Banaslysunum fækkar jafnt og þétt

Batnandi mönnum er best að lifa. Annað verður ekki sagt um umferðarmenninguna í Frakklandi. Banaslysum í umferðinni hefur fækkað jafnt og þétt síðustu árin. Í fyrra létust í fyrsta sinn í sögunni færri en fjögurþúsund manns í umferðarslysum.

Samkvæmt fyrstu útreikningum biðu alls 3994 manns bana í umferðinni í Frakklandi á nýliðnu ári, sem er 6,5% fækkun frá árinu áður. Jafngildir lækkunin um 300 mannslífum, en árið 2009 dóu 4.273 í umferðinni hér í landi. Hefur banaslysunum fækkað níu ár í röð.

Mér reiknast til að þetta jafngildi því að hlutfallið sé 6,5 á hverja 100.000 íbúa. Til samanburðar var það hlutfall 2,5 á Íslandi í fyrra, en þar voru banaslysin stórum færri í fyrra en mörg næstu árin þar á undan.  

Af hinum látnu voru 941 ökumenn skellinaðra eða mótorhjóla en þeir voru 1.144 árið áður. Létust 30% færri ökumenn mótorhjóla en 2009 og 12% færri ökumenn skellinaðra.

Sömuleiðis hefur slösuðum í umferðinni fækkað sem nemur 13,1%, en þeir voru 79.056.

Í kosningabaráttunni fyrir forsetakosningarnar 2007 sagði Nicolas Sarkozy það stefnu sína með aðgerðum í umferðaröryggismálum að banaslys í umferðinni yrðu komin niður fyrir 3.000 árið 2012.

Það er einkum þrennt sem þykir skýra þróunina. Í fyrsta lagi aukin varkárni í umferðinni og minni ökuhraði, fullkomnari og öruggari bílar og loks stóraukin notkun hraðamyndavéla á vegum úti.

 


Heimsmeistarar í svartsýni

Frakkar eru ekki bara heimsmeistarar í handbolta og ýmsum öðrum íþróttum. Þeir eru einnig heimsmeistarar í svartsýni ef marka má afkomuvæntingar þeirra á nýja árinu. Eru þeir meir að segja bölsýnni en íbúar stríðshrjáðra landa á borð við Írak og Afganistan.

Þetta eru niðurstöðu alþjóðlegrar skoðanakönnunar sem birtist í blaðinu Le Parisien í gær, 2. janúar, og unnin var af BVA-Gallup. Alls telja 61% Frakka að árið verði þeim fjárhagslega erfitt, en meðaltalið sem er þeirrar hyggju á alþjóðavísu er aðeins 28%.

Til samanburðar óttast aðeins 22% Þjóðverja að afkoma þeirra verði verri í ár en 2010. Á Ítalíu er hlutfallið hins vegar 41%, 48% á Spáni og 52% í Bretlandi. Og bölsýnin hefur aukist frá því fyrir ári var hlutfall svartsýnna Frakka 10 prósentustigum minna, eða 51%.

Spurðir um eigin stöðu nú segja 37% Frakka hana hafa versnað á nýliðnu ári. Spurðir um afstöðu til atvinnuástandsins óttast 67% Frakka að atvinnuleysi muni aukast í ár. Það hlutfall var einungis hærra í Bretlandi og Pakistan.

Mér hefur löngum þótt Frakkar meistarar í því að kvarta og kveina, jafnvel þótt þeir hafi það ansi gott. Einna verstir eru þeir sem njóta mestra forréttinda. Alls kyns mótmæli eru birtingarform þessarar óánægju. Og það athyglisverða er, að stjórnmálamenn hafa oftast gefið undan. Þess vegna var ólgan svo mikil á stundum 2010; því stjórn Sarkozy forseta lét ekki undan áköfum mótmælum, m.a. við skynsömum breytingum á lífeyriskerfinu.


Uppreisnarákall 93 ára andspyrnjuhetju jólabókin í ár í Frakklandi

stephane_hessel_1050557.jpgAldur er engin hindrun þegar bókarskriftir eru annars vegar, ef marka má velgengni  30 blaðsíðna kvers 93 ára gamals andspyrnuhetju, Stephane Hessel, sem hvetur landsmenn til að rísa upp gegn nútímasamfélaginu.

Indignez-vous! heitir bókin á frummálinu sem mætti leggjast út sem: „Hneykslist þér“. Inntakið er í þeim anda; hvatning til að rísa upp gegn göllum, misrétti og ójöfnuðu nútímasamfélagsins.    

Útgefandi sem kemur forlagi sínu fyrir í kvistherbergi í Montpellier í Suður-Frakklandi lét sig aldrei dreyma um þær viðtökur sem kverið hefur fengið. Fyrsta upplagið var einungis 6.000 eintök. Miðað við höfðatölu jafngilti það 30 eintökum á Íslandi en tæpast hefur nokkur bók á Íslandi verið gefin út í jafn litlu upplagi.

Þá var verð „Hneykslist þér“ óvenjulágt eða aðeins 3 evrur. Sem er lágt verð frumútgáfu í landi þar sem bókaverði er handstýrt af hinu opinbera og haldið háu lögum samkvæmt.

Viðtökurnar hafa komið öllum á óvart. Tveimur mánuðum eftir útgáfu hefur bókin verið í fimm vikur í efsta sæti bóksölulista. Slær Hessel mörgum stórnöfnum franskra bókmennta við svo um munar. Hafa 600.000 eintök selst og ekkert lát er á vinsældum hennar og spáð að brátt fari salan í milljón eintök.Ég á t.d.æ eftir að verða mér úti um eitt.

Hessel fæddist í Berlín 1917 en var sjö ára er fjölskylda hans fluttist til Frakklands. Eftir að nasistar hernámu Frakkland í seinna stríðinu gekk hann til liðs við frönsku andspyrnuhreyfinguna. Var gómaður og sendur og sætti pyntingum í fangabúðum nasista í Buchenwald og Dora. Eftir stríð var hann um tíma í frönsku utanríkisþjónustunni.

Í bókinni færir Hessel rök fyrir því að franska þjóðin þurfi að temja sér gildi andspyrnuhreyfingarinnar þar sem inntakið var réttlát reiði. Franska þjóðin þurfi að reiðast aftur, segir hann, og taka ábyrgð á því sem farið hafi aflaga í samfélaginu. Varar hann við vaxandi bili milli ofurríkra og blásnauðra og meðferðinni á ólöglegum innflytjendum. Mælir hann fyrir því að frjálsir fjölmiðlar fái aftur byr í seglin og umhverfisvernd. Ennfremur fyrir mikilvægi þess að staðinn verði vörður um franska velferðarkerfið. Hvetur Hessel til friðsamlegrar og ofbeldislausrar uppreisnar.

Sumir, og þá sérstaklega vinstri menn,  hafa viljað skrifa vinsældir bókarinnar á gremju með það sem þeir kalla aukinn félagslegan ójöfnuð á valdatíma Nicolas Sarkozy forseta. Nærtækara þykir að skýra viðtökurnar neð sjarmerandi framkomu og persónutöfrum Hessels og merkilegu lífshlaupi. Viðtal við hann í sjónvarpi á dögunum vakti alla vega hrifningu hjá mér og áhuga á efninu.


Stórtækt sígarettusmygl stöðvað

Upp úr braski og ólöglegri starfsemi virðist gott að hafa, ef marka má tilraunir manna til að smygla sígarettum til Frakklands. Í nóvember og desember hafa tollverðir í hafnarborginni Le Havre einni og sér gómað 51 tonn af sígarettum.

Góssið var að finna í sex gámum sem fluttir voru frá löndum í Suðaustur-Asíu til Frakklands. Verðmæti farmsins er talið 13 milljónir evra, um tveir milljarðar króna. Komu þeir til Le Havre á tímabilinu 17. nóvember til 17. desember. Sérstakur búnaður er gegnumlýsir gámana stuðlaði að fundi þessum.

Gámunum var skipað út í Malasíu, Víetnam og Singapúr en ekki liggur endanlega fyrir í hvaða landi framleiðslan átti sér stað. Vindlingarnir voru í pökkum sem báru tegundarmerkingarnar Richman, Saint-Thomas, Capital og Business. Já, ætli þetta sé ekki góður bisness þótt stöku sendingar séu stöðvaðar á leiðinni. Hermt er að góssið umrædda hafi átt að setja á markað í Frakklandi og Bretlandi. 

Eflaust ná tollverðir ekki nema hluta þess sem reynt er að smygla en alls hafa hinir vösku verðir í Le Havre, helstu flutningahöfn Frakklands, gert 120 tonn af sígarettum upptæk á árinu.  



Mittismál að baki

Kominn heim úr hjólatúr

Mittismál jarðarinnar ku vera 40.076 kílómetrar. Einu sinni fannst mér þetta miklar tölur, en ekki lengur. Frá því ég byrjaði að hjóla hér í Frakklandi vorið 2007 hef ég lagt þessa vegalengd að baki og gott betur á æfinga- og útivistarferðum um Bretaníuskagann.

Fyrsta árið hjólaði ég nokkuð á fjórða þúsund kilómetra en árið 2008 urðu kílómetrarnir 12.183 og 13.557 í fyrra. Og í ár hef ég bætt um betur þrátt fyrir jarðbönn í janúar og nú í desember. Rauf í gær 14.000 km múrinn og setji ísing eða snjóar ekki strik í reikninginn ættu nokkur hundruð km að bætast við fyrir áramót. Í dag horfir ekki vel til hjólaferða næstu dagana, en það sem af er mánuðinum eru aðeins 585 km að baki.

Ég stefni að því að taka þátt í hinnu miklu reið frá París til Brest og til baka í ágústlok á næsta ári. Undir það hef ég búið mig í ár og í fyrra með þátttöku í allt að 600 km löngum reiðum. Þar hefur veður verið með ýmsum hætti og í 400 km ralli sem hófst klukkan sex að kvöldi rigndi stanslaust á keppendur í sjö tíma, frá klukkan 20 til þrjú um nóttina. Var ekki myrkrið bætandi en þjóðvegir til sveita í Frakklandi eru ekki raflýstir.

Vegalengdin í keppninni París-Brest-París er rúmlega 1200 km eða sem svarar þjóðvegi 1 á Íslandi. Hefur maður 80 eða 90 klukkustundir að klára dæmið, að meðtöldum hvíldum og matarstoppum. Svö mishæðótt er landslagið á leiðinni að maður klifrar samtals yfir 10.000 metra. Tel mig nú þekkja hana nokkuð vel; tók þátt í 600 km keppni á vestari helming hennar í fyrra og ók austari helminginn á bílnum á heimleið frá París í sumar.

Keppendur voru um 5700 síðast, árið 2007, úr öllum heimshornum, en mér skilst enginn Íslendingur hafi tekið þátt í þessari keppni sem fram hefur farið í um öld. Margir heltust úr lestinni 2007 vegna veðurs. Það rigndi nær allan tímann og veðurguðinn Kári kvað í jötunmóð og blés hressilega.

Með hjólamennskunni þarf ég ekki að hafa áhyggjur af eigin mittismáli og nú hef ég sigrast á umgjarðarmáli jarðarinnar.  Maður verður alltaf að hafa einhver viðmið, þau hvetja mann áfram.

Síðustu þrjú árin hafa kílómetrarnir á hjólinu fallið sem hér segir:

Mánuður 2008 km 2009 km 2010 km
janúar729 942580
febrúar829958791
mars9471406 1429
apríl1352 1115 1400
maí1829 1518 1872
júní673 1659 1161
júlí1345 1096 1352
ágúst16131427 1527
september928 486 1191
október588 943 1083
nóvember754 1125 1050
desember578 882 921
Samtals12.183 13.557 14.357

Bætt við 31.des:
Innrammaði árið með hjólatúr í dag og uppfærði töfluna fyrir desember og samtölu ársins. Hún er meira en ásættanleg.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband