Þrír Frakkar af fjórum telja stjórnarandstöðuna máttlausa

Hún á ekki sjö dagana sæla, franska stjórnarandstaðan. Kvartar sýknt og heilagt yfir því hversu oft og mikið Sarkozy forseti sé í fjölmiðlum - og hefur m.a. klagað það til fjarskiptastofnunar (CSA). Vilja sósíalistar fá aukinn kvóta fyrir sjálfan sig í sjónvarpi í mótvægisskyni. Ætli það dugi til að rétta hlut hennar en 72% Frakka segja stjórnarandstöðuna neikvæða og máttlitla.

Þeir hafa krafist þess að sá tími sem Sarkozy er í ljósvakamiðlum skrifist á ríkisstjórnina. Því hafnaði CSA og skutu sósíalistar þeirri niðurstöðu rétt fyrir jól til ríkisráðsins, sem er nokkurs konar stjórnlagadómstól. Ástæðan er sú að reynt er að hafa í heiðri hér í landi þrískipta viðmiðunarreglu um fjölmiðlaveru fulltrúa stjórnmálanna.

Samkvæmt henni fær ríkisstjórnin sinn skerf, þingmeirihlutinn sinn og stjórnarandstaðan sinn. Ætlast er til að fjölmiðlar semji sig sem næst að þessu og þeim hlutföllum sem miðað er við. Forsetinn er undanskilinn reglunni og það gremst sósíalistum því í stað þess að loka sig af í höllu sinni svipað forverunum hefur Sarkozy látið innanlands- og utanríkismál til sín taka og virðist alls staðar nærri. Og af þeim sökum mjög í fjölmiðlunum.

Samkvæmt skoðanakönnun sem TNS-Sofres rannsóknarstofnunin gerði fyrir vikuritið Le Nouvel Observateur sögðust þrír Frakkar af hverjum fjórum ímynd stjórnarandstöðunnar neikvæða. Meir að segja 66% kjósendur vinstriflokka töldu hana veika. Sögðu 56% kjósenda Sósíalistaflokksins stjórnarandstöðuna málefnasnauða og 36% þeirra sögðu hana höfuðlausa.

Framundan eru sveitarstjórnarkosningar í mars og þær hyggst stjórnarandstaðan nota til að reyna blása til sóknar gegn stjórn hægrimanna. Sagði Francois Holland, leiðtogi Sósíalistaflokksins í gær, að þær kosningar myndu snúast um kaupmátt almennings. Eitt helsta kosningamál Sarkozy forseta í fyrravor var að auka kaupmátt fólks. Lítt hefur þótt fara fyrir aðgerðum í þeim málum á sama tíma og eldsneyti og nauðsynjar hafa hækkað í verði.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband