90 flugu á hausinn

Í þá árafjöld sem ég hef fylgst með Frakklandsreiðinni á hjólum (Tour de France) minnist ég ekki eins mikilla sviptinga á láglendi eins og síðustu daga. Og garparnir eru statt og stöðugt á hausnum, ekki bara í gær heldur einnig í dag en hjólað var að hluta til á fornum steinagötum sem reynir hrikalega á mann og hjól.

Frakkinn Sebastien Chavanel vann gulu treyjuna í gær og virtist í rúma 190 km af 213 ætla að halda henni í dag - og það þrátt fyrir að hafa dottið og þurft að skipta um hjól í dag. Sá draumur fjaraði út á síðustu 20 km er tvisvar sprakk dekk á steinakafla. Þar með missti hann af keppinautum og treyjan rann úr greipum hans.

Og það var enginn annar en Fabian Cancellara frá Sviss sem endurheimti treyjuna gulu eftir að hafa tapað henni í gær. Þá fórnaði hann sér og hægði ferðina til þess að þeir sem féllu á leið niður af fjalli einu í Belgíu. Þar lá tæplega helmingur keppenda í valnum eða 90 knapar. Meðal þeirra allir helstu garparnir; Lance Armstrong, Alberto Contador og Andy Schleck. Flestir skildu eftir talsvert hörund á rennblautu malbikinu en allir stóðu upp þótt skellurinn væri harður, enda flestir á um 60 km/klst hraða er þeir duttu.

Cancellara fórnaði sér í gær og hálfvegis aftur í dag er hann hélt mikilli ferð svo liðsfélagi hans Schleck gæti náð forskoti á Armstrong og Contador. Það gekk eftir, enda garparnir tveir í vandræðum, m.a. tafðist Armstrong er dekk sprakk hjá honum en ekki er eins auðvelt og fljótlegt að fá viðgerð eða nýtt hjól á steinagötunum þar sem aðstoðarbílarnir eru ekki í sömu nánd við keppendur og á götum úti.

Andy Schleck hefur hingað til notið góðrar aðstoðar eldri bróður síns, Franck, en þess nýtur hann ekki lengur því sá síðarnefndi vibeinsbrotnaði í falli í dag og er úr leik.

Hushovd sterkur þó stutt sé frá viðbeinsbroti

Norðmaðurinn Thor Hushovd fylgdi fremstu mönnum eins og skugginn í dag og vann dagleiðina á endaspretti. Er það sjöunda dagleiðin sem hann vinnur í Frakklandsreiðinni. Hreppti hann í leiðinni grænu treyjuna og er markmið hans að vinna hana í ár, eins og í fyrra og 2005. 

Árangur Hushovd er athyglisverður því hann viðbeinsbrotnaði í óhappi í maí en er kominn á fullt skrið aftur.

Annar keppinautur styrkti stöðu sína verulega í dag, Ástralinn Cadel Evans. Slóst hann við Hushovd um sigur í lokin og er nú þriðji í heildarkeppninni; 39 sek á eftir Cancellara og 1:01 mínútu á undan Contador og 1:56 á undan Armstrong.

Andy Schleck er sjötti í heildina eftir daginn og 31 sekúndu á undan Contador og 1:26 mín. á undan Armstrong.

Breti slær í gegn

Bretinn Geraint Thomas í Sky-liðinu hefur komið skemmtilega á óvart en hann varð annar í dag og er orðinn annar í heildarkeppninni, 23 sekúndum á eftir Cancellara. 

Contador átti í erfiðleikum á steingötunum enda óvanur slíkum aðstæðum og varð á endanum 1:13 mínútum á eftir fyrstu mönnum. Vegna bilana missti Armstrong af fremri hópunum en sýndi mikla hörku síðustu 20 km við að reyna minnka bilið. Hann varð á endanum 2:08 á eftir. Verra fyrir hann er hið mikla forskot sem Contador hefur náð á hann, 55 sekúndur.

Contador er í níunda sæti í heildina, 1:40 á eftir Cancellara og Armstrong er talsvert aftar. Fyrir Contador er það ekki sérlega skemmtilegt að maðurinn sem reyndi að draga hann áfram og vinna fyrir hann, Alexander Vinokourov, lauk keppni nokkru fyrr og er sæti framar og níu sekúndum á undan í heildina.

Ef síðustu dagar eru forsmekkur af því sem koma skal rúmlega næstu tvær vikurnar þá á eftir að vera fjör að fylgjast með Frakklandsreiðinni.

 

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband