Nýtt met á hjólinu

Þeim áfanga náði ég sl. sunnudag, 22. nóvember, að komast upp fyrir þá vegalengd sem ég lagði að baki á hjólhesti mínum í fyrra. Í lok morguntúrsins með félögunum stóð mælirinn í 12.250 kílómetrum frá síðustu áramótum. Allt síðastliðið ár lagði ég að baki 12.183 kílómetra. Og þar sem rúmur mánuður er eftir af árinu stefnir allt í að kílómetrarnir verði eitthvað á þrettánda þúsundið í ár.

Ánægður er ég með þessa þróun og sosum ekkert verið að sperrast því ég hvíldi mig tiltölulega vel á hjólinu í september. Veðurfarslega séð var það þó einn besti mánuður ársins til hjóla. En þótt þreyta hafi engin verið á ferðinni er nauðsynlegt að hvíla skrokkinn stundum.   

Frá því ég gaf sjálfum mér reiðhjólið í afmælisgjöf sumarið 2007 hef ég lagt að baki um 28.500 kílómetra á því. Langmest í hjólatúrum hér í sýslunum Ille-et-Vilaine og Cotes-d'Armor á Bretaníuskaga og Manche í Normandí og Mayenne í Pays de la Loire. Ýmist hef ég hjólað með félögunum í hjólafélaginu hér í Combourg í skipulögðum klúbbtúrum miðvikudaga og sunnudag. Einnig hef ég reynt að hjóla einn til tvo aðra daga í viku hverri og þá yfirleitt verið einsamall.

Inni í þessu í ár eru svo nokkur hjólaröll. Hið lengsta í byrjun júní, 604 kílómetrar frá Rennes til Brest á vesturenda Frakklands og til baka. Það var mjög skemmtileg áskorun en þátttakendur voru 300. Ekki er beint um keppni að ræða, en ljúka verður þó dæminu innan vissra tímamarka. Það reyndist mér létt enda með góðan undirbúning að baki.

Þetta rall var góður undirbúningur fyrir rallið frá París til Brest og til baka til Parísar, sem næst fer fram 2011. Þar verða menn að leggja að baki rúmlega 1200 kílómetra á innan við 80-90 klukkustundum, að meðtöldum hvíldum. RBR-rallið fór að mestu fram á sömu leiðum og vestari helmingur París-Brest-París liggur um.

PBP-rallið fór síðast fram 2007 og voru þátttakendur á sjötta þúsund. Margir heltust úr lestinni á bakaleiðinni frá Brest enda rigning alla dagana fjóra sem það stóð yfir. Verra getur það líklega ekki verið! Þetta rall hefur farið farm fjórða hvert ár í um hundrað ár! Og síðast voru útlendir þátttakendur fleiri en franskir, úr öllum heimshornum.

Enginn fær þó að vera með nema hafa tekið þátt í viðurkenndum úrtökuröllum sem fara fram út um allar jarðir, t.d. á Norðurlöndunum en nefna má, að Danir eru mjög duglegir að mæta til þátttöku í Parísar-Brest-Parísar hjóladæminu. Venjan hefur verið að þessi röll fara fram sama ár en í fyrsta sinn hér í landi verður hægt að öðlast þátttökurétt ári fyrr með því að ljúka sérstökum úrtökuröllum, 200 km, 300 km, 400 km og 600 km, en einnig verða í boði 1000 km röll. Með röllunum í ár hef ég klárað það sem til þarf og horfi því bjartsýnn til rallanna á næsta ári og ætla mér að kvalifisera þá fyrir P-B-P rallið 2011. Það verður ágætt að geta undirbúið sig í ró og næði síðasta árið og tékkað sig af í nokkrum langröllum um vorið og sumarið, en rallið mikla fer fram seint í ágústmánuði. 

Svona álag á reiðhjól, 28 þúsund kílómetrar á rúmlega tveimur árum, bitnar á aflrásinni. Góð keðja endist ekki nema um 10.000 km og tannhjól eitthvað álíka. Og dekkin slitna og þarfnast líka endurnýjunar. Er nú komið að því að endurnýja tannhjólakassettuna á afturfelgunni eina ferðina enn og minna pedalatannhjólið. Um það sér hjólafélagi og sérlegur tæknimaður klúbbsins, gamall fagmaður sem rekur hjólabúð og viðgerðarverkstæði í nágrannabæ.    

(Um muninn á frístundahjólurum og atvinnumönnum má nefna að þeir síðarnefndu skipta um keðju á 2.000 til 3000 km fresti og eru þó með miklu vandaðri og dýrari íhluti en aðrir! Og hjól þeirra kosta á annan tug þúsunda evra, til samanburðar kostaði mitt 640 evrur og telst sæmilegt byrjandahjól. Milli atvinnumanna og frístundahjólamanna eins og mín eru tvö stig keppnismanna, áhugamanna annars vegar sem æfa og keppa af hörku og hins vegar svonefndir ástríðuhjólamenn sem eru eiginlegar frístundahjólamenn sem taka reglulega þátt í keppnum ýmiss konar)

Eins og nærri má geta, eru hjólreiðar á öllum stigum mjög vinsælar í Frakklandi. Byggja þær á langri hefð. Segja má, að ég hafi sogast inn í heim hjólreiðanna eftir að ég flutti hingað út. Útiveran sem þessu fylgir er góð, maður kynnist nánasta umhverfi vel, er oftast í skemmtilegum félagsskap. Og heilsubótin sem þessu fylgir er fín.   

    


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

til hamingju með árángurinn

Glæsilegt

Magnus (IP-tala skráð) 28.11.2009 kl. 11:04

2 Smámynd: Þorsteinn Briem

Til hamingju með það!

Þorsteinn Briem, 28.11.2009 kl. 14:32

3 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þakka ykkur báðum, Magnús og Steini gamli kollega.

Ágúst Ásgeirsson, 30.11.2009 kl. 17:01

4 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Gústi. Það kemur ekki á óvart að þú sért metnaðarfullur í því sporti sem þú ástundar. Þú átt nú líklega nokkrar medalíur úr hlaupakeppnunum. Hjól á 120.000,- kr. það er nú þokkalegt hjól gæti ég trúað. Ég óska þér til hamingju með góðan árangur og endingargott hjól.

Ég er að fara í ferðina til Frakklands á miðvikudaginn. Verð í Lille obbann af tímanum og ætla að taka tvo aukadaga til að slappa af og njóta þess að vera þarna úti.

Vona bara að veðrið verði þokkalegt. Bestu kveðjur Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 7.12.2009 kl. 22:04

5 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Þakka þér Kolla og góða ferð til Frakklands. Og vonandi verður þú ekki fyrir vonbrigðum. Hér var í morgun kaldasti dagurinn frá í janúar, aðeins 4°C klukkan 9, en komst upp í 10° yfir daginn. Og þegar loftraki fylgir við þessar aðstæður getur verið nístingskalt svo þú skalt hafa hlý föt meðferðis!

Ágúst Ásgeirsson, 8.12.2009 kl. 16:00

6 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Takk fyrir það. Hendi niður svörtu Noregspeysunni hún klikkar ekki. kveðja Kolla

Kolbrún Stefánsdóttir, 8.12.2009 kl. 19:36

7 identicon

Gaman að fylgjast með hjólaæfingum hjá þér. Þú manst að ef þú ert á ferðinni á Íslandi þá ertu velkominn með okkur þríþrautamönnum. Annars eru menn að hjóla inni núna og svo á fjallahjólum um helgar. Þetta er munurinn á Frakklandi og Íslandi! Þau hljóma spennandi þessi löngu hjólaröll og verða kannski sett á markmiðslistann í framtíðinni.

Steinn (IP-tala skráð) 14.12.2009 kl. 23:05

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband