Loksins snjóar - hefði þó alveg getað verið án þess!

Snjór eftir fjögurra ára hlé í 10 Rue BeausoleilJæja, það hlaut að koma að því. Í morgun var eins til tveggja sentímetra snjóföl á jörðu hér á vesturlandinu. Að þessu hlaut að koma, hér hefur ekki snjóað frá því 27. desember árið 2005. Já, það vantaði bara 9 daga upp á að snjóleysið stæði í fjögur ár. 

Hér á Bretaníuskaganum virðumst við betur í sveit sett gagnvart snjó og kulda en flest önnur svæði landsins, ef allra syðsti hlutinn er undanskilinn. Það er ágætt því mér finnst ég alveg hafa séð nóg af snjó um ævina. Hann er í sjálfu sér yndislegur og fátt unaðslegra en renna sér á skíðum til fjalla. 

En ég kann betur við blíðviðrið sem maður nýtur hér lengstan part ársins. Hið eina slæma við snjóinn er auðvitað það, að maður kemst ekki í hjólreiðatúr meðan hans nýtur við. Þessi föl sem var í morgun er að mestu horfin en slabb við vegarkanta er þess valdandi að hjólhesturinn er vistaður í húsi í dag!

Til að sýna öll ósköpin fylgir hér mynd sem ég tók út um glugga. Þótt lítil sé fölin þarf ekki meira til að samgöngur fari úr skorðum hér um slóðir.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú þarf bara að draga hlaupaskónna fram þar sem aðstæður leyfa ekki hjólreyðar. Svo er auðvitað hægt að synda til að gera eitthvað. það gengur auðvitað ekki að sleppa æfingum : )

Steinn (IP-tala skráð) 19.12.2009 kl. 07:54

2 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Rétt Steini, eitthvað verður maður að gera. Það snjóaði aftur í nótt og útlitið slæmt til hjóla. Það verður að bregðast við þessu - en líklega kemst ég aldrei með tærnar þar sem þú ert með hælana í þessum efnum, þ..e að geta æft þúsund daga í röð. Það var vel af sér vikið hjá þér.

Ágúst Ásgeirsson, 19.12.2009 kl. 16:46

3 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Gústi. Já það er mikill fréttaflutningur af snjókomu víða um heiminn. Allt að verða vitlaust í Ameríku og járnbrautarsamgöngur á öðrum endanum í Evrópu. Þegar ég kom heim frá Frakklandi og kuldanum í Lille þá var 10 gráðu hiti á Íslandi. Nú er búið að vera hálf kalt en enginn snjór í Esjunni hvað þá á jörðu niðri hér sunnanlands. Mikið myrkur fyrir vikið en ég, eins og þú, hef fengið nóg af snjó um dagana. Hvernig ætli staðan sé á Spáni. Er að spá í að skreppa þangað um nýárið til að spila golf. Bestu kveðjur Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 20.12.2009 kl. 23:07

4 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Það hefur verið mikill snjór síðustu daga á Spáni, en þó aðallega uppi á landinu og þá t.d. í Madríd. Golfvellirnir við sjávarsíðuna hafa alveg sloppið.

Hér eru bílar ekki búnir til vetraraksturs, í mesta lagi að menn setji snjódekk sem eiga heima upp til fjalla, í Ölpunum og Pýrenneafjöllunum. Þannig að menn komast illa leiðar sinnar. Langflestir reyna einfaldlega ekki að keyra neitt. Skólarúturnar eru náttúrulega allar á sumardekkjum og því fengu krakkarnir í mínum bæ aukadag við jólafríið er skóli var felldur niður sl. föstudag.

Ég sagði körlunum í hjólaklúbbnum einmitt frá því fyrra sunnudag, að það væri 10 stigum heitara á Íslandi en í Combourg. Þeir trúðu því varla - halda alltaf að ég sé að djóka þegar þeir skjálfa á beinunum við frostmark!

Sá er munurinn hér og heima, að hér er orðið skjannabjart um níuleytið og er svo til klukkan 18-19 á þessum árstíma. Og á morgun byrjar birtutíminn að lengjast, um hænufet dag hvern.

Ágúst Ásgeirsson, 21.12.2009 kl. 06:24

5 identicon

Sæll Ágúst. Ég hef verið að fylgjast með skrifum þínum, gegnum síðu Kollu og tekið eftir að við eigum sameiginlegt áhugamál þ.e. hjólreiðar. Ég hjóla mikið hér heima og vann 5 sumur við  að aðstoða erlent hjólreiðafólk á Fjóni í Danmörku. Í fyrra hjólaði ég líka meðfram Donau en hef lengi haft áhuga fyrir að hjóla í Frakklandi. Donau ferðina fór ég í á vegum http://www.merlottours.dk/

en þeir eru líka með pakkaferðir í Frakklandi. gaman væri að fá fróðleik um hjólreiðar frá þér Ágúst. Svo óska ég þér gleðilegra jóla og góðar kveðjur frá Fróni. Atli

Atli Ágústsson (IP-tala skráð) 23.12.2009 kl. 23:12

6 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Ágúst ég óska þér og þínu fólki gleðilegrar jólahátíðar. Gaman væri að fá smápistil um jólahaldið hjá Frökkum og hvernig þeir haga sínu hátíðarhöldum. Bestu þakkir fyrir skemmtileg og fróðleg samskipti á árinu. Kveðja Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 23.12.2009 kl. 23:52

7 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Takk fyrir kveðjurnar, Kolla og Atli. Vonandi hafa hátíðarnar verið ykkur ánægjulegar og ég óska ykkur gleðilegrar restar.

Tek hið fyrsta áskorun um smápistil um franskt jólahald.

Ágúst Ásgeirsson, 28.12.2009 kl. 06:57

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband