Dæmdur fyrir móðgandi tölvupóst um dómsmálaráðherra

Damien Chiboub, 25 ára tölvutæknir í ráðhúsi sjöunda hverfis í París, þar sem Rachida Dati dómsmálaráðherra er borgarstjóri, hefur verið vikið úr starfi og sektaður. Ástæðan er meiðandi tölvupóstur um borgarstjórann.

„Gagnslaus, getulaus, ómöguleg, alþýðan mun ná þér,“  hljómaði tölvupóstur um Dati, yfirmann Chiboub, sem hann sendi samstarfsmanni í ráðhúsinu. Þeim hinum sama þótti sendingin ekki fyndin og lét vita af henni. Þræðirnir voru raktir til tölfræðingsins unga sem viðurkenndi uppátækið.

Málið komst til kasta lögreglu og saksóknarinn Francoise Champonneaux fór fram á að Chiboub yrði dæmdur mánaðarlangt í fangelsi, skilorðsbundið.  Hún hafnaði með öllu þeim röksemdum verjenda Chiboub um að hann hafi verið að prófa þolmörk tjáningarfrelsisins.

„Þetta var algjörlega tilhæfulaus móðgun. Sé hann óánægður með stjórnmálamenn ætti hann að ganga til liðs við þrýstihóp eða stjórnmálaflokk,“ sagði Champonneaux.    

Lögmaður Chiboub krafðist þess að málið yrði látið niður falla vegna hagsmunaárekstra þar sem Dati væri í krafti embættis dómsmálaráðherra vinnuveitandi saksóknarans. Það var ekki tekið til greina því auk þess að vera rekinn úr starfi í ráðhúsinu var Chihoub dæmdur til að borga 1.000 evrur í sekt en skilorðsbundið. Dómarinn sagði hann sekan af því að hafa „móðgað opinberan embættismann“ með tölvupóstinum.

 

 

 


Bæjarstjórinn segist vera netfangi

Frakkar geta verið skemmtilega uppátækjasamir og óbundnir af tepruskap. Bæjarstjórinn í Saint-Prix í héraðinu Val-d'Oise í Frakklandi, Jean-Pierre Enjalbert, er í flokki slíkra. Hann gekk í dag inn á lögreglustöð í bænum d'Ermont norður af París og sagðist gefa sig fram sem fangi í nafni allra þeirra sem hefðu stundað niðurhal á internetinu.

Með þessu var hann að mótmæla „fáránleika“ lagafrumvarps um ráðstafanir gegn ólöglegu niðurhali en það kom til kasta franska þingsins í dag. Enjalbert krafðist þess að vera handtekinn sem fulltrúi niðurhala sem hann sagði að væru ekki bandittar.  

Eftir að hafa fengið áheyrn hjá lögreglustjóranum yfirgaf bæjarstjórinn í Saint-Prix, 7.200 manna bæ norður af París, lögreglustöðina sem frjáls maður.

Frumvarpið um ráðstafanir gegn og bann við niðurhali var fellt í fulltrúadeildinni 9. apríl sl., en örlítið breytt var það aftur á dagskrá deildarinnar í dag. Enjalbert bæjarstjóri segist vera andvígur lögunum og þeirri bælingu sem í þeim fælist. Netið sé gríðarleg gagnaveita sem viturlegra væri að koma einhverri röð og reglu á fremur en að stofna til óskilvirkrar netlöggu. Raunverulegir netræningjar myndu fljótt finna leiðir og smugur framhjá örmum hennar.

 


Netlöggufrumvarp Sarkozy aftur fyrir franska þingið

Verði frumvarp fyrir franska þinginu að lögum, sem allt útlit er fyrir, eiga þeir sem hlaða niður tónlist á netinu með ólögmætum hætti yfir höfði sér að vera sviptir aðgangi að netinu í eitt ár. Frumvarpið var tekið til umræðu í þinginu í dag, en það var óvænt fellt fyrr í mánuðinum, vegna fjarvista stjórnarþingmanna.

Nái málið fram að ganga, sem er talið formsatriði, hafa Frakkar sett algjört og strangt fordæmi í tilraunum til að vinna bug á „sjóræningjastarfsemi“ á netinu. Sá sem hleður ólöglega niður eða skiptist á skrám með ólögmætum hætti færi við fyrsta brot aðvörun í tölvupósti. Við næsta brot fær hann sent aðvörunarbréf heim til sín og láti hann ekki enn segjast og verði staðinn að verki þriðja sinni verður nettenging hans rofin úr sambandi í heilt ár.

Hagsmunaðilar í bæði tónlistar- og kvikmyndaiðnaði hafa fagnað frumvarpinu og hvatt til samþykki þess, en þau hafa sagt ólögmætt niðurhal bitna á afkomu greinanna.

Ýms neytendasamtök hafa hins vegar sett fyrirvara eða lagst gegn lagasetningunni og sagt eftirlit sem hún kveður á um jafngilda ríkisreknum persónunjósnum. Stjórnarandstaðan með sósíalista í fararbroddi leggst gegn frumvarpinu og segir það „hættulegt, gagnslaust, óskilvirkt og mjög vafasamt gagnvart borgurunum.“   

Fyrri gerð frumvarpsins var samþykkt í öldungadeildinni en síðar felld í fulltrúadeildinni. Tveir stjórnarþingmenn gengu til liðs við stjórnarandstöðuna og greiddu atkvæði gegn því í mótmælaskyni við að breytingartillaga þeirra náði ekki fram að ganga. Hún gekk út á að gera hinum brotlegu skylt að borga áfram netáskrift á banntímanum. Vegna fjarvista stjórnarþingamanna reið það baggamun við atkvæðagreiðslu.

Ljóst er, að flokkur Nicolas Sarkozy forseta mun binda þannig um hnúta nú, að nógu margir þingmenn verði viðstaddir þegar frumvarpið verður tekið til atkvæða.

 


Bouton hættir sem yfirmaður Societe Generale

Daniel Bouton tilkynnti í morgun afsögn sína sem stjórnarformaður franska bankans Societe Generale. Hann segist vilja hlífa bankanum við skaða sem „ítrekaðar árásir“ á hann gætu valdið.

„Eins og sérhver stjórnandi hefur mér örugglega orðið á í messunni, en stefna bankans hefur gert hann að einum hinum fínasta á evrusvæðinu. Endurteknar árásir á mig í Frakklandi undanfarna 15 mánuði snerta mig, og hætt er við að þær skaði bankann og 163.000 starfsmenn hans. Það má ekki gerast,“ sagði Bouton, sem kveður bankastjórnina 6. maí nk.

Bouton var auk stjórnarformennsku aðalbankastjóri SocGen frá 1997.  Hann var aðalbankastjóri í janúar í fyrra er upp komst um eitt stærsta verðbréfahneyksli sem bankinn tapaði tæpum fimm milljörðum evra á. Vék hann fjórum mánuðum síðar úr bankastjórastarfinu í maí sl. og fól samverkamanni daglega stjórnun hans, en gengdi áfram stjórnarformennsku, enda hafði stjórnin ítrekað hafnað boði hans um afsögn, þrátt fyrir kröfur Nicolas Sarkozy forseta um að æðstu stjórnendur bankans sættu ábyrgð vegna tapsins.

Miklar deilur spruttu upp eftir verðbréfahneykslið og bankarnir voru harðlega gagnrýndir fyrir að fela ungum og áhættusæknum mönnum að stunda spákaupmennsku fyrir þeirra hönd. Tapið hjá Societe Generale var skrifað á umsvif eins slíks, Jerome Kerviel, og því haldið fram að hann hafi farið langt út fyrir heimildir sínar í starfi.

Kerviel hélt því fram að hann hefði ekki verið einn um viðskiptin og þau hafi farið fram með vitund og vilja yfirboðara. Málið hefur ekki verið til lykta leidd og öll kurl ekki komið til grafar.

Veitingar lækka á frönskum restauröntum

Íslendingar á leið til Frakklands í sumar - með rándýrar evrur í vasanum - geta glaðst yfir því að matur og óáfengir drykkir á frönskum veitingahúsum mun lækka um 11,8% í verði 1. júlí nk. Ríkisstjórn Nicolas Sarkozy forseta hefur ákveðið að lækka frá þeim degi söluskatt á veitingum úr 19,6% í 5,5%.

Veitingamenn hafa fagnað skattalækkunina og segja hana eiga eftir að auka neyslu ásamt því að efla atvinnustigið. Hafa samtök veitingamanna skuldbundið sig með samkomulagi við ríkisstjórn Sarkozy að fjölga stöðugildum í veitingahúsum um 40.000 fram til ársins 2011. Miðað er við að helmingur þeirra verði iðnnemar.

Með skattalækkuninni verður ríkissjóður af sem nemur tveimur milljörðum evra, en á móti kemur að 40.000 manns fá atvinnu. Veitingahúsum er sett í sjálfsvald hvort þau lækki listaverð hjá sér. Allt eins er reiknað með að hluti þeirra telji sig ekki hafa svigrúm til þess vegna slakrar afkomu. Talsmaður samtaka veitingamanna segist þó gera ráð fyrir því að bróðurparturinn muni lækka verð á veitingum sínum.

Eftir innreið kreppunnar hefur stjórn Sarkozy lækkað skatta og álögur á heimili og almenning, ekki síst þá verst settu og lægst hafa launin. Jafnframt hefur komið til móts við fyrirtæki með lánum, ríkisábyrgðum og afnámi gjalda - allt til þess að halda uppi atvinnustiginu.  Forsetinn hefur sagt að með því að rýra ekki ráðstöfunartekjur heimilanna og jafnvel auka þær muni fólk áfram kaupa framleiðsluvörur fyrirtækja og þannig halda atvinnulífinu gangandi.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband