Sego og Sarko vörðu 8,3 milljónum í förðun og hársnyrtingu

Þeir sem standa í pólitísku brölti og þurfa að reiða sig á stuðning kjósenda fara ýmsar leiðir til að vinna atkvæði og öðlast brautargengi. Í aðdraganda frönsku forsetakosninganna sl. vor eyddi Nicolas Sarkozy jafnvirði 3,3 milljóna króna í andlits- og hársnyrtingu. Var þó ekki nema hálfdrættingur á við helsta keppinautinn, Segolene Royal sem borgaði 52.000 evrur eða 5 milljónir króna fyrir förðun og hársnyrtingu.


Franska ríkisendurskoðunin hefur lokið yfirferð yfir kostnaðarreikninga frambjóðendanna allra, ekki bara Sarkozy og Royal sem kosið var á milli í seinni umferðinni.


Eftir hálfs árs yfirlegu þótti endurskoðuninni þessi kostnaður óhóflega mikill og ekki réttlætanlegt að niðurgreiða nema hluta hans, eða um þriðjung. Hún sagði að alla jafnan væri um persónulegar þarfir að ræða. Sarkozy, sem borgaði stundum 450 evrur á tímann í fínum snyrtistofum, fær því 1,1 milljónir króna af skattfé almennings upp í snyrtikostnaðinn og Royal 1,6 milljónir.


Mér finnst ólíklegt að þessar upplýsingar mælist vel fyrir hjá almenningi hér í landi  sem fyrst og fremst hefur áhyggjur af þverrandi kaupmætti og mun því blöskra bruðl sem þetta og að það skuli að hluta til kostað af skattfé hans.


Segolene Royal vildi fá förðunarkostnað sinn endurgreiddan en verður að borga tvo þriðju hans úr eigin vasa. Henni var einnig synjað um endurgreiðslu á 53.500 evra  kostnaði (um 5,2 m.kr.) við gagnnjósnabúnað, rafeindaskynjara, sem hún lét koma fyrir á kosningaskrifstofu sinni af ótta við að Sarkozy reyndi að njósna um starfsfólk skrifstofunnar.

Í heildina samþykkti ríkisendurskoðun einungis að endurgreiddur yrði um helmingur þeirrar 21 milljónar evru sem frambjóðendurnir tveir vörðu í kosningabaráttu sína.

Leiðtoga Þjóðfylkingarinnar, Jean-Marie Le Pen, var synjað um endurgreiðslu á 15 milljóna króna kostnaði við veisluhöld fyrir baráttusveitir sínar. Tímaritið L'Express hefur reiknað út að hlutfallslega mest kostaði hvert atkvæði sem féll á frambjóðandann Marie-George Buffet, leiðtogi  kommúnistaflokksins, eða 6,81 evru, jafngildi 653 króna.

Í samanburði var hvert atkvæði Sarkozy næstum fjórum sinnum ódýrara, kostaði 1,83 evrur, eða 175 krónur.

Lang ódýrust voru atkvæði trotskíistans og póstmannsins Olivier Besancenot. Kostuðu  0,61 evru hvert, 58 krónur.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband