Jólunum skverað af

Frakkar eru ekki lengi að skvera jólunum af. Mun fljótari en Íslendingar. Hér er unninn fullur vinnudagur á aðfangadag, verslanir opnar nánast eins og venjulega. Og annar í jólum er ekki til, í ár var það bara venjulegur laugardagur og athafnalíf þá með venjulegum hætti.

Mig grunar að fáir verji jafn mörgum dögum til jólahalds og Íslendingar, en bið um að vera leiðréttur ef einhver veit betur.

Hjá flestum Frökkum hefst jólahaldið á aðfangadagskvöld en jólamáltíðin er þó yfirleitt snædd síðar um kvöldið en Íslendingar eiga að venjast. Meðal annars þurfa mæður og feður að komast heim úr vinnu sem lýkur sjaldnast fyrr en undir kvöld. 

Hjá mörgum hefjast jólin ekki fyrr en 25. desember og er jóladagurinn einasti frídagurinn um jólin. Reyndar voru bakarí og blómabúðir opnar að morgni hans hér í mínum heimabæ. Bæði svo menn gætu fært gestgjöfum sínum blóm og þeir sótt gómsætan eftirrétt eða kaffimeðlæti til bakaranna.

Mér hefur fundist auglýsingar og annað umstang vegna jóla vera minna í sniðum en ég átti að venjast á höfuðborgarsvæðinu íslenska. Allt er þetta eitthvað hófstilltara þótt mikið sé lagt upp úr því að njóta hátíðar ljóssins með góðum gjöfum og örlæti í mat. Fjölskyldur leggja áherslu á að vera saman og því er umferð mikil á þjóðvegum kringum jólin.

Tugþúsundir manna streyma til fjalla um jólaleytið og taka sér lengra frí en yfir helgi. Á frönskum skíðasvæðum hefur verið fullt um þessi jól og hin síðustu enda nægur snjór. Svo hefur ekki alltaf verið og minnist ég mikils harmagráturs forsvarsmanna þjónustufyrirtækja til fjalla fyrir tveimur til þremur árum.

Þeir eru öfundsverðir sem í snjóinn sækja. Íslenskir kunnáttumenn segja mér t.d. að frönsku skíðasvæðin taki þeim austurrísku fram að öllum búnaði. Sjálfur naut ég rúmlega hálfrar mánaðar dvalar í frönsku Ölpunum meðan vetrarólympíuleikarnir fóru þar fram 1992. Það rennur mér aldrei úr minni.

Aftur að sjálfu jólahaldinu. Vart er hægt að tala um einhvern jólarétt, slík er fjölbreytnin og úrvalið mikið. Kalkúnn er þó sennilega algengasti rétturinn á aðfangadagskvöldi eða í hádeginu jóladag. Annars er jólamáltíðin yfirleitt margrétta, ekki bara þrírétta, heldur mun fleiri. Einn réttur tekur við af öðrum og því jafnvel setið  klukkustundum saman til borðs.

Ekki get ég dæmt mikið um kirkjusókn en skilst hún sé almennt dræm. Það hefur jú komið í ljós í mælingum, að rúmur helmingur Frakka er tiltölulega trúlaus. Þess má geta, að hér hefur ríkt aðskilnaður kirkju og ríkis í röska öld.

Sá skemmtilegi siður er hér í landi, að menn hafa út janúar til að senda kveðjur í tilefni jóla- og áramóta. Jafnvel meiri áhersla er lögð á árnaðaróskir vegna nýs árs. Þeir sem "gleyma" að skrifa fyrir jólin hafa út janúarmánuð til að senda þeim kveðju sem til stóð eða svara fenginni kveðju. Á engann hallar sem sendir nýjarskort fyrir janúarlok.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hættum með annan í öllu...eða þannig,leggja mætti af annan í jólum og annan í páskum............þetta kemur engum til góða nema ef til vill ríkisstarfsmönnum sem fá álag í vinnunni á þessum dögum.

Margrét (IP-tala skráð) 28.12.2009 kl. 14:59

2 identicon

Sæll Ágúst. Gaman og fróðlegt að lesa um jólahald í Frakklandi, en svo hef ég líka áhuga á hjólreiðum í Frakkland, getur þú aðstoðað? Nei, við þekkjumst ekki og ekki skyldir að ég held eins og Magnús ýjar að í athugasemdum hjá Kollu.

Bestu kveðjur úr snjónum á Íslandi

Atli Ágústsson (IP-tala skráð) 29.12.2009 kl. 10:57

3 Smámynd: Ágúst Ásgeirsson

Skal reyna verða við ósk þinni, Atli, sem fyrst. Ertu að meina þá einhvers konar ferðamennsku á reiðhjóli? Þátttöku í skipulegum ferðum eða aðrar ráðleggingar um ferðir einn síns liðs? Það væri gott að fá nánari útskýringu því um hjólreiðar í Frakklandi sem frístundariðju, ferðamennsku og/eða keppnisíþrótt mætti skrifa margar bækur!

Ágúst Ásgeirsson, 29.12.2009 kl. 20:07

4 Smámynd: Kolbrún Stefánsdóttir

Sæll Ágúst og takk fyrir afar fróðlegan og skemmtilegan pistil. Þetta líkar mér að heyra með styttri jól og minna tilstand og formlegheit. Sammála því að leggja bara af annan í öllu . Ein spurning út af aðskilnaði ríkis og kirkju. Heldurðu að siðferði Frakka hafi beðið hnekki við það fyrst svona margir eru trúlausir? Það er oft nefnt sem rök gegn aðskilnaði hér hjá okkur að kirkjan sjái um að siðmennta þjóðina, þó ég sé ekki sammála því. Bestu kveðjur Kolla.

Kolbrún Stefánsdóttir, 2.1.2010 kl. 22:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband