Fyrsti áfangi að baki

Höfundur í hópi þátttakenda rétt fyrir start í l'Hermitage.Þá er fyrsti áfanginn að þátttökurétti í París-Brest-París reiðinni í sumar að baki. Hjólaði í 200 km forkeppni frá l'Hermitage sl. laugardag ásamt 280 öðrum. Fínt veður fyrstu 120 km en síðan tók við rigning næstu tvo tímana eða svo. Hún var ekki svo slæm en eftir því sem vegurinn blotnaði spýttist meira yfir mann frá meðreiðarmönnum. 

Hann stytti upp síðustu 25 km en vegurinn þornaði ekki jafn harðan. Og það bætti gráu ofan á svart að nokkuð var um mold hér og þar á veginum sem borist hafði af ökrum vegna bústarfa í sveitum Bretaníuskagans. Þessu jós yfir mann en það er bara hluti af tilverunni og ekkert til að kveinka sér yfir.

Ekki var um annað að ræða en skipta svo fljótt sem verða mátti um föt eftir komu á leiðarenda þar sem manni kólnaði fljótt rennvotum. 

Það var skemmtileg stemmning á svæðinu er hópurinn lagði af stað eiginlega um leið og kirkjuklukkan sló átta að morgni. Leiðin lá frá l'Hermitage, sem er útborg frá Rennes, norðnorðvestur niður að sjó við St. Cast og þaðan haldið meðfram ströndinni um Frehel, Erquy og Planeuf-Val Andre, allt ægifagrar og sjarmerandi slóðir. Fyrsta tékk var eftir 75 km í St. Lormel en þar var minn hópur eftir 2 og 1/2 tíma, og hið næsta í Port Dahouët í Planeuf-Val Andre eftir um 115 km. Þar stoppuðum við í röskan hálftíma og nærðumst.

Því næst lá leiðin suðsuðaustur á bóginn til baka og nú hafði vindinn hert og byrjaði að rigna, allt samkvæmt veðurspám frá því daginn áður. Því kom ekkert á óvart og ekki um annað að ræða en halda áfram með jákvæðu hugarfari. Slóst við brottför í hóp með 5 hjólurum frá Pipriac og lengst af vorum við í samfylgd með 20-30 öðrum. Það er léttara og ekki síst gegn veðri því þá skiptumst við nokkuð á að leiða og kljúfa vindinn.

Til baka kom ég upp úr klukkan fjögur með mínum mönnum og um 30 öðrum, flestum frá hjólafélaginu í St. Meen-le-Grande þaðan sem einn frægasti hjólreiðagarpur Frakka er, Louison Bobet. Alls var ég á baki í rúma sjö klukkutíma og undirbúningurinn hefur verið réttur og góður því þetta var ekki erfiðara en að drekka vatn. Mér leið vel alla leið og fann aldrei fyrir þreytu. Hún var heldur ekki erfið, klifur samtals allan hringinn t.a.m. aðeins tæplega 1300 metrar.

2011-pbp.jpgÞað var líka til að lyfta andanum að í hópnum sem ég gekk til liðs við var einn 74 ára og sá var sprækur sem unglingur. Feikna vel á sig kominn sá og síbrosandi. Þetta var honum engin raun og hann hefur nokkrar París-Brest-París reiðar að baki. Ég uppgötvaði sem sagt að maður verður aldrei of gamall til að hjóla, ef lundin er létt en það verður hún eiginlega sjálfkrafa í svona samkomum.

Þá er sem sagt fjórðungur af fullri þátttökuheimild í París-Brest-París í höfn. Og reyndar gott betur því ég tryggði mér forskráningu og þar með forgang með þátttöku í 200 km, 300 km og 400 km forkeppnum í fyrra. Engu að síður verður maður að fara í gegnum öll stigin fjögur aftur, og því eru 300, 400 og 600 km eftir. Tek 300 um miðjan apríl, 400 líklegast í byrjun maí og síðan 600 um miðjan júní. Boðið er upp á þessi úrtökumót um allt land en ég læt mér nægja heimaslóðir á Bretaníuskaganum. Þó eru líkur á að ég fari til borgarinnar Laval í 400 km en þangað er nú ekki nema um klukkustundar akstur. Sjálf reiðin frá París til Brest og til baka, um 1250 km, fer svo fram síðla í ágúst. 

Hér má sjá myndband sem gefur innsýn í frábæra stemmningu rétt fyrir og í upphafi reiðarinnar.

Þá er hér kort af leiðinni

Hér er svo annað vídeó, tekið þegar menn eru að koma aftur í hús við heimkomu og fá sér hressingu að því loknu. Þar kemur fram að um 80 séu komnir í mark af 281 og var hópurinn sem ég var með þá löngu kominn.

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband