22.6.2009 | 15:33
Lágvaxinn Frakki smýgur yfir 6,01 metra á stöng
Franska stangarstökkvaranum Renaud Lavillenie hefur farið mjög fram á árinu. Í gær stökk hann 6,01 metra sem er franskt met og besti árangur í heiminum. Frakkar hafa átt urmul góðra stangarstökkvara um langt árabil en samt hefur engum þeirra tekist að rjúfa sex metra múrinn fyrr en Lavillenie nú.
Lavillenie vakti fyrst athygli á alþjóðavettvangi svo um munar er hann varð Evrópumeistari innanhúss sl. vetur. Múrinn mikla rauf hann í Evrópubikarkeppninni í Leira í Portúgal í gær. Hann hafði stokkið 5,96 fyrir viku sem var einnig besti árangur í heiminum í ár. Framfarirnar eru miklar því hann hefur bætt árangur sinn utanhúss frá í fyrra um 15 sentimetra.
Lavillenie er tíundi stangarstökkvari heims til að stökkva yfir 6 metra. Í Leira komst hann yfir 5,80 metra í þriðju tilraun og lét þá hækka beint í 6,01. Fyrsta tilraun við þá hæð misheppnaðist en ekki sú næsta. Stökkið yfir 6,01 var tæknilega ljótt en ég hafði það þó, sagði hann.
Gamla franska metið átti Jean Galfione, ólympíumeistari í Atlanta 1996. Var það 5,98 og vantaði rúman mánuð á að verða 10 ára gamalt. Galfione stökk reyndar 6,00 metra á heimsmeistaramótinu ínnanhúss árið 1999 í Maebashi í Japan. Þá var stangarstökk innanhúss ekki viðurkennt til utanhússmeta.
Lavillenie er ekki stór af stangarstökkvara að vera. Mælist sjálfur aðeins 1,78 metrar á hæð. Sannast því hið fornkveðna um að atgervi og færni ræðst ekki af líkamshæð.
Athugasemdir
Afrek þetta var góður hápunktur á annars spennandi móti um helgina. Reyndar vantaði marga af bestu mönnum Rússa, Þjóðverja og jafnvel Breta. Þekki ekki franska liðið nægilega vel til að vita hvort marga vantaði.
En til hamingju með þennan árangur.
Jónas Egilsson, 22.6.2009 kl. 16:38
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.