Úrslit verða ekki keypt fyrir peninga - það sannaði Lyon í Madríd

Það var ekki leiðinlegt að standa upp frá sjónvarpinu er flautað var til leiksloka í viðureign Real Madrid og Lyon í meistaradeild Evrópu í gærkvöldi. Stjörnur spænska liðsins gengu sneyptar af velli en Lyon komst áfram í 8 liða úrslit.

Mér skilst, að samanlögð mánaðaraun allra leikmanna Lyon séu minni en mánaðarlaun Ronaldo eins og sér hjá Madríd. Og verðmæti allra leikmanna Lyon mun ekki eins mikið og Real borgaði fyrir hvort sem er Kaka eða Ronaldo í fyrrasumar. Þeir eru vissulega góðir, sérstaklega Ronaldo, sem mikið er treyst á, en það dugði ekki.

En franska liðið var þó ekkert lakara en milljarðalið Madrídar. Heimamenn áttu fyrri hálfleikinn en dæmið snerist alveg við í þeim seinni. Eftir að hafa legið undir hverri ágjöfinni á fætur annarri fyrstu 45 mínúturnar sýndu Frakkarnir að sókn er besta vörnin; þeir stjórnuðu spilinu, hrifsuðu knöttinn hvað eftir annað af heimamönnum á þeirra eigin vallarhelmingi og kæfðu margar sóknir þeirra þannig í fæðingu.

Real Madríd náði forystu á 6. mínútu og virtist ætla að mala lið gestanna, sem gafst þó aldrei upp. Og það var eins og vindur færi úr heimamönnum í hálfleik og í byrjun þess seinni mættu þeir mun samstilltara liði baráttuglaðra gestanna.

Það lá í loftinu lengst af að Lyon myndi skora. Tvisvar til þrisvar klúðruðu þeir þó nánast opnum dauðafærum og jöfnunarmarkið lét á sér standa. Spennan hélst því lengi eða þar til hinn bosníski Pjanic jafnaði  á 75. mínútu. Og þar sem Lyon vann fyrri viðureignina 1:0 þurftu Madrídingar að skora tvö á síðasta kortérinu til að komast áfram.

Að þessu sinni verður ekki sagt að úrslit hafi verið keypt fyrir peninga. Um 50 milljarða króna risafjárfestingar Real Madrid í fyrra máttu sín lítils. Davíð hinn fjárgranni spilaði betri fótbolta og sigraði Golíat.

Það er ekki laust við að púkanum á fjósbitanum hafi verið skemmt aðeins en mér hefur lengi blöskrað peningadellan í íþróttum. Ekki bara fótboltanum, heldur öllu sporti. Hefur það verið til góðs? Það hef ég lengi haft efasemdir um. Við íþróttahreyfinguna eina og sér er þó ekki að sakast. Þar er hlutur sjónvarpsstöðva sem keppst hafa um að sýna frá hvers kyns íþróttum ekki minni en vissulega hafa þær slegist harðast um vinsælasta efnið, fótboltann.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Guðmundur Júlíusson

Rétt er þetta hjá þér Ásgeir, peningar gera ekki alltaf gæfumunin, þó auðvitað séu þeir nauðsynlegir, en í tilfelli Madridarliðsins er ég og hef alltaf verið, viss um að þeir myndu ekki gera frábæra hluti, það er ekki hægt að kaupa stemmingu og það er ekki hægt að kaupa baráttu og liðsanda, þess vegna vann franska liðið í gær, sem betur fer segi ég, gott dæmi um þetta auk Lyons er Arsenal sem engu eyðir í leikmannakaup og hvar eru þeir staddir um þessar mundir?

Guðmundur Júlíusson, 11.3.2010 kl. 19:15

2 identicon

Ég hugsa að Völsungur hefði unnið Madridinganna eins og þeir spiluðu.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 12.3.2010 kl. 00:12

3 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Það vantar ekki loftið í Þingeyingana frekar en fyrri daginn, (ég er reyndar sjálfur einn þeirra) ! Ertu ekki með þessu að gera lítið úr góðum leik Frakkanna í seinni hálfleik, Bergur? Það finnst mér óverðskuldað - og Madrídingar voru eitraðir í fyrri hálfleik. 

Ágúst Ásgeirsson, 12.3.2010 kl. 07:08

4 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Já, Bergur, svo tóku Lille þá ensku frá Liverpool í gærkvöldi. Lille, þar eru engar stjörnur innanborðs og nöfn leikmanna þess vart þekkt utan afkimans í norðurenda Frakklands! Svona er þetta bara, dvergarnir geta fellt risana, rétt eins og Gúlliver upplifði í Putalandi.   

Ágúst Ásgeirsson, 12.3.2010 kl. 07:12

5 identicon

Ég er bara að reyna að peppa Völsungana upp fyrir komandi átök. En það er alltaf gaman þegar þeir litlu sigra þá stóru.

Grefillinn Sjálfur - Koma svo! (IP-tala skráð) 12.3.2010 kl. 09:20

6 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Gott hjá þér, Bergur. Þetta er fallega hugsað.

Ágúst Ásgeirsson, 12.3.2010 kl. 11:54

7 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Hi hi. Sammála þér eins og oftast Ágúst. Alltaf gaman þegar hjartað er með í leik og þeir "litlu" bera sigur úr býtum. Peningar í íþróttum eru algerlega óskiljanlegir hlutir og er þá sama hvort um er að ræða golf eða fótbolta. Bestu kveðjur og já og endilega peppa Völsungana. kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 24.4.2010 kl. 21:21

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband