400.000 stundir til að leika sér á lífsleiðinni

Allt er reiknað út. Nú liggur það til dæmis fyrir af hálfu frönsku hagstofunnar, að meðal Frakkinn hefur 400.000 klukkustundir til frjálsra afnota á lífsleiðinni. Ekki veit ég hvað meðaltals Íslendingurinn hefur mikinn tíma til aflögu eftir svefn og dagleg störf.

Ef til vill hafa Frakkar rýmri tíma því mjög hátt hlutfall þeirra er komið á eftirlaun á miðjum aldri, rétt upp úr fimmtugu. Þeir geta annað hvort látið sér leiðast eða gert eitthvað sér til dundurs. Til dæmis er mjög algengt á mínum slóðum, að menn hjóli hálfa og heilu dagana. Eru þar af leiðandi stálhraustir, enda á besta aldri. Hjóla ég yfirleitt tvisvar í viku með hópi svona kalla og er ég langt í frá yngstur meðal lífeyrisþeganna þótt ég eigi enn eftir 13 ár í að fara á eftirlaun!

 


Frakkar segir í tennis

Þrír Frakkar eru meðal 10 fremstu tennisleikara heimsins samkvæmt nýjum styrkleikalista atvinnumannasambandsins í tennis (ATP).  Gilles Simon er í sjöunda sæti, Gaël Monfils í níunda, og Jo-Wilfried Tsonga í því tíunda. Að sögn blaðsins Ouest-France í dag, er þetta í fyrsta sinn frá stofnun ATP árið 1973 að þrír Frakkar skipi sér meðal 10 bestu tennisleikara heimsins.

Aukinheldur eiga Frakkar fleiri spilara en nokkur önnur þjóð meðal 50 efstu manna á styrkleikalista ATP eða níu talsins. Endurspeglar þetta að einhverju miklar vinsældir tennisíþróttarinnar hér í landi.

Í efsta sæti á styrkleikalista ATP er Spánverjinn Nadal, annar er Svisslendingurinn Federe og þriðji Serbinn Djokovic.  

  


Franskar konur grennstar - en finnst þær vera feitar

Franskar konur eru þær grennstu í Evrópu en hvað sem allri tölfræði líður finnst þeim sjálfum þær vera feitar! Hvergi í álfunni er hlutfall kvenna undir kjörþyngd hærra en í Frakklandi.

 

Og slík er áþjánin af menningarhefðum og fegurðarhugmyndum í Frakklandi, að einungis helmingur „undirmálskvenna“ gengst við því að vera of grannur. Í ljós kom við rannsóknir, að í öðrum Evrópuríkjum á hið gagnstæða við; konur í Bretlandi, Spáni og Portúgal sem telja sig alvarlega mjóar eru miklu fleiri en hinar raunverulegu mjónur.

 

„Þetta sýnir að það sem talið er kjörþyngd í Frakklandi er minni þungi en í öðrum löndum,“ segir yfirmaður rannsóknarinnar, Thibaut de Saint Pol, við frönsku lýðfræðirannsóknarstofnunina.

 

Í öllum löndum Vestur-Evrópu nema Frakklandi og Hollandi fellur raunverulegur meðalþungi karla í flokk offitufólks, miðað við kjörþyngdarstaðla Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar (WHO).

 

Til samanburðar á hið sama við um konur í aðeins þremur löndum, Bretlandi, Grikklandi og Portúgal. Í Hollandi eru yfirkjörþyngdarkonur fleiri en karlar.

 

Frakkland er eina ríkið þar sem bæði kyn teljast á eðlilegu þyngdarbili að meðaltali. Það er og eina landið þar sem meira en 5% kvenna telst formlega vera undirvigtar.

Ólíkt skynja karlar og konur þyngdarskort sinn eða offitu, að því er kom fram í rannsókninni sem náði til Vestur-Evrópuríkja. „Undirþyngdarkarlar forsmá líkama sinn en feitir sjá engin vandamál við offituna.

Konur sem vantar kjöt á beinin telja það með engu gjaldfalla líkamann. En um leið og þær detta yfir í offituflokk finnst þeim það óásættanlegt,“ segir Thibaut de Saint Pol.   

En hann bætir svo við: „Færi franskur einstaklingur sem finnst hann vera feitur til Bandaríkjanna myndi sú tilfinning hverfa, líklega fyrir fullt og allt.“

 

Norður-Ameríkuflensa en ekki svínaflensa, segir OIE

Sníkillinn sem nú breiðist út í Mexíkó og Bandaríkjunum og valdið hefur dauðsföllum er ekki svínaflensa. Því heldur Alþjóða dýraheilbrigðisstofnunin (OIE) í París fram.
„Vírusinn hefur ekki verið einangraður í dýrum. Þess vegna er ekki réttlætanlegt að kalla þessa veiki svínaflensku,“ segir í yfirlýsingu sem OIE sendi frá sér í dag.
Stofnunin segir vírusinn hafa efnisþætti „svína-, fugla- og fólksflensu“ og hvetur til þess að veikin verði kennd við upprunasvæði sitt og kölluð „Norður-Ameríkuflensan“.
  
Jafnframt segir hún „bráðnauðsynlegt“ að hafnar verði vísindarannsóknir til að meta viðkvæmni dýra við þessum „nýja vírus“, vegna þeirrar hættu sem það gæti haft í för með sér reyndust dýr næm fyrir honum.

80% gesta Louvre koma gagngert til að sjá Mónu Lísu

Fjórir af hverjum fimm gestum Louvre-safnsins í París koma þangað fyrst og fremst til að virða fyrir sér málverkið fræga af Mónu Lísu eftir Leonardo da Vinci.

Þetta segir safnstjórinn Henri Loyrette í dag í viðtali við blaðið Le Parisien.  „Það er rétt, 80% gestanna koma til að sjá Mónu Lísu,“ segir hann. Og bætir við að ekkert safn heimsins sé með helgimynd sem hafi jafn mikið aðdráttarafl.

Loyrette sagði heimskrísuna segja til sín í aðsókn að safninu. Gestir frá Bandaríkjunum væru til að mynda milli 10 og 20% færri. Í fyrra komu 8,5 milljónir gesta í safnið en Loyrette segir stefna í að þeir verði færri í ár.

Í ár eru 20 ár frá því glerpýramídinn var reistur í forgarði safnsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband