Banaslysunum fækkar jafnt og þétt

Batnandi mönnum er best að lifa. Annað verður ekki sagt um umferðarmenninguna í Frakklandi. Banaslysum í umferðinni hefur fækkað jafnt og þétt síðustu árin. Í fyrra létust í fyrsta sinn í sögunni færri en fjögurþúsund manns í umferðarslysum.

Samkvæmt fyrstu útreikningum biðu alls 3994 manns bana í umferðinni í Frakklandi á nýliðnu ári, sem er 6,5% fækkun frá árinu áður. Jafngildir lækkunin um 300 mannslífum, en árið 2009 dóu 4.273 í umferðinni hér í landi. Hefur banaslysunum fækkað níu ár í röð.

Mér reiknast til að þetta jafngildi því að hlutfallið sé 6,5 á hverja 100.000 íbúa. Til samanburðar var það hlutfall 2,5 á Íslandi í fyrra, en þar voru banaslysin stórum færri í fyrra en mörg næstu árin þar á undan.  

Af hinum látnu voru 941 ökumenn skellinaðra eða mótorhjóla en þeir voru 1.144 árið áður. Létust 30% færri ökumenn mótorhjóla en 2009 og 12% færri ökumenn skellinaðra.

Sömuleiðis hefur slösuðum í umferðinni fækkað sem nemur 13,1%, en þeir voru 79.056.

Í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar 2007 sagði Nicolas Sarkozy það stefnu sína með aðgerðum í umferðaröryggismálum að banaslys í umferðinni yrðu komin niður fyrir 3.000 árið 2012.

Það er einkum þrennt sem þykir skýra þróunina. Í fyrsta lagi aukin varkárni í umferðinni og minni ökuhraði, fullkomnari og öruggari bílar og loks stóraukin notkun hraðamyndavéla á vegum úti.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigmar Þór Sveinbjörnsson

Það er athyglivert þetta blogg þitt um fækkun slysa í um ferðinni í Frakklandi og reyndar hér á landi, ánæjuleg og góð frétt sem gaman er að lesa. Ég held að ástæðurnar fyrir fækkun banaslysa séu þær sömu hér á Íslandi og í Frakklandi. Það þarf að vera stöðug umræða um slysin og slysavarnir, það fær fólk til að huga um afleiðingar bílslysa og auðvitað annara slysa.

Kær kveðja

Sigmar Þór Sveinbjörnsson, 8.1.2011 kl. 16:50

2 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Ágúst. Auðvitað eru þetta góðar fréttir bæði í Frakklandi og hér heima. Ég hef nú á tilfinningunni að þetta séu meira tilviljanir en annað hvort slys endar í dauða eða ekki. Í fyrra lenti elsta barnabarn mitt í slysi þar sem bíll fór yfir á vitlausan vegarhelming rétt hjá Álverinu í Straumsvík og beint framan á bíl sem hann var farþegi í. Þarna var hraðinn í lagi, þeir allir í beltum, fólk í næstu bílum horfðu á þetta gerast og voru strax á staðnum að hlúa að þeim. Þarna voru fimm ungmenni á ferð og þetta hefði getað farið ver. Hér verða helst dauðaslys á erlendum ferðamönnum sem þekkja ekki íslenskar aðstæður. Það hlýtur líka að fara að draga úr þeirri hættu með aukinni fræðslu. Kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 1.3.2011 kl. 08:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband