Minn maður Voeckler

Það hefur verið hrein unun að horfa á og fylgjast með Frakklandsreiðinni [Tour de France]. Og ekki leiddist mér í dag fyrir framan sjónvarpið þegar uppáhaldsmaður minn, hinn franski Thomas Voeckler, vann 15. dagleiðina í Pýrenneafjöllum.

Hið eina sem skyggir á sigur Voecklers var sú dramatík sem átti sér stað er Andy Shcleck frá Lúxemborg varð fyrir því að keðjan hljóp útaf fremri tannhjólunum rétt eftir að hann hóf sprett til að reyna hrista Alberto Contador af sér. Þá voru aðeins 3 km upp á efsta tind leiðarinnar. 

Schleck varð að stöðva fák sinn í brekkunni og kippa hlutum í lag. Á því einu tapaði hann miklum tíma og Contador gaf í upp brattann á meðan og hafði af honum gulu forystutreyjuna. Það er ekki nema rúm vika síðan ég varð sjálfur fyrir svona keðjuhoppi, einnig í síðustu brekku í rúmlega 100 km túr og keppni við tvo félaga mína. Varð líka að stoppa og þræla keðjunni upp á tannhjólin, eins þrifalegt og það nú er!

Þetta var eitt af þessum atvikum sem geta skipt svo miklu og haft svo miklar afleiðingar í för með sér að það er á við margt dramaverk. Við því er ekkert að gera og ranglátt að saka Contador um ódrengskap með því að setja á sprett er hann sá hvernig fyrir eina keppinaut sínum var komið.

Og Schleck tvíeflist vonandi við þetta, nú þarf hann ekki lengur að verja gulu treyjuna. Getur í staðinn sótt ; verður í hlutverki veiðimannsins sem þreytir bráð sína til uppgjafar. Þess vegna verður bara skemmtilegra að fylgjast með á morgun og fimmtudag en þá verða riðnar tvær erfiðustu fjallaleiðir túrsins. Síðasta hindrunin verður hinn voldugi og frægi tindur Le Tourmalet.

Best að snúa sér aftur að Voeckler. Hann er einstaklega vinsæll hjólreiðamaður og var sigri hans fagnað vel og lengi í Pýrenneafjöllum í dag. Ekki óskemmtileg afmælisgjöf en hann átti 31 árs afmæli  í dag. Er þetta fimmti áfangasigur Frakka í reiðinni í ár og því mikil gleði hér í landi. Liðsfélagi hans hefur skrýðist hvítu treyjunni með rauðu doppunum en hana hlýtur sá í dagleiðarlok sem flest stig hefur hlotið í klifurkeppni hjólreiðagarpanna.

Með sigrinum í Bagnères-de-Luchon vann Voeckler dagleið í Frakklandsreiðinni öðru sinni. Hann vann sína fyrstu dagleið í fyrra, í Perpignan. Árið 2004 varð hann þjóðhetja er hann skrýddist gulu treyju forustusauðsins í 10 daga, eftir að hafa leitt lið sitt til sigurs í keppni liða við klukkuna á fyrsta degi.

Voeckler var í hópi um 10 knapa sem slitu sig lausa frá megin hópnum þegar um 100 km voru eftir af 187 km leið. Og er brattinn fór að aukast á síðasta fjallinu sem ríða þurfti yfir, Port de Balès, lét hann til skarar skríða svo um munaði. Hélt enginn í við hann og þótt enn væru um 30 km í mark hélt Voeckler öruggu forskoti alla leið. Naut hann sigursins, reis upp í hnakknum og rúllaði rólega síðasta kílómetrann af fögnuði. Áhorfendur í tugþúsundatali hvöttu hann upp fjöllin og mannskari síðustu kílómetrana í bænum Bagnères-de-Luchon fagnaði honum vel og kröftuglega.

Armstrong að sækja í sig veðrið

Lance Armstrong kom betur frá keppni í dag en undanfarið og var aðeins rúmri hálfri mínútu eftir Schleck og rúmri mínútu á eftir Contador. Var í hópi með þeim áður en sprettirnir framangreindu og dramatísku hófust. Fór svo að með frammistöðu hans og félaga að lið Armstrongs tók forystu í keppni liðanna en þar ræður tími hjólamannanna um röð liða.

Eftir áföll og mótlæti framan af virðist Armstrong ferskur og í feikna góðri æfingu. Ég held hann hafi ekki sagt sitt síðasta orð og muni freista þess að vinna eins og eina dagleið. Hví ekki síðustu fjallaleiðina? Eða á morgun. Ég er viss um að hann getur fengið Andy Schleck í lið með sér til að keyra á fjallakollana miklu sem framundan eru.

 


Cavendish brotnaði saman og sá austfirski aftur þriðji

Frakklandsreiðin (Tour de France) er frábær skemmtun. Ekki bara fyrir áhugamenn um hjólreiðar heldur fyrir alla unnendur íþrótta, og jafnvel fleiri. Í hitabylgjunni sem verið hefur undanfarna 10 daga eða svo hangir maður mest inni og þá er gott að hafa jafn frábært sjónvarpsefni til að stytta sér stundir. 

Edvald Boasson Hagen, sem á ættir að rekja til Reyðarfjarðar en þaðan er langafi hans, varð aftur þriðji á miklum og löngum endapretti. Gaman að sjá hvernig hann stillti sér upp fyrir aftan liðin tvö sem sáu um hraðann síðustu fjóra kílómetrana. Kom sér þar í skotstöðu og vann sig fram úr mörgum síðustu 200-300 metrana. Þarna er greinilega á ferðinni maður framtíðarinnar en hann geldur þess að hafa ekki mjög sterka liðsfélaga til að teyma sig áfram í keppni til sigurs. Verður því að láta sér nægja að hanga með öðrum og grípa þær gæsir sem kunna að gefast á lokametrunum.

Leiðin var meira og minna marflöt í dag og líður nú að fjallaleiðum Frakklandsreiðarinnar. Grunar mig að  afkomandi hins reyðfirska Edvalds Bóassonar, sem gerðist bóndi í Noregi, eigi eftir að lenda í vanda þegar í Alpana kemur. Vonandi hef ég rangt fyrir mér og gaman væri ef hann ætti eftir að vinna dagleið. Það er kannski til of mikils ætlast af manni sem er að keppa í Tour de France í fyrsta sinn. En með árangrinum í dag er hann kominn í fimmta sæti í keppni um grænu treyjuna, keppni hinna spretthörðu. Er með 64 stig en Hushovd er efstur með 102 og Cavendish komst á blað í dag, er með 50 stig í níunda sæti.

Dramatíkin var ekki minni í dag en í gær. Mark Cavendish hafði sigur og var ólíkur sjálfum sér frá í gær er hann hreinlega gafst upp á síðustu 100 metrunum. Nú hafði hann betri aðstoð og sýndi sitt gamla andlit með sigri á leið dagsins. Við spennufallið bugaðist hann á verðlaunapallinum og grét. Í viðtali við frönsku sjónvarpsstöðina France-2 endurtók það sig og mátti hann ekki mæla í tæpa mínútu og gróf andlit sitt í handklæði sem honum var rétt.

Tilfinningarík stund og þessi ungi en mikli garpur er auðvitað mannlegur eins og við öll hin. Honum hefur gengið ævintýralega vel í fyrra og hitteðfyrra. Vann m.a. sex dagleiðir túrsins í fyrra og fjölda annarra móta en var aðeins með þrjá sigra undir belti er að Frakklandsreiðinni kom. Og hefur sætt gagnrýni fyrir framferði sitt og sakaður um stærilæti. Allt óverðskuldað að hans sögn og hafði andróðurinn gert honum það erfitt fyrir að hann sagðist vera farinn að efast um getu sína til að sigra á ný.

Þess vegna var svo gaman að sjá kraftinn er hann  lét til skarar skríða er rúmir 100 metrar voru eftir í dag og vann. Nú hefur stráksi sýnt aftur að hann er besti sprettknapi heims og mér kæmi ekki á óvart þótt hann ætti eftir að vinna nokkrar leiðir í viðbót. Hann ætlar sér grænu treyjuna, sem veitt er fyrir stig í sprettkeppni Frakklandsreiðarinnar. Henni skrýðist Thor Hushovd hinn norski áfram. Komi til einvígis þeirra - svipað og í fyrra - þá verður það skemmtileg viðureign. Cavendish hefur verið mun veikari í fjalllendi en segist hafa undirbúið sig sérstaklega til að geta meira þar í ár.


Ögn af Íslendingi stendur sig vel í Frakklandsreiðinni

Alls staðar láta Íslendingar að sér kveða en í dag á fjórðu daglegið Frakklandsreiðarinnar (Tour de France) munaði minnstu að Norðmaður sem á íslenskan langafa hefði sigur. Þar á ég við um Edvald Boasson Hagen sem varð þriðji á gríðarlegum endaspretti.Boasson (l.t.v.) þriðji í Reims

Boasson Hagen er 23 ára og fæddur í Lillehammer í Noregi 17. maí, þjóðhátíðardaginn norska, eins og afi hans, Eðvald Bóasson frá Reyðarfirði. Sá fæddist árið 1893 og fór til náms í landbúnaðarfræðum í Noregi. Kvæntist hann norskri konu, Signe C. Knudsen, og settist að í Noregi. Gerðist bóndi í Dal-Nordre í Suður-Nittedal í Akershus, norðaustur af Ósló. Þá jörð keypti hann 1926 og bætti fleirum við sig síðar. Hann lést árið 1969.

Eðvald Bóasson hinn reyðfirski eignaðist þrjá sonu, Snorra, Tryggve og Edvald og er sá síðastnefndi afi hjólreiðagarpsins. Hann er bóndi í Dal og fæddur 1927. Ein dætra hans og móðursystir hjólagarpsins býr á Íslandi og þar á hann fleiri ættingja. 

Boasson yngri er bóndasonur frá Rudsbygd skammt frá Lillehammer og sem barn kaus hann að hjóla 4-5 km vegalengd í skólann og heim aftur í stað þess að taka skólabílinn. Fljótara var að hjóla, segir hann og þarna var líklega fræjum sáð sem hann uppsker af núna.Boasson vann stigakeppni Ómanreiðarinnar í ár og varð annar í 
heildina.

Í útsendingum frá Frakklandsreiðinni hefur norski fáninn verið áberandi um árabil, þökk sé frammistöðu Thors Hushovd. Nú er því að búast að fáninn sá verði enn meira áberandi þegar norsku toppmennirnir eru orðnir tveir með tilkomu Boasson Hagen.

 

Aðeins eru tvö ár frá því Boasson Hagen gerðist atvinnumaður. Réði hann sig til bandaríska liðsins High Road Columbia en keppir í ár fyrir Sky-liðið.

Í stigakeppninni um grænu treyjuna í Frakklandsreiðinni er Hushovd efstur með 80 stig en Boasson Hagen tíundi með 38 stig. Bætti hann mjög við sig með þriðja sætinu á leið dagsins  en þar lagði hann m.a. sprettkónganan Hushovd og Bretann Mark Cavendish að velli á gríðarlegum endaspretti.

Þessi ögn af Íslendingi sló í gegn í fyrra með heildarsigri í Bretlandsreiðinni (Tour of Britain) en þar vann hann fjórar dagleiðir og með tveimur áfangasigrum í Ítalíureiðinni (Giro d'Italia). Hann er öflugur einn síns liðs í kappi við klukkuna því fjögur ár í röð er hann norskur meistari í tímatöku af því tagi. Hér í Frakklandi hefur Boasson Hagen átt góðu gengi að fagna og unnið margan sigurinn. Til dæmis tvær dagleiðir af sjö í Bretaníuskagatúrnum 2007, þá fyrri hérna spölkorn frá mér. 

Auk þessara öflugu Norðmanna tveggja eru nokkrir danskir knapar í keppninni og verður fróðlegt að fylgjast með þessum frændum vorum næstu vikurnar.

 


90 flugu á hausinn

Í þá árafjöld sem ég hef fylgst með Frakklandsreiðinni á hjólum (Tour de France) minnist ég ekki eins mikilla sviptinga á láglendi eins og síðustu daga. Og garparnir eru statt og stöðugt á hausnum, ekki bara í gær heldur einnig í dag en hjólað var að hluta til á fornum steinagötum sem reynir hrikalega á mann og hjól.

Frakkinn Sebastien Chavanel vann gulu treyjuna í gær og virtist í rúma 190 km af 213 ætla að halda henni í dag - og það þrátt fyrir að hafa dottið og þurft að skipta um hjól í dag. Sá draumur fjaraði út á síðustu 20 km er tvisvar sprakk dekk á steinakafla. Þar með missti hann af keppinautum og treyjan rann úr greipum hans.

Og það var enginn annar en Fabian Cancellara frá Sviss sem endurheimti treyjuna gulu eftir að hafa tapað henni í gær. Þá fórnaði hann sér og hægði ferðina til þess að þeir sem féllu á leið niður af fjalli einu í Belgíu. Þar lá tæplega helmingur keppenda í valnum eða 90 knapar. Meðal þeirra allir helstu garparnir; Lance Armstrong, Alberto Contador og Andy Schleck. Flestir skildu eftir talsvert hörund á rennblautu malbikinu en allir stóðu upp þótt skellurinn væri harður, enda flestir á um 60 km/klst hraða er þeir duttu.

Cancellara fórnaði sér í gær og hálfvegis aftur í dag er hann hélt mikilli ferð svo liðsfélagi hans Schleck gæti náð forskoti á Armstrong og Contador. Það gekk eftir, enda garparnir tveir í vandræðum, m.a. tafðist Armstrong er dekk sprakk hjá honum en ekki er eins auðvelt og fljótlegt að fá viðgerð eða nýtt hjól á steinagötunum þar sem aðstoðarbílarnir eru ekki í sömu nánd við keppendur og á götum úti.

Andy Schleck hefur hingað til notið góðrar aðstoðar eldri bróður síns, Franck, en þess nýtur hann ekki lengur því sá síðarnefndi vibeinsbrotnaði í falli í dag og er úr leik.

Hushovd sterkur þó stutt sé frá viðbeinsbroti

Norðmaðurinn Thor Hushovd fylgdi fremstu mönnum eins og skugginn í dag og vann dagleiðina á endaspretti. Er það sjöunda dagleiðin sem hann vinnur í Frakklandsreiðinni. Hreppti hann í leiðinni grænu treyjuna og er markmið hans að vinna hana í ár, eins og í fyrra og 2005. 

Árangur Hushovd er athyglisverður því hann viðbeinsbrotnaði í óhappi í maí en er kominn á fullt skrið aftur.

Annar keppinautur styrkti stöðu sína verulega í dag, Ástralinn Cadel Evans. Slóst hann við Hushovd um sigur í lokin og er nú þriðji í heildarkeppninni; 39 sek á eftir Cancellara og 1:01 mínútu á undan Contador og 1:56 á undan Armstrong.

Andy Schleck er sjötti í heildina eftir daginn og 31 sekúndu á undan Contador og 1:26 mín. á undan Armstrong.

Breti slær í gegn

Bretinn Geraint Thomas í Sky-liðinu hefur komið skemmtilega á óvart en hann varð annar í dag og er orðinn annar í heildarkeppninni, 23 sekúndum á eftir Cancellara. 

Contador átti í erfiðleikum á steingötunum enda óvanur slíkum aðstæðum og varð á endanum 1:13 mínútum á eftir fyrstu mönnum. Vegna bilana missti Armstrong af fremri hópunum en sýndi mikla hörku síðustu 20 km við að reyna minnka bilið. Hann varð á endanum 2:08 á eftir. Verra fyrir hann er hið mikla forskot sem Contador hefur náð á hann, 55 sekúndur.

Contador er í níunda sæti í heildina, 1:40 á eftir Cancellara og Armstrong er talsvert aftar. Fyrir Contador er það ekki sérlega skemmtilegt að maðurinn sem reyndi að draga hann áfram og vinna fyrir hann, Alexander Vinokourov, lauk keppni nokkru fyrr og er sæti framar og níu sekúndum á undan í heildina.

Ef síðustu dagar eru forsmekkur af því sem koma skal rúmlega næstu tvær vikurnar þá á eftir að vera fjör að fylgjast með Frakklandsreiðinni.

 

Frakkar taka íþróttagleði sína á ný

Frakkar tóku íþróttagleði sína á ný í dag. Hrakfarir og fíflalæti fótboltaliðsins á HM sviptu þá slíkri ánægju en hjólreiðagarpurinn Sylvain Chavanel breytti því öllu með sigri á áfanga dagsins í Frakklandsreiðinni (Tour de France).

Klæðist hann gulu treyjunni úr þessu og er með um þriggja mínútna forskot á Svisslendinginn Fabian Cancellara, sem skrýddist henni í gær eftir sigur í tímatökunni á fyrsta degi, laugardag.

Hjálpaði það Chavanel að öðlast þetta mikla forskot, að keppendaópurinn hægði á sér eftir að tugir keppenda flugu á hausinn á rennblautum og glerhálum vegi niður af Stockeu-fjalli. Með því að hægja ferðina, en þar lék Cancellara lykilhlutverki, gafst sem flestum knöpum tækifæri á að komast í hópinn aftur.

Niður fjallið fór Chavanel langt á undan og tók þar enga áhættu en með sigrinum er hann orðin þjóðhetja í Frakklandi. Og nógu öflugur keppandi er hann til þess að halda treyjunni einhverja  daga í viðbót.

Sigur Chavanel er athyglisverður sakir þess að í lok apríl slasaðist hann alvarlega í keppni í Belgíu en leið dagsins lá að hluta til um sömu vegi og þá. Meðal annars höfuðkúpubrotnaði hann og gat ekkert æft sig í nokkrar vikur. Í dag tók hann á rás og sleit sig frá hópnum eftir aðeins 11 kílómetra af 201. Fljótlega drógu nokkrir hann uppi og fylgdist sá hópur að nokkuð á annað hundrað kílómetra en enginn treysti sér með Chavanel er hann lét til skarar skríða og sótti til sigurs er 30 km voru í mark.

Meðal þeirra sem féllu af baki í dag voru Lance Armstrong, Alberto Contador og Andy Schleck sem taldir eru einna sigurstranglegastir í Frakklandsreiðinni. Lítið hefur spurst út um meiðsl þeirra eða hvaða áhrif þau hafa á framhaldið.

Liðsfélagi Chavanel, Jérôme Pineau, kórónaði svo daginn fyrir Quickstep-liðið með því að vinna doppóttu treyjuna sem stigahæsti klifrarinn skrýðist jafnan.

   


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband