Frakkar borða og sofa lengur en aðrir

 

Sérfræðingar Efnahagssamvinnustofnunarinnar (OECD) hafa í ótilgreindan tíma dundað sér við að rannsaka lifnaðarhætti fólks í 18 aðildarlöndum stofnunarinnar. Þeir hafa leitt í ljós, að Frakki sofi tæpar níu klukkustundir hverja nótt. Sem er meira en klukkustund lengur en meðaltals Japani og Kóreubúi.

 

Fyrir mér hljómar þetta ótrúverðuglega því reynsla mín er að Frakkar taka seint á sig náðir og rísa snemma úr rekkju. Og með síestunni hefði maður haldið að Spánverjar svæfu meira. Svo er ekki, þeir eru í þriðja sæti, á eftir Frökkum og Bandaríkjamönnum, sofa röskar 8,5 stundir hvern sólarhring.

 

Þrátt fyrir að skyndibitinn gerist æ algengari og fleiri og fleiri renni niður samloku við skrifborð sitt fremur en borða digran hádegisverð á veitingahúsi verja Frakkar engu að síður á þriðju klukkustund við matarborðið dag hvern. Á mínu heimili erum við talsvert frá þessu meðaltali. Nema þegar heimsóknir eiga sér hingað stað, þá vill borðseta dragast á langinn.

 

Þessi niðurstaða þýðir að málsverðir Frakka eru tvöfalt lengri en til dæmis Mexíkómanna, sem verja ekki nema rétt rúmri klukkustund við matarborðið á dag.

 

Fróðleikur þessi birtist í skýrslu sem OECD nefnir „Gluggað í samfélagið“ og fjallar um rannsóknir á atvinnuháttum, heilsu og frístundum íbúa í löndum í Asíu, Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku.

 

Japanir skera svefn við neglur sér og þurfa langan tíma til að komast úr og í vinnu sem er lengri en hjá vel flestum. Samt tekst þeim að eyða næstum tveimur stundum á dag við matarborð. Eru í þeim efnum í þriðja sæti, á eftir Frökkum og Nýsjálendingum.

 

Það sem eftir er af takmörkuðum frístundatíma kjósa Japanir að nýta til þess að hofa á sjónvarp eða hlusta á útvarp. Í það fer 47% af frítíma þeirra. Tyrkir, á hinn bóginn, verja rúmum þriðjungi frítíma síns til að skemmta vinum sínum og kunningjum.

 

Rannsóknin leiddi í ljós óvenjulega skiptingu milli vinnu og frístunda í nokkrum ríkjum. Til að mynda á Ítalíu. Þar er hafa karlar 80 mínútur umfram konur til frístunda. Umframvinna ítalskra kvenna, miðað við karlana, felst í heimilisstörfum þeirra, þrifum og tiltekt. Eins og karlarnir komi ekki nálægt þeim störfum!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband