Færsluflokkur: Samgöngur

Banaslysunum fækkar jafnt og þétt

Batnandi mönnum er best að lifa. Annað verður ekki sagt um umferðarmenninguna í Frakklandi. Banaslysum í umferðinni hefur fækkað jafnt og þétt síðustu árin. Í fyrra létust í fyrsta sinn í sögunni færri en fjögurþúsund manns í umferðarslysum.

Samkvæmt fyrstu útreikningum biðu alls 3994 manns bana í umferðinni í Frakklandi á nýliðnu ári, sem er 6,5% fækkun frá árinu áður. Jafngildir lækkunin um 300 mannslífum, en árið 2009 dóu 4.273 í umferðinni hér í landi. Hefur banaslysunum fækkað níu ár í röð.

Mér reiknast til að þetta jafngildi því að hlutfallið sé 6,5 á hverja 100.000 íbúa. Til samanburðar var það hlutfall 2,5 á Íslandi í fyrra, en þar voru banaslysin stórum færri í fyrra en mörg næstu árin þar á undan.  

Af hinum látnu voru 941 ökumenn skellinaðra eða mótorhjóla en þeir voru 1.144 árið áður. Létust 30% færri ökumenn mótorhjóla en 2009 og 12% færri ökumenn skellinaðra.

Sömuleiðis hefur slösuðum í umferðinni fækkað sem nemur 13,1%, en þeir voru 79.056.

Í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar 2007 sagði Nicolas Sarkozy það stefnu sína með aðgerðum í umferðaröryggismálum að banaslys í umferðinni yrðu komin niður fyrir 3.000 árið 2012.

Það er einkum þrennt sem þykir skýra þróunina. Í fyrsta lagi aukin varkárni í umferðinni og minni ökuhraði, fullkomnari og öruggari bílar og loks stóraukin notkun hraðamyndavéla á vegum úti.

 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband