Færsluflokkur: Bækur
27.12.2010 | 17:53
Uppreisnarákall 93 ára andspyrnjuhetju jólabókin í ár í Frakklandi
Aldur er engin hindrun þegar bókarskriftir eru annars vegar, ef marka má velgengni 30 blaðsíðna kvers 93 ára gamals andspyrnuhetju, Stephane Hessel, sem hvetur landsmenn til að rísa upp gegn nútímasamfélaginu.
Indignez-vous! heitir bókin á frummálinu sem mætti leggjast út sem: Hneykslist þér. Inntakið er í þeim anda; hvatning til að rísa upp gegn göllum, misrétti og ójöfnuðu nútímasamfélagsins.
Útgefandi sem kemur forlagi sínu fyrir í kvistherbergi í Montpellier í Suður-Frakklandi lét sig aldrei dreyma um þær viðtökur sem kverið hefur fengið. Fyrsta upplagið var einungis 6.000 eintök. Miðað við höfðatölu jafngilti það 30 eintökum á Íslandi en tæpast hefur nokkur bók á Íslandi verið gefin út í jafn litlu upplagi.
Þá var verð Hneykslist þér óvenjulágt eða aðeins 3 evrur. Sem er lágt verð frumútgáfu í landi þar sem bókaverði er handstýrt af hinu opinbera og haldið háu lögum samkvæmt.
Viðtökurnar hafa komið öllum á óvart. Tveimur mánuðum eftir útgáfu hefur bókin verið í fimm vikur í efsta sæti bóksölulista. Slær Hessel mörgum stórnöfnum franskra bókmennta við svo um munar. Hafa 600.000 eintök selst og ekkert lát er á vinsældum hennar og spáð að brátt fari salan í milljón eintök.Ég á t.d.æ eftir að verða mér úti um eitt.
Hessel fæddist í Berlín 1917 en var sjö ára er fjölskylda hans fluttist til Frakklands. Eftir að nasistar hernámu Frakkland í seinna stríðinu gekk hann til liðs við frönsku andspyrnuhreyfinguna. Var gómaður og sendur og sætti pyntingum í fangabúðum nasista í Buchenwald og Dora. Eftir stríð var hann um tíma í frönsku utanríkisþjónustunni.
Í bókinni færir Hessel rök fyrir því að franska þjóðin þurfi að temja sér gildi andspyrnuhreyfingarinnar þar sem inntakið var réttlát reiði. Franska þjóðin þurfi að reiðast aftur, segir hann, og taka ábyrgð á því sem farið hafi aflaga í samfélaginu. Varar hann við vaxandi bili milli ofurríkra og blásnauðra og meðferðinni á ólöglegum innflytjendum. Mælir hann fyrir því að frjálsir fjölmiðlar fái aftur byr í seglin og umhverfisvernd. Ennfremur fyrir mikilvægi þess að staðinn verði vörður um franska velferðarkerfið. Hvetur Hessel til friðsamlegrar og ofbeldislausrar uppreisnar.
Sumir, og þá sérstaklega vinstri menn, hafa viljað skrifa vinsældir bókarinnar á gremju með það sem þeir kalla aukinn félagslegan ójöfnuð á valdatíma Nicolas Sarkozy forseta. Nærtækara þykir að skýra viðtökurnar neð sjarmerandi framkomu og persónutöfrum Hessels og merkilegu lífshlaupi. Viðtal við hann í sjónvarpi á dögunum vakti alla vega hrifningu hjá mér og áhuga á efninu.
Bækur | Breytt 28.12.2010 kl. 20:07 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)