Bjargaðist úr köldum sjó þremur stundum eftir að togarinn fórst

Kraftaverk þykir að portúgalskur háseti á frönskum togbát, P'tite Julie, skyldi bjargast eftir að skipið fórst undan Bretaníuskaga sl. nótt. Áhöfn björgunarþyrlu fann hann í köldum og úfnum sjónum þremur stundum eftir skipskaðann. Sagði hún það slembilukku að hann skyldi sjást í nætursjónauka.

Maðurinn var á t-skyrtu og nærbrók einum fata og sjórinn var aðeins 11°C heitur. Hann tjáði björgunarmönnum að einungis um stundarfjórðungi áður en hann fannst hefði ungur félagi hans gefist upp, örmagnast og sokkið.  

Sjálfur var hann þrekaður mjög og líkamshitinn hafði lækkað umtalsvert er honum var bjargað og komið undir læknishendur á sjúkrahúsi í Brest. Hann sagði skipverja hafa flesta verið í koju er óhappið varð. Sjálfur rauk hann upp í brú er sá sem þar var á vakt kom niður í skip og lét vita hvernig komið var. Hann sagði engan tíma hafa verið til að nálgast björgunarvesti og ekki um annað að ræða en fleygja sér í sjóinn til að dragast ekki niður með skipinu. Hefði hann náð í baujukippu sem varð til þess að hann gat haldið sér á floti.

Lík tveggja sjómanna fundust í dag en fjögurra er enn saknað. Litlar líkur þykja á að þeir hafi komist af því slysið bar mjög snöggt að, höfðu fulltrúar strandgæslunnar frönsku eftir hásetanum sem komst af.

Orsakir slyssins sem varð um klukkan fimm í morgun að frönskum tíma, klukkan fjögur að nóttu til á Íslandi, þykja óljósar. Skipverjum tókst að senda út neyðarkall. Illt var í sjó en togarinn sökk um 50 km undan eynni Vierge. P'tite Julie var 24 metra langt skip, smíðað 1991 en ætíð vel við haldið. Kom það úr klössun í desember sl. og þótti fyrsta flokks.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband