28.12.2009 | 08:05
Jólunum skverað af
Frakkar eru ekki lengi að skvera jólunum af. Mun fljótari en Íslendingar. Hér er unninn fullur vinnudagur á aðfangadag, verslanir opnar nánast eins og venjulega. Og annar í jólum er ekki til, í ár var það bara venjulegur laugardagur og athafnalíf þá með venjulegum hætti.
Mig grunar að fáir verji jafn mörgum dögum til jólahalds og Íslendingar, en bið um að vera leiðréttur ef einhver veit betur.
Hjá flestum Frökkum hefst jólahaldið á aðfangadagskvöld en jólamáltíðin er þó yfirleitt snædd síðar um kvöldið en Íslendingar eiga að venjast. Meðal annars þurfa mæður og feður að komast heim úr vinnu sem lýkur sjaldnast fyrr en undir kvöld.
Hjá mörgum hefjast jólin ekki fyrr en 25. desember og er jóladagurinn einasti frídagurinn um jólin. Reyndar voru bakarí og blómabúðir opnar að morgni hans hér í mínum heimabæ. Bæði svo menn gætu fært gestgjöfum sínum blóm og þeir sótt gómsætan eftirrétt eða kaffimeðlæti til bakaranna.
Mér hefur fundist auglýsingar og annað umstang vegna jóla vera minna í sniðum en ég átti að venjast á höfuðborgarsvæðinu íslenska. Allt er þetta eitthvað hófstilltara þótt mikið sé lagt upp úr því að njóta hátíðar ljóssins með góðum gjöfum og örlæti í mat. Fjölskyldur leggja áherslu á að vera saman og því er umferð mikil á þjóðvegum kringum jólin.
Tugþúsundir manna streyma til fjalla um jólaleytið og taka sér lengra frí en yfir helgi. Á frönskum skíðasvæðum hefur verið fullt um þessi jól og hin síðustu enda nægur snjór. Svo hefur ekki alltaf verið og minnist ég mikils harmagráturs forsvarsmanna þjónustufyrirtækja til fjalla fyrir tveimur til þremur árum.
Þeir eru öfundsverðir sem í snjóinn sækja. Íslenskir kunnáttumenn segja mér t.d. að frönsku skíðasvæðin taki þeim austurrísku fram að öllum búnaði. Sjálfur naut ég rúmlega hálfrar mánaðar dvalar í frönsku Ölpunum meðan vetrarólympíuleikarnir fóru þar fram 1992. Það rennur mér aldrei úr minni.
Aftur að sjálfu jólahaldinu. Vart er hægt að tala um einhvern jólarétt, slík er fjölbreytnin og úrvalið mikið. Kalkúnn er þó sennilega algengasti rétturinn á aðfangadagskvöldi eða í hádeginu jóladag. Annars er jólamáltíðin yfirleitt margrétta, ekki bara þrírétta, heldur mun fleiri. Einn réttur tekur við af öðrum og því jafnvel setið klukkustundum saman til borðs.
Ekki get ég dæmt mikið um kirkjusókn en skilst hún sé almennt dræm. Það hefur jú komið í ljós í mælingum, að rúmur helmingur Frakka er tiltölulega trúlaus. Þess má geta, að hér hefur ríkt aðskilnaður kirkju og ríkis í röska öld.
Sá skemmtilegi siður er hér í landi, að menn hafa út janúar til að senda kveðjur í tilefni jóla- og áramóta. Jafnvel meiri áhersla er lögð á árnaðaróskir vegna nýs árs. Þeir sem "gleyma" að skrifa fyrir jólin hafa út janúarmánuð til að senda þeim kveðju sem til stóð eða svara fenginni kveðju. Á engann hallar sem sendir nýjarskort fyrir janúarlok.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
28.12.2009 | 07:14
Loeb meistari meistaranna
Frakkar eiga úr vöndu að ráða þegar þeir velja íþróttamann ársins. Margan eiga þeir góðan afreksmanninn, bæði einstaklinga og flokka. Í ár hefur rallökumaðurinn Sebastien Loeb orðið fyrir valinu, en hann hlaut sæmdarheitið meistari meistaranna einnig í hitteðfyrra.
Loeb bar að þessu sinni sigurorð af handboltalandsliðinu sem hefur ekki af litlu að státa, ólympíugulli frá í fyrra og heimsmeistaratitli í ár. Íþróttamaður ársins í fyrra varð sundmaðurinn Alain Bernard en Loeb hlaut titilinn árið 2007.
Hann er vel að honum kominn því í ár sló hann öll met rallaksturs - og jafnvel akstursíþróttanna - með því að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra sjötta árið í röð á Citroenbíl sínum.
Loeb, sem haft hefur Mónakómanninn Daniels Elena sem aðstoðarökumann, hlaut 842 stig í kjöri L'Equipe. Handboltalandsliðið hlaut 692 stig og í þriðja sæti varð ungi júdómeistarinn Teddy Riner með 433 stig.
Sigursæli siglingagarpurinn Michel Desjoyeaux varð fjórði með 220 stig en hann vann m.a. síðustu kappsiglingu umhverfis hnöttinn, svonefnda Vendee Globe keppni. Í
fimmta sæti knattspyrnumaðurinn Thierry Henry með 218 stig og kvennalandsliðið í handknattleik, nýbakaðir silfurhafar á HM, í því sjött með 190 stig. Skíðamaðurinn Jean-Baptiste Grange hlaut 167 stig í sjöunda sæti og áttundi varð handboltamaðurinn Nikola Karabatic með 146 stig.
Fótboltamaðurinn spræki hjá Bordeaux, Yoann Gourcuff, varð níundi með 107 stig. Í tíunda sæti varð svo stangarstökkvarinn Renaud Lavillenie sem varð Evrópumeistari innanhúss á árinu og vippaði sér yfir sex metra sl. sumar.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.12.2009 | 15:48
Loksins snjóar - hefði þó alveg getað verið án þess!
Jæja, það hlaut að koma að því. Í morgun var eins til tveggja sentímetra snjóföl á jörðu hér á vesturlandinu. Að þessu hlaut að koma, hér hefur ekki snjóað frá því 27. desember árið 2005. Já, það vantaði bara 9 daga upp á að snjóleysið stæði í fjögur ár.
Hér á Bretaníuskaganum virðumst við betur í sveit sett gagnvart snjó og kulda en flest önnur svæði landsins, ef allra syðsti hlutinn er undanskilinn. Það er ágætt því mér finnst ég alveg hafa séð nóg af snjó um ævina. Hann er í sjálfu sér yndislegur og fátt unaðslegra en renna sér á skíðum til fjalla.
En ég kann betur við blíðviðrið sem maður nýtur hér lengstan part ársins. Hið eina slæma við snjóinn er auðvitað það, að maður kemst ekki í hjólreiðatúr meðan hans nýtur við. Þessi föl sem var í morgun er að mestu horfin en slabb við vegarkanta er þess valdandi að hjólhesturinn er vistaður í húsi í dag!
Til að sýna öll ósköpin fylgir hér mynd sem ég tók út um glugga. Þótt lítil sé fölin þarf ekki meira til að samgöngur fari úr skorðum hér um slóðir.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:50 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
27.11.2009 | 17:23
Nýtt met á hjólinu
Þeim áfanga náði ég sl. sunnudag, 22. nóvember, að komast upp fyrir þá vegalengd sem ég lagði að baki á hjólhesti mínum í fyrra. Í lok morguntúrsins með félögunum stóð mælirinn í 12.250 kílómetrum frá síðustu áramótum. Allt síðastliðið ár lagði ég að baki 12.183 kílómetra. Og þar sem rúmur mánuður er eftir af árinu stefnir allt í að kílómetrarnir verði eitthvað á þrettánda þúsundið í ár.
Ánægður er ég með þessa þróun og sosum ekkert verið að sperrast því ég hvíldi mig tiltölulega vel á hjólinu í september. Veðurfarslega séð var það þó einn besti mánuður ársins til hjóla. En þótt þreyta hafi engin verið á ferðinni er nauðsynlegt að hvíla skrokkinn stundum.
Frá því ég gaf sjálfum mér reiðhjólið í afmælisgjöf sumarið 2007 hef ég lagt að baki um 28.500 kílómetra á því. Langmest í hjólatúrum hér í sýslunum Ille-et-Vilaine og Cotes-d'Armor á Bretaníuskaga og Manche í Normandí og Mayenne í Pays de la Loire. Ýmist hef ég hjólað með félögunum í hjólafélaginu hér í Combourg í skipulögðum klúbbtúrum miðvikudaga og sunnudag. Einnig hef ég reynt að hjóla einn til tvo aðra daga í viku hverri og þá yfirleitt verið einsamall.
Inni í þessu í ár eru svo nokkur hjólaröll. Hið lengsta í byrjun júní, 604 kílómetrar frá Rennes til Brest á vesturenda Frakklands og til baka. Það var mjög skemmtileg áskorun en þátttakendur voru 300. Ekki er beint um keppni að ræða, en ljúka verður þó dæminu innan vissra tímamarka. Það reyndist mér létt enda með góðan undirbúning að baki.
Þetta rall var góður undirbúningur fyrir rallið frá París til Brest og til baka til Parísar, sem næst fer fram 2011. Þar verða menn að leggja að baki rúmlega 1200 kílómetra á innan við 80-90 klukkustundum, að meðtöldum hvíldum. RBR-rallið fór að mestu fram á sömu leiðum og vestari helmingur París-Brest-París liggur um.
PBP-rallið fór síðast fram 2007 og voru þátttakendur á sjötta þúsund. Margir heltust úr lestinni á bakaleiðinni frá Brest enda rigning alla dagana fjóra sem það stóð yfir. Verra getur það líklega ekki verið! Þetta rall hefur farið farm fjórða hvert ár í um hundrað ár! Og síðast voru útlendir þátttakendur fleiri en franskir, úr öllum heimshornum.
Enginn fær þó að vera með nema hafa tekið þátt í viðurkenndum úrtökuröllum sem fara fram út um allar jarðir, t.d. á Norðurlöndunum en nefna má, að Danir eru mjög duglegir að mæta til þátttöku í Parísar-Brest-Parísar hjóladæminu. Venjan hefur verið að þessi röll fara fram sama ár en í fyrsta sinn hér í landi verður hægt að öðlast þátttökurétt ári fyrr með því að ljúka sérstökum úrtökuröllum, 200 km, 300 km, 400 km og 600 km, en einnig verða í boði 1000 km röll. Með röllunum í ár hef ég klárað það sem til þarf og horfi því bjartsýnn til rallanna á næsta ári og ætla mér að kvalifisera þá fyrir P-B-P rallið 2011. Það verður ágætt að geta undirbúið sig í ró og næði síðasta árið og tékkað sig af í nokkrum langröllum um vorið og sumarið, en rallið mikla fer fram seint í ágústmánuði.
Svona álag á reiðhjól, 28 þúsund kílómetrar á rúmlega tveimur árum, bitnar á aflrásinni. Góð keðja endist ekki nema um 10.000 km og tannhjól eitthvað álíka. Og dekkin slitna og þarfnast líka endurnýjunar. Er nú komið að því að endurnýja tannhjólakassettuna á afturfelgunni eina ferðina enn og minna pedalatannhjólið. Um það sér hjólafélagi og sérlegur tæknimaður klúbbsins, gamall fagmaður sem rekur hjólabúð og viðgerðarverkstæði í nágrannabæ.
(Um muninn á frístundahjólurum og atvinnumönnum má nefna að þeir síðarnefndu skipta um keðju á 2.000 til 3000 km fresti og eru þó með miklu vandaðri og dýrari íhluti en aðrir! Og hjól þeirra kosta á annan tug þúsunda evra, til samanburðar kostaði mitt 640 evrur og telst sæmilegt byrjandahjól. Milli atvinnumanna og frístundahjólamanna eins og mín eru tvö stig keppnismanna, áhugamanna annars vegar sem æfa og keppa af hörku og hins vegar svonefndir ástríðuhjólamenn sem eru eiginlegar frístundahjólamenn sem taka reglulega þátt í keppnum ýmiss konar)
Eins og nærri má geta, eru hjólreiðar á öllum stigum mjög vinsælar í Frakklandi. Byggja þær á langri hefð. Segja má, að ég hafi sogast inn í heim hjólreiðanna eftir að ég flutti hingað út. Útiveran sem þessu fylgir er góð, maður kynnist nánasta umhverfi vel, er oftast í skemmtilegum félagsskap. Og heilsubótin sem þessu fylgir er fín.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 17:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
11.11.2009 | 16:52
Gott hjá Óla
![]() |
Ólafur í forsetaframboð |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)