Loeb meistari meistaranna

Frakkar eiga úr vöndu að ráða þegar þeir velja íþróttamann ársins. Margan eiga þeir góðan afreksmanninn, bæði einstaklinga og flokka. Í ár hefur rallökumaðurinn Sebastien Loeb orðið fyrir valinu, en hann hlaut sæmdarheitið meistari meistaranna einnig í hitteðfyrra.

Loeb bar að þessu sinni sigurorð af handboltalandsliðinu sem hefur ekki af litlu að státa, ólympíugulli frá í fyrra og heimsmeistaratitli í ár. Íþróttamaður ársins í fyrra varð sundmaðurinn Alain Bernard en Loeb hlaut titilinn árið 2007.

Hann er vel að honum kominn því í ár sló hann öll met rallaksturs - og jafnvel akstursíþróttanna - með því að vinna heimsmeistaratitil ökuþóra sjötta árið í röð á Citroenbíl sínum. 

Loeb, sem haft hefur Mónakómanninn Daniels Elena sem aðstoðarökumann, hlaut 842 stig í kjöri L'Equipe. Handboltalandsliðið hlaut 692 stig og í þriðja sæti varð ungi júdómeistarinn Teddy Riner með 433 stig.

Sigursæli siglingagarpurinn Michel Desjoyeaux varð fjórði með 220 stig en hann vann m.a. síðustu kappsiglingu umhverfis hnöttinn, svonefnda Vendee Globe keppni. Í

fimmta sæti knattspyrnumaðurinn Thierry Henry með 218 stig og kvennalandsliðið í handknattleik, nýbakaðir silfurhafar á HM, í því sjött með 190 stig. Skíðamaðurinn  Jean-Baptiste Grange hlaut 167 stig í sjöunda sæti og áttundi varð handboltamaðurinn Nikola Karabatic með 146 stig.


Fótboltamaðurinn spræki hjá Bordeaux, Yoann Gourcuff, varð níundi með 107 stig. Í tíunda sæti varð svo stangarstökkvarinn Renaud Lavillenie sem varð Evrópumeistari innanhúss á árinu og vippaði sér yfir sex metra sl. sumar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband