Tvær franskar skútur þveruðu Atlantshafið á rúmum þremur dögum

Það er ekki aðeins að franski skútustjórinn Pascal Bidegorry og áhöfn hans hafi siglt lengri vegalengd á sólarhring en nokkru sinni hefur áður verið gert á skútu. Áhöfnin vann það afrek einnig, að vera fljótari á leiðinni frá Ambrose-vita við New York til Lizard Point í Bretlandi en áður þekkist, eða rúma þrjá daga!

Bidegorry og 11 manna áhöfn hans á fjölbytnunni risastóru, Banque Populaire V, var þrjá daga, 15 klukkustundir, 25 mínútur og 48 sekúndur frá New York til Bretlands.

Gamla metið var í eigu annars Frakka, Franck Cammas, og var 4 dagar, 3 stundir, 57 mínútur og 54 sekúndur, frá í júlí árið 2007.

Cammas freistaði þess einnig að bæta metið og því var í raun og veru um nokkurs konar kappsiglingu að ræða milli frönsku skútustjóranna tveggja að ræða. Methafinn gamli þveraði Atlantshafið einnig á innan við fjórum sólarhringum og bætti sitt gamla met. Var tæpum þremur klukkutímum á eftir Bidegorry; sigldi á 3 dögum, 18 stundum, 12 mínútum og 56 sekúndum.  

Bætti Bidegorry gamla siglingametið um rúmar 12 stundir og Cammas var 9 stundum og 44 mínútum fljótari en í metsiglingunni 2007.

Um er að ræða 2.925 sjómílna vegalengd, eða 5.405 km. Meðalhraði skútunnar var 32,94 hnútar eða næstum því 61 km/klst. Meðalhraði Cammas á siglingunni fyrir tveimur árum var 28,65 hnútar.

Eins og ég hafði áður bloggað gerðist það á siglingunni, að skútan Banque Populaire V undir stjórn Bidegorry lagði að baki lengri vegalengd á sólarhring en nokkur önnur skúta hefur gert í sögunni, eða 880 sjómílur. Meðalhraðinn því 36,66 hnútar á klst.  Það jafngildir 1.626 kílómetrum, sem er ekki fjarri vegalengdinni frá London til Reykjavíkur í beinni línu! Gamla metið átti Cammas.

Skúturnar tvær eru engin smásmíði.  Groupama 3 er 103 feta löng, eða 31 metri. Banque Populaire V er nokkuð lengri, 131 fet, eða 39,9 metrar. 

Cammas hóf siglinguna 2:35 stundum á undan Bidegorry og því munaði ekki mörgum mínútum er þær sigldu yfir marklínuna undan Lizard Point á suðurodda Cornwall-skaga í Englandi.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband