Flugumferðarstjórar áttu ekki upp á pall hjá mér í morgun!

Flugumferðarstjórar eiga ekki upp á pallborðið hjá mér þessa dagana - alla vega ekki franskir. Með vitleysisaðgerðum sínum komu þeir í veg fyrir að ég kæmist erinda minna til Barcelona í morgun. Fór  fýluferð út á flugvöll í morgun, samtals 100 km fram og til baka.   

Verkfallsaðgerðir flugumferðarstjóranna hafa ekkert með kjarasamninga að gera, þeir eiga í engum launadeilum. Heldur er um að ræða mótmæli við nútímavæðingu flugumferðarstjórnunar í Evrópu. Ákveðið hefur verið að bræða flugstjórnarþjónustu Belgíu, Hollands, Frakklands, Þýskalands, Lúxemborgar og Sviss í eina. Allt í þágu aukinnar skilvirkni í flugumferð og þar með öruggari og betri þjónustu við þá sem flugið nota; neytendur, almenning, mig og þig.

Frönsku flugumferðarstjórarnir segjast óttast að samruninn leiði til atvinnumissis í þeirra röðum og að þeir verði sviptir ýmsum forréttindum sem þeir njóti sem opinberir starfsmenn. Franska flugmálastjórnin (DGAC) segir það ástæðulausan ótta, samruninn breyti engu um stöðu þeirra.

Eins og ég sagði eiga flugumferðarstjórarnir ekki í launadeilu. Enda væsir ekki um þá samkvæmt  svartri skýrslu ríkisendurskoðunarinnar frönsku frá í janúar. Þar er harðlega gagnrýnt hvernig yfirvöld hafa gefið eftir kröfum flugumferðarstjóranna vegna hræðslu við átök. Segir endurskoðunin, að flugumferðarstjórar vinni að jafnaði ekki nema í 100 daga á ári og njóti 30 vikna orlofs. Auk þess fái þeir fjölda frídaga vegna vaktakerfis sem byggist á að fleiri séu á vakt en þörf er fyrir.  Vaktstjórar bregðist við því með því að gefa umfram mannskapnum frí af vaktinni.

Lestur fregna um þetta er með ólíkindum. Því verður ekki móti mælt, að hér er um forréttindastétt að ræða. Starfsstétt sem er á móti nútímavæðingu ( - það á reyndar við um Frakka upp til hópa). Og miðað við að mánaðarkaup flugumferðarstjóra hjá ríkinu er um 7.500 evrur - eða margföld meðallaun launþegar almennt - er tæpast við því að búast að þeir njóti mikillar samúðar hjá notendum þjónustunnar sem þeir veita.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband