Sarkozy segir búrkuna niðurlægingartól, ekki trúartákn

Söguleg stund átti sér stað í þingsalnum í Versalahöllu rétt fyrir utan París í dag. Þar flutti  Frakklandsforseti ræðu á þingfundi í fyrsta sinn í 136 ár. Þar talaði hann fyrir frekari umbótum á frönsku samfélagi en athygli vakti að hann talaði gegn því að konur gengju í búrkum í Frakklandi. Sagði hann klæðnaðinn sem hylur konur frá hvirfli til ilja kjallaravæða konur; búrkan væri niðurlægingartól en ekki trúartákn.

Eftir ræðuna sneri Sarkozy aftur til hallar sinnar í París en í kvöld heldur hann kvöldverð til heiðurs furstanum af Qatar, Sheik Hamad Bin Jassem Al Thani. Eflaust ber búrkur á góma undir kvöldverðinum því algengt er að kvenkyns þegnar furstans skrýðist þeim á almannafæri, jafnvel undir stýri.

Sarkozy sagði búrkuna ekki eiga heima í Frakklandi og væri beinlínis illa séða. Lýsti hann stuðningi við hugmyndir um að stofnuð verði þingnefnd til að gera úttekt á notkun búrka í Frakklandi og gera tillögur um ráðstafanir vegna þess. Hægrimenn eru flestir taldir fylgjandi aðgerðum gegn notkun búrka en andstaða hefur mest verið í röðum sósíalista. Þá hafa helstu samtök múslima í Frakklandi lagst gegn stofnun þingnefndarinnar.

Megin rök þeirra sem ekki vilja afskipti af búrkunotkun er að bann gæti storkað múslimum í Frakklandi og þeir litið á það sem útskúfun. Engan hljómgrunn eiga þeir hjá forsetanum. „Við getum ekki fallist á að konur séu fangar á bak við hulu í landinu okkar. Klipptar frá öllu félagslífi, sviptar auðkennum sínum,“ sagði Sarkozy við langt og kröftugt lófaklapp.

„Búrkan er ekki trúartákn, heldur tákn um undirlægjuhátt, tákn niðurlægingar - það segi ég í fullri alvöru. Hún verður ekki vel séð í franska lýðveldinu,“ sagði hann.

Árið 2004 voru sett lög í Frakklandi er bönnuðu skólastúlkum að bera höfuðklúta og önnur meint trúartákn á skólalóðum. Var það tilefni eldheitra umræðna heima fyrir og erlendis en fleiri múslimar búa í Frakklandi en nokkru öðru vestrænu Evrópuríki, eða um 5 milljónir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Gústaf Níelsson

Auðvitað hefur Sarkozy lög að mæla, hvað búrkuna varðar, svo ekki sé nú minnst á ærumorðin svokölluðu og hinn viðbjóðslega umskurð kvenna, sem er miklu útbreiddari ósiður í samfélögum múslima en þeir vilja viðurkenna. En athyglisverðari er þó sú staðreynd að þessi ræða Sarkozys rataði ekki í fréttatíma íslenskra fjölmiðla, að ég best veit.

Gústaf Níelsson, 22.6.2009 kl. 22:48

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Sé við athugun í morgun, að mbl.is hefur sagt frá þessu máli í gær. Á vef rúv er að finna frétt um ræðu Sarkozy en aðeins drepið á þessi ummæli hans í lok hennar. Að öðru leyti var sú frétt eiginlega eins og út úr kú og flest efnisatriða hennar röng eða fyrir löngu úrelt. Sú frétt var ekki við hæfi ríkisfjölmiðilsins, finnst mér.

Ágúst Ásgeirsson, 23.6.2009 kl. 04:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband