er mér því hér í landi er fullt af efnilegum strákum sem leysa munu þá marga af hólmi.
Lemaitre er Evrópumeistari unglinga frá í fyrra og heimsmeistari unglinga frá í hitteðfyrra. Á EM unglinga í Novi Sad í fyrra setti hann Evrópumet unglinga, hljóp á 10,04 sek. Hann á franska metið í 100 metra hlaupi (9,98 sek) og jafnaði í sumar metið í 200 metrum, sem er 20,16 sek. Hann er nýorðinn tvítugur, fæddur 11. júní árið 1990 í Annecy í Suður-Frakklandi.
Sigur hans á EM fullorðinna á ólympíuleikvanginum í Barcelona í gær verður lengi í minnum hafður. Hann hljóp á 10,11 sekúndum gegn 1 m/s mótvindi. Besti tími hans er 9,98 sek. frá franska meistaramótinu í sumar. Hann er fyrsti Evrópumeistari Frakka í 100 metra hlaupi frá því 1962 er Claude Piquemal varð meistari. Árið 1990 var Daniel Sangoumaen nálægt því að vinna en varð annar.
Lemaitre hefur ekki leiðst þau tíðindi sem hann fékk eftir sigurinn, að uppáhalds fótboltalið hans, Olympique Marseilles, varð meistari meistaranna í Frakklandi með sigri á Paris SG í gærkvöldi. Hann er mikill unnandi liðsins og mun herbergi hans á heimili unga mannsins sprettharða í Aix-le-Bains vera þakið myndum af OM og félagsskrauti.
Hlaupið og aðdragandi þess var spennandi og Lemaitre hélt frábærri einbeitingu. Lét það ekki raska ró sinni þótt fyrirfram væri hann talinn sigurstranglegur. Það er einmitt sagður sérstakur hæfileiki hans að einangra sig frá umhverfinu í einbeitingunni. Sér hann þá ekkert né heyrir nema rásblokkina, brautina framundan og marklínuna.
Í ræsingunni virtist Lemaitre svifaseinni en hinir. En fann fljótt sinn takt, dró keppinautana uppi og sigldi svo fram úr á síðustu 30 metrunum. Tók á af öllum sálarkröftum, leit hvorki til hægri né vinstri, heldur beint áfram og gaf ekkert eftir fyrr en yfir marklínuna var komið. Svo mikið var hann í sínum eigin einbeitingarheimi - einangrunarkúlu eins og hann orðar það - að hann áttaði sig ekki á að hann hefði sigrað fyrr en eftir hlaupið.
Til að kóróna kvöldið hreppti Martial Mbandjock bronsverðlaunin meðgóðu dippi á hárréttu augnabliki. Varð hann nefinu og skeggbroddunum á undan tveimur sem fengu sama tíma.
Maður bíður spenntur eftir að sjá Lemaitre og félaga í 4x100 metra boðhlaupinu og 200 metra hlaupinu. Undanrásir í þeirri grein hefjast í dag. Þegar hann var spurður í gærkvöldi hvort hann ætlaði ekki að fagna titlinum fram á nótt svaraði hann hiklaust: Nei, nú fer ég beint í bælið, að sofa.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 07:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
26.7.2010 | 06:15
Fimmti sigur Spánverja í röð í Tour de France
Þá er Frakklandsreiðinni [Tour de France] lokið. Eftir sitja ljúfar minningar um skemmtilega og drengilega keppni, en umfram allt mjög spennandi. Og fjölmörg dramatísk atvik vikurnar þrjár sem þessi þolraun stendur yfir.
Já, fyrir knapana er þolraunin meiri en í nokkurri annarri íþrótt. Þriggja vikna og tæpra 3600 kílómetra strit, m.a. upp og yfir hvern fjallgarðinn af fætur öðrum í Ölpunum og Pýrenneafjöllum. Í sól og bræðandi hita eða rigningu og kulda og öllu þar á milli. Ég vorkenni þeim þó ekkert - þetta er þeirra frjálsa og sjálfviljuga val - og sæki innblástur í þá er ég stíg á bak mínum hjólhesti!
Þetta er þó ekki alveg rétt því ég vorkenndi Lance Armstrong vegna ófara hans. Hvað eftir annað datt hann á hausinn og hlaut marga skrámuna fyrir vikið. Það dró þó vart úr honum baráttuandann nema mjög tímabundið því hann sýndi gamla takta og hörku er hann freistaði sigurs á einni leiðinni í Pýrenneafjöllum. En varð að játa sig sigraðan á síðustu metrunum.
Ég vissi lítið um persónuna Lance Armstrong, þekkti bara afrek hans, en er þessa dagana að lesa stórfína bók um lífshlaup hans sem kom út á Íslandi fyrir nokkrum árum. Einstök saga - og frábær bók.
Það er langt síðan túrinn hefur verið jafn spennandi og úrslitin óræð. Og þótt Alberto Contador hafi á endanum verið rúmlega hálfri mínútu lengur með 3.600 kílómetra en Andy Schleck þá verður að fara mörg ár aftur í tímann til að sjá jafn lítinn mun. Mér hafa tímatökur á einstaklingum sjaldan þótt spennandi en í þeirri sem fram fór á laugardag, næst síðasta degi reiðarinnar, var spennan lengi ótrúleg.
Schleck var 8 sekúndum á eftir Contador fyrir tímatökuna en lagði hratt af stað og saxaði smám saman á hana. Og eftir ekki svo mjög marga kílómetra var hann búinn að slétta muninn út. Klukkurnar sýndu lengi vel eina sekúndu til eða frá og spennan var í algleymingi. Með þessari taktík neyddi Schleck svo Contador, sem ræsti þremur mínútum seinna, til að gefa í frá byrjun.
Síðustu 20 kílómetrana af 54 herti Contador á sér og náði að endurheimta forystu sína og gott betur. Hann hefur löngum verið miklu betri í tímatökum en á laugardag fékkst staðfesting á því að á því sviði hefur Schleck farið gríðarlega fram.
Lokareiðin til Parísar í gær var hálfgert formsatriði og snerist fyrst og síðast um hver yrði sprettharðastur upp Elysee-breiðgötuna, í átt að Sigurboganum. Annað árið í röð sýndi Mark Cavendish hinn breski að enginn er fljótari á tveimur hjólum í heiminum en hann.
Þetta er fimmta árið í röð sem spænsku hjólagarpur vinnur Frakklandsreiðina og þriðji sigur Contadors. Hann vann 2007 og 2009 auk nú. Tvo þessa sigra fengu þeir í arf vegna lyfjamála, falls Floyd Landis 2006, Mikaels Rasmussen hins danska 2007 og Alexanders Vinokourov 2008.
Annars er það markvert fyrir túrinn í ár að enginn knapi féll á lyfjaprófi. Slíkt hefur ekki gerst á þessari öld en lyfjahneyksli hafa sett blett á túrinn og hjólreiðarnar um langt árabil. Gríðarleg barátta gegn þeim ófögnuði er að skila greinilegum árangri. Það ásamt hinni skemmtilegu keppni í ár - og góðri frammistöðu franskra hjólreiðamanna - hefur orðið til að auka veg og virðingu Frakklandsreiðarinnar á ný - og efla vinsældir.
Já, vinsældir túrsins eru einstakar. Meðfram vegum landsins þar sem hjólagarparnir fóru um, stilltu sér upp um 17 milljónir manna til að fylgjast með í návígi og hvetja hjólamennina. Milljónir horfðu á útsendingar frönsku ríkisstöðvanna France2 og France3. Og keppninni var sjónvarpað til tæplega 200 landa, misjafnlega mikið í beinni útsendingu þó. Hér í landin er sýnt beint frá keppninni og ýmsu sem henni tengist í um sex stundir á dag og sjónvarpssófinn því þrælsetinn undanfarið.
Ég er strax farinn að hlakka til Tour de France að ári.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 06:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
23.7.2010 | 17:57
Jafntefli í jötnaslagnum
Ansi er ég hræddur um að keppninni í Frakklandsreiðinni [Tour de France] sé í raun lokið. Og það þótt tveir áfangar séu enn eftir, en keppni lýkur í París á sunnudag. Jafntefli varð í jötnaslag Alberto Contador og Andy Schleck upp Tourmalet-tind í gær. Og í dag sá Norðmaðurinn Thor Hushovd á eftir grænu treyjunni og nær henni áreiðanlega ekki aftur.
Rimma Shcleck og Contador á Tourmaletfjalli, síðustu dagleiðinni í Pýrennafjöllum var frábær. Sá fyrrnefndi lét til skarar skríða er 10 km voru eftir af brekkunni linnulausu og óvægnu. Hvað eftir annað reyndi hann að breyta um rytma og takt en allt kom fyrir ekki, Contador var sem límdur við hann og sleppti honum aldrei frá sér. Féllust þeir í faðma á toppnum, en Schleck var fyrri yfir endamarkslínuna og vann þar með sína aðra dagleið í Frakklandsreiðinni að þessu sinni.
Contador hefur engan áfanga unnið en úr þessu getur líklega ekkert komið í veg fyrir að hann skrýðist gulu treyju sigurvegarans á Champs Elysée breiðgötunni í París á sunnudag. Verður það þriðja árið í röð sem hann sigrar.
Keppnin hefur verið afskaplega skemmtileg á að horfa og með að fylgjast. Leitt þó að sjá Hushovd missa grænu treyjuna sem veitt er fyrir stigakeppni spretthörðustu garpanna. Hann hefur verið daufur í hópspretti í túrnum í ár og varð t.d. aðeins fjórtándi í dag.
Mark Cavendish vann áfangann slétta í dag til Bordeaux og saxar mjög á. Ítalinn Petacchi og Hushovd hafa skipst á að skrýðast treyjunni og klæddist sá fyrrnefndi henni eftir áfangann í dag. Er hann með 10 stiga forskot á Hushovd, 213-203, en Cavendish hefur verið að draga þá uppi og er nú með 197 stig.
Edvald Boasson Hagen freistaði sigurs í dag og var vel teymdur áfram af félögum sínum í lokin, en hafnaði í sjötta sæti. Er hann sjötti í stigakeppninni um grænu treyjuna, 152 stig. Hefur hann staðið sig vel á sínu fyrsta ári í túrnum.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2010 | 20:04
Túrinn ræðst á Tourmalet
Það verður örugglega allt vitlaust í Frakklandsreiðinni á morgun,. fimmtudag - og keppni á alla kanta mikil. Andy Schleck segist ætla krækja aftur í gulu treyju forystusauðsins en það getur hann því aðeins að hann klifri hraðar en Alberto Contador upp Tourmalet tindinn.
Knaparnir í Frakklandsreiðinni fengu frí í dag,hvíldu lúin bein og söfnuðu kröftum. Á morgun er lokakaflinn í Pýrenneafjöllum en þar geta úrslit ráðist að verulegu leyti. Mörgum frægum garpinum hefur gengið illa í túrnum í ár og nú ætla einhverjir þeirra - ef ekki allir - að bæta fyrir það í keppninni upp á topp Tourmalet. Þar er um ógnar brekkur að fara og glíma knaparnir við súrefnisskort síðustu kílómetrana.
Fjallið hentar klifurfærni Schleck en búast má við að Contador lími sig við hann sem lengst til að missa hann ekki frá sér. Annars gefur hann honum færi á treyjunni gulu, en Contador hefur 8 sekúndna forskot á Schleck í keppninni um hana.
Áfanginn í dag er e.t.v. síðasta tækifæri Schleck til að reyna vinna því hann hefur hingað til reynst lakari í kappi við klukkuna, en slíka rúmlega 50 kílómetra keppni þurfa knaparnir að heyja á laugardag í höfuðstað rauðvínsframleiðslunnar, Bordeaux. Ég held túrinn ráðist á Tourmalet. Sá sem fyrstur kemur upp vinnur hann, sagði Schleck í gær.
Contador og Schleck eru taldir áþekkir í fjöllum en sá fyrrnefndi hefur hingað til verið betri í einstaklings tímatökum. En Contador telur það ekki sjálfgefið og segir að það væri hættulegt að afskrifa keppinaut sinn á laugardag. Ég óttast Schleck í tímatökunni af þeirri einföldu ástæðu að hann er frábær hjólreiðamaður - hann vann tímatökumeistaramót Lúxemborgar sem sannar að hann hefur bætt sig í faginu. Eitt er víst og það er að milli okkar mun eiga sér stað stórorrusta, sagði Contador.
Breski knapinn Bradley Wiggins varð fjórði í Frakklandsreiðinni í fyrra og við miklu var búist við af honum í ár. Það hefur ekki gengið eftir og hefur hann átt býsna mislukkaðan rúman hálfan mánuð í mótinu. Hann segist ætla að bæta úr þessu í keppninni upp á Tourmalet tind. Og er ekki einn um það.
Ætli Lance Armstrong freisti til dæmis sigurs? Það yrði ekki leiðinlegt. Alla vega mun margur franskur knapinn reyna láta ljós sitt skína því Nicolas Sarkozy forseti verður í bíl keppnisstjórans upp Tourmalet. Hvað sem öllu líður verður legið í sófanum fyrir framan sjónvarpið meðan knaparnir streða upp fjöllin. Og margslunginnar keppni notið í botn.
Bloggar | Breytt 22.7.2010 kl. 11:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2010 | 07:52
Lance Armstrong stal senunni
Lance Armstrong sýndi mikla seiglu í Frakklandsreiðinni í gær og stal senunni með krafti sínum og baráttuvilja. Þótt ég haldi með frönsku hjólamönnunum lýg ég því ekki að í lengstu lög vonaði ég að sá gamli hefði sigur. Um 50 metrum frá marki var hann í öðru til þriðja sæti en þá var orrustan töpuð því Frakkinn Pierrick Fedrigo reyndist með mun meiri sprengikraft í lærunum og spretti fram úr. Armstrong gaf sig og lét sig rúlla eftir það í mark.
Fedrigo, langnefur eins og ég nefni hann sakir hins óvenju langa nefs sem prýðir andlit hans, var á heimavelli í Pau. Hann er frá þeim slóðum og vann sem afgreiðslumaður í hjólabúð sem er skammt frá rásmarkinu þar til hann gerðist atvinnumaður árið 2000, 22 ára gamall. Tvisvar áður hafði hann unnið dagleið í Tour de France.
Fedrigo er skemmtilegur náungi og baráttujaxl hinn mesti. Hann er liðsfélagi Thomas Voeckler sem vann daginn áður en lið þeirra berst fyrir tilveru sinni og leitar ákaft nýs aðalstyrktaraðila. Sigrar þeirra hjálpa eflaust til í þeirri leit og ennfremur er þriðji liðsmaðurinn, Anthony Charteau, efstur að stigum í keppninni um hvíu treyjuna með rauðu doppunum; treyju mesta klifrara túrsins.
Norðmaðurinn Thor Hushovd brosti sínu breiðasta á ný er hann endurheimti grænu treyju sprettmannanna. Varð tíundi í mark á fjallaleiðinni miklu og komst fram úr Ítalanum viðkunnanlega, Alessandro Petacchi. Hushovd er með 191 stig, Petacchi 187 og Bretinn Mark Cavendish 162 en mikið er enn eftir í stigapottinum og eflaust hafa hvorki Petacchi né Cavendish sagt sitt síðasta.
Þess má geta, að lið Armstrongs, RadioSchack, hefur forystu í keppni liðanna en þar er lagður saman tími nokkurra fremstu úr hverju liði í heildarkeppninni.
Franskir hjólreiðamenn hafa unnið allar dagleiðirnar í Pýrenneafjöllunum til þessa, eða þrjár. Eftir er ein sem lýkur á morgun á tindi Tourmalet. Og í gær var um tvöfaldan sigur Frakka að ræða því Sandy Casar varð annar, en hann hefur þegar unnið eina dagleið í ár, þá níundu. Með árangri sínum, sigri á sex dagleiðum, hefur áhugi á túrnum eflst mjög.
Það er seigla í gömlum görpum því meirihluti þeirra, sem voru í 10 manna hópnum er sleit sig lausan frá meginhópnum og barðist um sigur, er vel á fertugsaldri. Þrír þeirra 39 ára, þar á meðal Armstrong.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 08:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)