Færsluflokkur: Stjórnmál og samfélag

„Andstyggileg súla úr samanskrúfuðu járni“ - Eiffelturninn 120 ára

Þetta er „andstyggileg súla úr samanskrúfuðu járni“ sögðu 47 af helstu gáfumennum Frakklands sem börðust gegn byggingu Eiffelturnsins í París. Andmælabréf þeirra birtist í blaðinu Le Temps í febrúar 1847 er stöplarnir fjórir voru að koma upp úr jörðinni á Signubökkum. Hvað ætli þeim fyndist um andstöðu sína væru þeir á lífi í dag, 120 árum eftir að turninn var vígður. Já, Eiffelturninn á 120 ára afmæli á morgun, 15. maí. Klukkan 11:50 fyrir hádegi þann dag árið 1889 var hann opnaður almenningi.

Óhætt er að segja, að frægð og frami Tour Eiffel hefur aukist og vaxið með tíð og tíma. Mér er til efst, að önnur minnismerki séu jafn dáð. Upp í hann fara til dæmis ár hvert 7 milljónir manna og njóta sérdeilis frábærs útsýnis yfir Parísarborg. Nokkrum sinnum hef ég farið upp en síðasta ferðin í turninn var fyrir áratug, á lokadegi Tour de France hjólreiðakeppninnar og sá maður halarófuna liðast um borgina. Í stað þess að fara niður með lyftunni eins og venjulega varð ég að gjöra svo vel að þramma niður stigana. Yngri sonur minn tók ekki í mál að fara öðru vísi niður, þá aðeins 7 ára gamall! Það ferðalag tók nær hálftíma. Og ekki laust við að maður væri með strengi í lærum og verki í hnjám að því loknu!

Það stóð til að rífa turninn fljótlega eftir heimssýninguna í París 1889 en gáfaðri menn en menningarelítan komu í veg fyrir það. Hvaða fólk með sæmilegt skynbragð og góðan smekk myndi ekki þjást við tilhugsunina um „svimandi fáránlegan turn er drottnaði yfir París eins og svartur og risastór verksmiðjuskorsteinn, þrúgandi villimannslegur massi er bæla myndi allt líf undir sér?“ spurðu dáðir listmálarar á borð við Ernest Meissonier og William-Adolphe Bouguereau, rithöfundarnir  Guy de Maupassant og Alexandre Dumas, tónskáldið Charles Gounod og Charles Garnier arkitekt, svo einhverjir séu nefndir.  

Já, byggingin olli miklum deilum og enginn skortur á napuryrðum í áróðursherferð og lögsóknum gegn framkvæmdinni. Var hugmynd Gustave Eiffel valin eftir samkeppni mikla en meðal tillagna sem hlutu ekki náð var risastór fallöxi. Hann sagði vindinn stærstu áskorunina við hönnun turnsins og því séu megin súlurnar fjórar íbognar. Ásamt því að efla mótstöðu byggingarinnar gagnvart veðri gefa bogalínurnar til kynna bæði kraft byggingarinnar og fegurð.

Öldungurinn ber sig einkar vel en hann er samsettur úr alls 18.038 bitum af smíðajárni. Til að skrúfa þá saman þurfti 2,5 milljónir boltarær. Á nokkurra ára fresti er hann málaður - slík vinna stendur einmitt yfir um þessar mundir - og skiptir málningin sérlagaða tugum tonna.

Turninn sætti gagnrýni fjölmiðla austan hafs og vestan meðan hann var í byggingu. Í Bandaríkjunum bar á öfund er menn áttuðu sig á að hann yrði nær helmingi hærri en Washington-minnismerkið. Eftir að turninn reis breyttist gagnrýni hins vegar fljótt í almenna aðdáun. Hvarvetna var hann lofaður og margar bækur hafa verið skrifaðar um hann og verkfræðinginn Eiffel sem var sérfræðingur í hönnun járnbrautarbrúa.  Og það var ekki fyrr en 40 árum seinna, eða árið 1929, að hærra mannvirki reis, Chryslerbyggingin í New York.

Eins og fyrr segir stóð til að fella Eiffelturninn 20 árum eftir að hann var reistur. Segja má, að Gustave Eiffel hafi komið í veg fyrir þau áform með því að gera turninn að ómissandi hlekk í fjarskiptakerfi franska hersins.

Og þrátt fyrir að teljast ekki há bygging nú til dags í samanburði við risastóra skýjakljúfa víða um heim hrífur Eifffelturninn fólk, heillar það og töfrar. Í honum bræðast saman vísindi og tækni og þörfin fyrir lífsgleði.  


Lagarde sögð taka við samkeppnismálum hjá ESB

Christine Lagarde, efnahagsmálaráðherra Frakklands, sest í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins (EU) eftir Evrópukosningarnar í næsta mánuði. Verður hún framkvæmdastjóri samkeppnismála og tekur við því starfi af  hollensku konunni Neelies Kroes.

 

Þessu er haldið fram í þýska blaðinu Die Welt í dag en helstu samverkamenn Lagarde í París vilja ekki kannast við fréttina og segja hana helga sig óskorað starfi sínu í ríkisstjórn Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta.

 

Die Welt ber fyrir sig heimildir úr röðum diplómata og samkvæmt þeim munu Sarkozy og forseti framkvæmdastjórnarinnar,  Jose Manuel Barroso, þegar samið um þessa niðurstöðu.

Í kvöld:

Við þetta má bæta, að sídegis sagði Lagarde að hún hefði ekki áhuga á starfi samkeppnisstjóra ESB. „Hvers vegna gerist ég ekki þjálfari hjá [fótboltaliðinu í París] PSG?,“ svaraði hún blaðamanni sem spurði hana um áhuga hennar á starfinu og frétt Die Welt. „Ég er að reyna að vinna sem best þau verk sem við er að glíma í ríkisstjórninni sem fjármálaráðherra,“ bætti hún við.

 

 


Chirac verður saksóttur fyrir að misnota almannafé

Jacques Chirac fyrrum Frakklandsforseti er ekki búinn að bíta úr nálinni vegna spillingarmála í tíð hans sem borgarstjóri Parísar. Hann verður að líkindum dreginn fyrir rétt í sumar fyrir að misnota sjóði borgarinnar í þágu til að fjármagna kosningabaráttu sína.

Eftir að Chirac lét af forsetastarfi sumarið 2007 hafa vinsældir hans aukist jafnt og þétt þó hann hafi að mestu haldið sig utan kastljóss fjölmiðla og sjáist sjaldan á almannafæri. Mestur er stuðningur þessi meðal vinstri sinnaðra kjósenda. Vafasöm fortíð hans vofir hins vegar yfir honum sem draugur og gæti átt eftir að sverta ímynd hans.

Nú hefur rannsóknardómarinn Xaviere Simeoni sem fer með annað af tveimur málum gegn Chirac gefið lögmönnum hans frest fram í júlí til að gera athugasemdir við gögn málsins og fara fram á frekari rannsókn málsþátta. Að þeim fresti liðnum þykir blasa við að ákæra fyrir misnotkun almannafjár verði birt forsetanum fyrrverandi.

Chriac er gefið að sök að hafa sett fylgismenn sína og vini á launaskrá Parísar í borgarstjóratíð sinni. Hlutverk þessa „sérlega starfsafla“ hafi ekki falist í öðru en undirbúa forsetaframboð hans. Út á við neitar hann þessum ásökunum staðfestlega en heimildir úr dómskerfinu herma, að við yfirheyrslur hafi Chirac játað, að hann einn ætti að bera sök á ólögmætum ráðningum en ekki nánustu ráðgjafara og samverkamenn hans.

 


Sarkozy yrði kjörinn færu forsetakosningar fram nú

Væru haldnar forsetakosningar í Frakklandi í dag með sömu frambjóðendum í fyrstu umferð og fyrir tveimur árum myndi Nicolas Sarkozy fara með sigur af hólmi. Hann hlyti 28% í fyrstu umferð, Segolene Royal 20,5% og Francois Bayrou 19%.

Þetta kemur fram í skoðanakönnun sem Ifop-stofnunin gerði fyrir franska dagblaðið Sud-Ouest. Í kosningunum 2007 hlaut Sarkozy 31% í fyrstu umferð og var kosið milli þeirra Royal í seinni umferðinni.

 


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband