Túrinn af stað í 97. sinn

Þá er ljóst hvað bíður manns næstu þrjár vikurnar eða svo; langlega í sófanum fyrir framan imbann. Tour de France, Frakklandsleiðin, er að renna upp, en keppnin hefst í dag. Þó ekki í Frakklandi heldur í Rotterdam í Hollandi. 

Eins og um árabil verða keppnisliðin 22 og níu menn í hverju. Margir sem sagt til kvaddir en fáir útvaldir. Stóru nöfnin auðvitað með, Armstrong, Contador, Schleck-bræður, Hushovd, Cancellara, Cavendish, Cadel Evans, svo einhverjir séu nefndir af þeim sem helst þykja til greina koma sem handhafar gulu treyjunnar þegar upp verður staðið á Champs-Élysées breiðgötunni í París eftir þrjár vikur.

Túrinn er mikið dæmi og fékk ég nasasjón af því er ein leiðin lá rétt hérna við nefið á mér í hitteðfyrra. Hersingunni fylgja 650 blaðamenn frá 350 fjölmiðlum eða fréttveitum, 260 kvikmyndatökumenn og ljósmyndarar, 75 útvarpsstöðvar, 1.800 tæknimenn og bílstjórar. 

Framundan eru 20 keppnisdagar, þar af sex í miklu og bröttu fjalllendi í Ölpunum og Pýrenneafjöllum. Klífa hjólagarparnir þá 23 tinda af þremur erfiðustu gráðum. Á fjórum öðrum dagleiðum í hæðóttu landslagi bíða þeirra einnig fjórir slíkir tindar.

Ekki ætla ég að veðja á einhvern sérstakan. Vona bara að franskir knapar vinni eitthvað af dagleiðum en af þeim held ég einna mest upp á Thomas Voeckler, með rásnúmer 151. Hann sló í gegn 2004 og skrýddist þá gulu treyju forystusauðarins í nokkra daga. Þá vann hann eina dagleið, hina fyrstu á ferlinum í Túrnum, í fyrra.

Armstrong hefur verið að gera góða hluti udanfarnar vikur og er líklega öflugri en í fyrra. Hann varð þriðji í Lúxemborgartúrnum á dögunum, síðan annar í svissneska túrnum fyrir um hálfum mánuði. Og því þá ekki í fyrsta sæti nú? Yngri menn eins og Andy Schleck og Alberto Contador munu þó láta hann finna fyrir sér og sama er hvernig fer; menn þurfa sýnist mér að hafa meira fyrir fyrstu sætum í ár en í fyrra, miðað við úrslit móta í vor og sumar.

Fróðlegt verður að sjá hvernig Alexander Vinokourov kemur út en hann hefur látið fyrir sér finna í keppni í sumar, kominn til baka eftir tveggja ára keppnisbann vegna lyfjanotkunar. Þeir eru í sama liði, Contador og hann, Astanaliðinu sem á sínum tíma var stofnað um Vino.

Já, fjörið byrjar síðdegis. 

Hér er að finna allt sem vita þarf um Tour de France.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Þetta er drottningin í hjólreiðakeppnunum. Íslendingar hafa að sjálfsögðu ekki mikinn áhuga á þessu, þar sem hjólreiðar eru jafnalgengar hérna, og upphækkaðir jeppar í Danmörku!!!!

   Spennandi að sjá hvernig "gamli maðurinn" stendur sig. Ótrúleg þrautseigja hjá honum að koma til baka, og sértstaklega eftir þetta umtal um meinta lyfjamisnotkun. Það hlýtur að hafa eitthvað að segja um endurkomuna, greinilega ekki sáttur við það kjaftæði!!.......

Alpatvist (IP-tala skráð) 3.7.2010 kl. 23:08

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Eigendur gervihnattadiska ættu að geta fylgst vel með keppninni, m.a. á Eurosport. Það virðist vaxandi áhugi á hjólreiðum á Íslandi en það hefur náttúrulega ekkert með Frakklandsreiðina að gera, heldur aukna áherslu á útiveru og líkamlega hreyfingu.

Ágúst Ásgeirsson, 4.7.2010 kl. 19:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband