Einföldun að segja að Sarkozy hafi fengið falleinkunn

Það er kannski til of mikils mælst að ætlast til mjög nákvæmra fréttaskrifa utan Frakklandssteina af sveitarstjórnarkosningum hér í Frakklandi. Ég hef reynt að setja mig nokkuð vel inn í þær og hef auk þess reynt að fylgjast með því hvernig engilsaxneskar fréttastofur hafa fjallað um þær. Oft finnst mér eins og þar stýri franskir sósíalistar penna, svo einhliða og yfirborðskenndar eru fréttirnar oftast.

Það er t.d. í besta falli talsverð einföldun að segja að Nicolas Sarkozy forseti hafi fengið falleinkunn í kosningunum. Verið getur að einhverjir kjósendur hafi vilja með atkvæði sínu mótmæla stjórnarstefnu hans. Líklegra finnst mér að stefna forsetans hafi frekar stuðlað að því að drífa stuðningsmenn Sósíalistaflokksins á kjörstað því dræm kjörsókn er áberandi og ein af athyglisverðari niðurstöðum kosninganna.

Vissulega unnu sósíalistar á og endurheimtu margar borgir og bæi sem þeir töpuðu í hendur hægrimanna í síðustu kosningum, 2001. Nær væri þó að segja að meira jafnvægi sé komið í pólitískt landslag á landsmælikvarða eftir sigur hægrimanna í bæði forseta- og þingkosningunum í fyrra.

Dræmasta kjörsókn frá 1959

Þannig mun Sósíalistaflokkurinn hafa fengið um 49,5% greiddra atkvæða í gær en flokkur Sarkozy um 47,5%. Mikla athygli vekur hins vegar dræmasta kjörsókn í nokkrum kosningum í Frakklandi frá 1959. Á landsvísu greiddu aðeins 65% atkvæði og var kjörsóknin minni í þéttbýli en dreifbýli. Í einstökum hverfum Parísar höfðu vel yfir 40% kjósenda að jafnaði ekki fyrir því að sækja kjörstað. Í því hverfi sem harðast var barist, hinu fimmta, var kjörsóknin aðeins 68,49% og í hverfunum 20 í heild 56,25%.

Þá er algengt að nú séu komnir til valda borgarstjórar sem ekki hafa meirihluta kjósenda á bak við sig, þökk sé kosningakerfinu. Í seinni umferðinni er kosið aftur milli allra sem fengu a.m.k. 10% atkvæða í fyrri umferðinni. Því var algengt að frambjóðendur væru þrír og að atkvæði dreifðust þannig að enginn fékk meirihluta; sá atkvæðamesti hlýtur þá hnossið.

Fyrir barðinu á þessu varð Francois Bayrou, leiðtogi miðjuflokksins, Modem, sem hafnaði samstarfi við flokk Sarkozy (UMP) í heimaborg sinni Pau við Pýrenneafjöll og mistókst að nýta sér klofning í röðum sósíalista. Hann fékk 38,81% atkvæða en nýr borgarstjóri sósíalista 39,76%. Frambjóðandi UMP hlaut 21,42% en þar var um fyrrverandi borgarstjóra og sósíalista að ræða.

Kjósendur vilja hraðari umbætur

Vart getur það talist falleinkunn fyrir Sarkozy, að 20 ráðherrar af 24 í stjórn hans sem buðu sig fram til borgarstjóra eða til borgarstjórnarsætis náðu kjöri. Tveir töpuðu mjög naumlega. Annar þeirra fráfarandi borgarstjóri (Xavier Darcos) en hinn nýr í framboði (Rama Yade). Vantaði Darcos einungis 113 atkvæði til að halda velli í Perigueux.

Þá vill svo til að stofnanir sem fást við skoðanakannanir spurðu fólk við kjörstaði um afstöðu þess til umbótastefnu ríkisstjórnar Sarkozy. Drjúgur meirihluti vildi að aukinn kraftur yrði settur í umbætur eða haldið áfram á sama hraða, en aðeins um fjórðungur vildi að hægt yrði á ferðinni. Við þessum niðurstöðum áttu forystumenn sósíalista engin svör í kosningasjónvarpi í gærkvöldi.

Mjög óvenjulegt fyrirkomulag er á sveitarstjórnarkosningunum. Í París er ekki bara kosinn borgarstjóri Parísar, heldur líka fyrir hvert hinna 20 hverfa borgarinnar. Svipað gildir um aðrar stærstu borgir. Hægrimenn héldu 8 af 20 hverfum Parísar og meðal nýrra hverfaborgarstjóra er Rachida Dati dómsmálaráðherra. Hún var kosin borgarstjóri með 57,7% atkvæða í sjöunda hverfi en frambjóðandi Sósíalistaflokksins fékk 27,2%.

Delanoe styrkir stöðu sína í Sósíalistaflokknum

Bertrand Delanoe styrkti stöðu sína sem borgarstjóri Parísar, hlaut 57,7% atkvæða miðað við 49,6% 2001. Skiptir niðurstaðan líklega þó mestu fyrir hann vegna nýs leiðtogakjörs í Sósíalistaflokknum sem verið hefur hálfgert rekald frá í forsetakosningunum í fyrra. Hann sækist eftir því hlutverki auk fjölda annarra, þ. á m. Segolene Royal sem tapaði fyrir Sarkozy í forsetakosningunum í fyrra.

Dræm kjörsókn vekur athygli, eins og fyrr segir. Var aðeins tæp 65% og hefur ekki verið minni í neinum kosningum frá 1959. Í fyrri umferðinni fyrir hálfum mánuði var kjörsóknin um 67,5% og hafði ekki verið meiri í nær hálfa öld.

Þetta gerist þrátt fyrir gríðarlega herkvaðningu bæði hægri- og vinstriflokka eftir fyrri umferðina. Hægrimenn segja þetta skýran vott um að það séu staðbundin mál sem kosið er um í sveitarstjórnarkosningum en ekki landsmálin. Francois Fillon forsætisráðherra sagði að ríkisstjórnin þyrfti engan lærdóm að draga af úrslitunum.

„Þögn kjörklefans“

Valerie Pecresse sem fer með málefni háskóla og æðri menntunar í stjórninni gekk svo langt að kalla úrslit sveitarstjórnanna „þögn kjörklefans“ gagnvart landsmálunum. Roger Karoutchi, sem fer með samskipti stjórnarinnar við þingið, mótmælti staðhæfingum sósíalista um að líta bæri á úrslitin sem kröftug mótmæli við stjórnarstefnuna. Karoutchi sagði það einkenni á andófskosningum að kjörsókn væri gríðarleg. Raunveruleikinn væri því sá, hin dræma kjörsókn, að sósíalistum hefði mistekist það ætlunarverk sitt að fá kjósendur til að vanda um fyrir ríkisstjórn Sarkozy.

Margt fleira mætti tína til um kosningarnar sem ýtir undir þá skoðun mína, að varlegt sé í besta falli að nota niðurstöðuna til að fella sérstakan dóm um störf Sarkozy og stjórnar hans. Einkamál hans voru í sviðsljósinu um tíma og jafnvel meira en fólk almennt kærir sig um. Þau hafa fyrst og fremst stuðlað að því að draga úr almennu trausti í garð forsetans en ekki stjórnarstefnunnar. Þá hefur það bitnað á vinsældum hans að segjast lítið geta gert í að auka kaupmátt almennings þar sem ríkiskassinn sé tómur, en í kosningabaráttunni í fyrra var kaupmátturinn eitt stærsta mál hans og Sarkozy; sagðist ætla verða „kaupmáttarforseti“ Frakklands, næði hann kjöri. Nú vilja kjósendur að hann hraði umbótum, sem m.a. eiga að bæta kjör og hag fólks.

Hin rósrauða bylgja sem reis í sveitarstjórnarkosningunum nú er misjafnlega há. Einna minnst er hún á mínum slóðum, á Bretaníuskaga í vesturhluta landsins. Hún virðist sýna, að pólitískt starf sósíalista sé mun skilvirkara í sveitarstjórnum en á landsvísu, þegar á heildina er litið. Sósíalistar áttu þó alls ekki upp á pallborðið í mínu kjördæmi en þar réðust úrslitin strax í fyrri umferðinni. Hægrimenn fengu 65% atkvæða og 24 af 29 bæjarfulltrúum í þessum 6.000 manna bæ. Kjörsókn var langt umfram það sem gerðist á landsvísu, eða 77,5%.

p.s.

Rétt að halda því til haga, að í kvöldfréttum sjónvarps voru endanlegar tölur um fylgi og kjörsókn birtar. Sósíalistar fengu 49%, flokkur Sarkozy 47,5% og kjörsóknin 62%. Því sniðgengu 38% kjörklefann, en ekki 36% eins og talið var við lok kjörstaða í gær.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Bestu þakkir fyrir þennan pistil, hann var góður og fræðandi. Ég hef alltaf haft nokkurn áhuga á Frönskum stjórnmálum, síðan ég bjó þarna í nokkur ár á 10. áratug síðustu aldar.

En þetta rifjaði líka upp fyrir mér hvað mér finnst Frönsk stjórnmál skrýtin og samþjöppun valdsins mikil. Þessi lenska að borgarstjórar sitji nær undantekningarlaust á þingi og helst sem ráðherrar. Þetta er undarleg blanda.

En það sem Frakkland þarfnast auðvitað er uppstokkun. En það gerist varla á næstunni og þessi úrslit í sjálfu sér ekki hvati til þess.

G. Tómas Gunnarsson, 17.3.2008 kl. 14:46

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þessu er ég hjartanlega sammála. Frakkarnir kalla þetta lýðræði í sinni bestu mynd, yfir 35.000 sveitarstjórnir eru í landinu og bæjarfulltrúar í 300 - 1000 manna bæ eru að lágmarki 15 og cirka 10.000 manna bæir eru með 33 fulltrúa!!! (þeir fá að vísu engin laun fyrir starfann og í mínum bæ er bæjarstjórinn aðallega dýralæknir á daginn).

Fyrir utan sveitarstjórnirnar eru 100 héruð, hvert með sitt stjórnskipulag, ráð og nefndir. Þau mynda síðan um 15 stjórnsýslusvæði sem hafa eigið þing. Þannig er það hér á Bretaníuskaganum, fjögur héruð eiga aðild að Bretaníuþinginu sem situr í Rennes. 

Í hverju héraði eru svo nokkrir tugir kantóna með sínu stjórnskipulagi og. Kosið var um fulltrúa á um helmingi þeirra samhliða sveitarstjórnarkosningunum. Í hverri kantónu eru svo nokkrar sveitarstjórnir.

Fyrirkomulag þetta hefur í för með sér gríðarlega skriffinsku og allt hefur langan meðgöngutíma. Hvert stjórnskipulagið af öðru sem málin þurfa að fara í gegnum, fyrst upp og svo niður aftur! Íslendingar geta hrósað happi yfir því að hafa bara sveitarstjórn og svo ríkisstjórn, ekki fjöldann allan af stjórnum þar á milli. 

Ég er á því að Frakkar séu eiginlega enn í fjötrum eftirbyltingaráranna því núverandi stjórnkerfi er í aðalatriðum, ef ekki alveg, það nákvæmlega sama og fyrir 200 árum. Öllum þessum stjórnsýslustigum var þá komið upp - aðallega til að treysta ítök Parísarvaldsins úti í héruðunum og um land allt. Skattakerfið hefur t.d. mikið til verið óbreytt frá þeim tíma, menntakerfið og dómskerfið hefur verið mikið til óbreytt. Þegar svo nýir ráðamenn vilja stokka upp spilin og  að einhverju leyti hoppa yfir í nútímann verður allt vitlaust í mótmælum. Tregðan gegn breytingum er gríðarleg því allir vilja halda í sín völd.

Ágúst Ásgeirsson, 17.3.2008 kl. 16:12

3 Smámynd: G. Tómas Gunnarsson

Það var hálf skondið að lesa þetta.  Sjálfur sagði ég oft á meðan ég bjó í París, að ég teldi að Franska byltingin hefði stigið landsmönnum til höfuðs og þeir hefðu ekki jafnað sig á henni enn.

En eins og þú segir er stjórnkerfið fornt, forréttindi opinberra starfsmanna mikil. Lagabálkurinn stór og þungur og erfitt um vik með margar athafnir.  En vonandi stefnir í rétta átt, en það verður ábyggilega hægt.

G. Tómas Gunnarsson, 17.3.2008 kl. 16:52

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband