24.2.2010 | 17:58
Flugumferðarstjórar áttu ekki upp á pall hjá mér í morgun!
Flugumferðarstjórar eiga ekki upp á pallborðið hjá mér þessa dagana - alla vega ekki franskir. Með vitleysisaðgerðum sínum komu þeir í veg fyrir að ég kæmist erinda minna til Barcelona í morgun. Fór fýluferð út á flugvöll í morgun, samtals 100 km fram og til baka.
Verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóranna hafa ekkert með kjarasamninga að gera, þeir eiga í engum launadeilum. Heldur er um að ræða mótmæli við nútímavæðingu flugumferðarstjórnunar í Evrópu. Ákveðið hefur verið að bræða flugstjórnarþjónustu Belgíu, Hollands, Frakklands, Þýskalands, Lúxemborgar og Sviss í eina. Allt í þágu aukinnar skilvirkni í flugumferð og þar með öruggari og betri þjónustu við þá sem flugið nota; neytendur, almenning, mig og þig.
Frönsku flugumferðarstjórarnir segjast óttast að samruninn leiði til atvinnumissis í þeirra röðum og að þeir verði sviptir ýmsum forréttindum sem þeir njóti sem opinberir starfsmenn. Franska flugmálastjórnin (DGAC) segir það ástæðulausan ótta, samruninn breyti engu um stöðu þeirra.
Eins og ég sagði eiga flugumferðarstjórarnir ekki í launadeilu. Enda væsir ekki um þá samkvæmt svartri skýrslu ríkisendurskoðunarinnar frönsku frá í janúar. Þar er harðlega gagnrýnt hvernig yfirvöld hafa gefið eftir kröfum flugumferðarstjóranna vegna hræðslu við átök. Segir endurskoðunin, að flugumferðarstjórar vinni að jafnaði ekki nema í 100 daga á ári og njóti 30 vikna orlofs. Auk þess fái þeir fjölda frídaga vegna vaktakerfis sem byggist á að fleiri séu á vakt en þörf er fyrir. Vaktstjórar bregðist við því með því að gefa umfram mannskapnum frí af vaktinni.
Lestur fregna um þetta er með ólíkindum. Því verður ekki móti mælt, að hér er um forréttindastétt að ræða. Starfsstétt sem er á móti nútímavæðingu ( - það á reyndar við um Frakka upp til hópa). Og miðað við að mánaðarkaup flugumferðarstjóra hjá ríkinu er um 7.500 evrur - eða margföld meðallaun launþegar almennt - er tæpast við því að búast að þeir njóti mikillar samúðar hjá notendum þjónustunnar sem þeir veita.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.2.2010 | 16:40
Frakkar afhuga evrunni - vilja frankann aftur
Minnihluti Frakka sá á eftir frankanum þegar evran var tekin upp í ársbyrjun 2002. Upp til hópa töldu Frakkar að evran gæti orðið þeim til góðs. Nú er öldin önnur því nú segjast tveir af hverjum þremur vilja að frankinn verði tekin í notkun á ný og evrunni varpað fyrir róða.
Satt besta að segja er þarna ekki bara um fortíðarþrá að ræða. Miklu frekar óánægju með þróun atvinnu- og efnahagsmála svo og verðlags frá því evran var tekin upp.
Í könnun sem gerð var fyrir vikuritið Paris Match segjast 69% Frakka vilja að evrunni verði fleygt og frankinn tekinn aftur upp. Sögðust 47% sakna frankans verulega.
Hér er um viðhorfsbreytingu að ræða því þegar evran var tekin í notkun í ársbyrjun 2002 sögðust einungis 39% sjá á eftir frankanum. Það hlutfall hafði hins vegar aukist í 61% þremur árum seinna, 2005.
Mest saknar frankans láglaunafólk og launþegar með minnstu menntunina. Þessar stéttir hafa orðið harðast úti í kreppunni og í hugum þeirra er frankinn tákn um farsæld sem ríkti á árunum áður en evran var tekin upp.
8.2.2010 | 12:45
Camembert gefur eftir
Fátt þykir mörgum franskara en camembert. Menn sjá fyrir sér rauðvínsglas og bagettu og bragðlaukarnir væta munninn. Þau kaflaskil hafa nú átt sér stað í ostaneyslu í Frakklandi, að camembert trónir ekki lengur sem vinsælasti osturinn.
Við hlutverki þess hvíta og mjúka ost er tekinn, heldur gulur og öllu stífari emmental. Og í þriðja sæti er svo brie, einnig hvítur og mjúkur en bráðnar þó ekki eins undir tönn og camembert.
Að meðaltali borðaði hver Frakki 24 kíló af osti í fyrra. Er það 2,8% aukning frá árinu áður, samkvæmt upplýsingum frá hagstofnun franska landbúnaðarins.
Þeir sem á annað borð neyta osta borða miklu meira en þetta. Talsmaður stofnunarinnar segir nefnilega, að innan við helmingur Frakka borði ost í hverju aðalmáli og hlutfallið hafi farið lækkandi með árunum.
Matur og drykkur | Breytt s.d. kl. 17:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
11.1.2010 | 13:00
Vann að ýmsum tilskipunum á vegum ESB
Það kemur nú fram á Wikipedia-síðunni sem BVG vísar til - þó hann geti þess ekki - að þessi gamli maóisti, Lipietz, hefur unnið að fjölda tilskipana ESB um fjármálastarfsemi frá árinu 1990. Menn þurfa ekki vera þingmenn til þess, geta einfaldlega verið sérfræðingar á vegum flokka, ríkja eða einhverra hagsmunasamtaka. Svo hann er þessu kannski ekki alveg eins ókunnugur málinu og hinn íslenski pólitíski þjáningarbróðir hans heldur fram.
![]() |
Segir margt athugavert við málflutning Lipietz |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
29.12.2009 | 20:09
Setið við imbann 3:24 stundir á dag!
Þá er búið að reikna það út, að meðaltals Frakkinn situr fyrir framan sjónvarpstækið að jafnaði í þrjár klukkustundir og 24 mínútur hvern einasta dag.
Þetta gildir fyrir tímabilið frá nýársdegi sl. Þar til í gær, 28. desember. Og segir að áhorfið sé ámóta og það var í fyrra. Reyndar var áhorfið í desember, sem er að líða, þremur mínútum lengra en í fyrra, eða 3 :46 stundir á mann að meðaltali.
Hreint ótrúleg tímaeyðsla, segi ég nú bara. Þó skal játað, að til eru þeir dagar á árinu, að ég gerist meðaljón í glápi. En það einskorðast við útsendingar frá Frakklandsreiðinni á hjólum (Tour de France). Ekki allar vikurnar þrjár sem keppnin stendur, heldur valda daga og þá sérstaklega þegar riðið er um fjallahéruðin. Mér finnst yfirleitt auðvelt að réttlæta það áhorf mitt !
Þótt Frakkar glápi reiðinnar býsn á sjónvarp þá hafa þeir ekki roð við Serbum, sem eru heimsmethafar í sjónvarpsáhorfi; sannkallaðir þrælar imbans. Meðalserbi horfir 4:53 klst. á dag. Bandaríkjamenn eru næst afkastamestir með 4:37 stundir við skjáinn og Japanir í þriðja sæti með 4:32 stundir.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)