Frakkar taka íþróttagleði sína á ný

Frakkar tóku íþróttagleði sína á ný í dag. Hrakfarir og fíflalæti fótboltaliðsins á HM sviptu þá slíkri ánægju en hjólreiðagarpurinn Sylvain Chavanel breytti því öllu með sigri á áfanga dagsins í Frakklandsreiðinni (Tour de France).

Klæðist hann gulu treyjunni úr þessu og er með um þriggja mínútna forskot á Svisslendinginn Fabian Cancellara, sem skrýddist henni í gær eftir sigur í tímatökunni á fyrsta degi, laugardag.

Hjálpaði það Chavanel að öðlast þetta mikla forskot, að keppendaópurinn hægði á sér eftir að tugir keppenda flugu á hausinn á rennblautum og glerhálum vegi niður af Stockeu-fjalli. Með því að hægja ferðina, en þar lék Cancellara lykilhlutverki, gafst sem flestum knöpum tækifæri á að komast í hópinn aftur.

Niður fjallið fór Chavanel langt á undan og tók þar enga áhættu en með sigrinum er hann orðin þjóðhetja í Frakklandi. Og nógu öflugur keppandi er hann til þess að halda treyjunni einhverja  daga í viðbót.

Sigur Chavanel er athyglisverður sakir þess að í lok apríl slasaðist hann alvarlega í keppni í Belgíu en leið dagsins lá að hluta til um sömu vegi og þá. Meðal annars höfuðkúpubrotnaði hann og gat ekkert æft sig í nokkrar vikur. Í dag tók hann á rás og sleit sig frá hópnum eftir aðeins 11 kílómetra af 201. Fljótlega drógu nokkrir hann uppi og fylgdist sá hópur að nokkuð á annað hundrað kílómetra en enginn treysti sér með Chavanel er hann lét til skarar skríða og sótti til sigurs er 30 km voru í mark.

Meðal þeirra sem féllu af baki í dag voru Lance Armstrong, Alberto Contador og Andy Schleck sem taldir eru einna sigurstranglegastir í Frakklandsreiðinni. Lítið hefur spurst út um meiðsl þeirra eða hvaða áhrif þau hafa á framhaldið.

Liðsfélagi Chavanel, Jérôme Pineau, kórónaði svo daginn fyrir Quickstep-liðið með því að vinna doppóttu treyjuna sem stigahæsti klifrarinn skrýðist jafnan.

   


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband