Milljarðamæringum fjölgar í Sviss

Það er ekki bara á Íslandi sem menn auðgast - þó lækkun á hlutabréfamarkaði hafi að vísu rýrt þann auð allverulega. Milljarðamæringum fjölgaði í Sviss á nýliðnu ári og voru 129 miðað við 118 árið 2006.

Miðað er við menn hvers auður nemur milljarði svissneskra franka eða meira. Heildar auður þeirra nemur 317 milljörðum evra, eða sem svarar 29.500 milljörðum króna.

Og séu taldir með þeir sem eiga 100 milljónir eða meira þá mun auður 300 ríkustu „íbúanna“ í  Sviss nema tvöfalt fyrri upphæðinni, eða 635 milljörðum evra. Hækkaði sú upphæð um 37% milli ára.

Meðal þeirra sem fluttu heimilisfesti til Sviss árið 2007 var söngkonan Nana Mouskouri en auður hennar mun vera 200 milljónir evra. Á listanum yfir 300 ríkustu eru 29 Frakkar, þar af eru nokkrir núverandi og fyrrverandi atvinnumenn í tennis. En ríkastir Frakka með búsetu í Sviss er Peugeot-fjölskyldan. Auður hennar, í svissneskum frönkum talið en ekki evrum, er átta milljarðar franka, um 460 milljarðar króna.

 


Sarkozy hleypur á sig eins og aðrir

Það kemur fyrir, að góðir menn hlaupa á sig. Það finnst mér eiga við um Nicolas Sarkozy forseta þessa lands. Ætli það sé vegna ofvirkni hans í starfi? Það er ekki laust við að mér finnist hann stundum framkvæmda fyrst og hugsa síðar. Skal þó tekið fram að ég er mjög hrifinn af honum, en mig grunar að hann hafi slakað eitthvað á skokkinu því það eru margir mánuðir síðan hann hefur sést í hlaupaskónum.

Í fyrsta lagi segir hann að Frakkar þurfi að koma sjónarmiðum sínum, menningu sinni og arfleifð á framfæri við umheiminn. Í sömu andrá segist hann munu stöðva starfsemi sjónvarpsstöðvarinnar France 24  sem sett var á fót fyrir ári og sendir út á ensku og arabísku auk frönsku og er við það að hefja útsendingar á spænsku.

Stöðin hefur verið kostuð af frönsku almannafé og Sarkozy segir ótækt að franska ríkið kosti stöð sem sendir út á ensku og arabísku. Þetta finnst mér hrein og klár skammsýni því það er borin von  að hann geti komið málstað Frakka á framfæri við umheiminn með því að tala aðeins frönsku. Mér er til efs að meira en 2% jarðarbúa hafi hana á takteinum.

Í öðru lagi var það eitt af helstu stefnumálum Sarkozy fyrir forsetakosningarnar að auka kaupmátt almennings. Það hefur ekki tekist til þessa, hvað sem síðar á eftir að gerast. Flest hefur hækkað og því hefur kaupmáttur lækkað frá því Sarkozy komst til valda, flóknara er það ekki.

Forsetinn ber því við að sjóðir ríkisins séu tómir og hann geti því ekkert gert sem stendur. Samt lofaði hann sjómönnum miklum styrkjum vegna olíuhækkunar, eftir nokkurra daga aðgerðir og mótmæli þeirra. Fór niður á kajann á Bretaníuskaga, reifst fyrst hraustlega við karlana en stakk síðan upp í þá dúsu. Nokkrum dögum seinna barst út að 2% skattur skyldi lagður á allt fiskmeti við búðarborðið til að fjármagna olíustyrkina. Í búðum hér hafði fiskur hækkað talsvert vikur og mánuði á undan svo vart var á þetta bætandi. Og einfaldlega hrein og klár kaupmáttarskerðing!

Það getur verið að olíustyrkurinn og fiskiskatturinn eigi eftir að verða til góðs. Hvort tveggja varðar við regluverk Evrópusambandsins (ESB) og ég sá í blaðinu mínu, Ouest-France í dag, að Joe Borg, sem fer með fiskveiðimál í framkvæmdastjórninni í Brussel, sé líklegur að samþykkja ráðstafanirnar, með skammböggli þó.

Það skilyrði er Borg sagður munu setja fyrir samþykki sínu,  að endurnýjun franska fiskveiðiflotans, að skipulagi og samsetningu, verði hafin. Því aðeins sé hægt að samþykkja ráðstafanirnar að þær séu liður í víðtækum áætlunum um endurskipulagninu fiskveiða Frakka.

Í þriðja lagi - smámál þó - voru það mistök hjá Sarkozy að halda því leyndu að hann var í október fluttur á sjúkrahús og gekkst þar undir lítilsháttar aðgerð vegna sýkingar í hálsi. Þetta gerðist þremur dögum eftir skilnað þeirra Ceciliu og komst ekki málið upp fyrr en í byrjun vikunnar vegna útkomu þriggja bóka um forsetafrúna fyrrverandi.

Það voru mistök af Sarkozy að vera ekki búinn að láta þetta út spyrjast, eftir allt tal hans um gagnsæi í stjórnsýslunni og embættisgjörðum og að hann myndi upplýsa um heilsufar sitt með reglulegum hætti. Algjört smámál í sjálfu sér og því klúður að leyna því. Ætli þetta falli ekki undir það að hann er mannlegur eins og við hin og vill halda einhverju af sínu fyrir sig.  


„arabadurtur“ - óheppilegra gat lykilorðið vart verið

Engan þarf að undra þótt verkstæðisformaðurinn Mohamed Zaidi hafi orðið hlessa og móðgast er hann áttaði sig á lykilorðinu sem Orange-símafyrirtækið úthlutaði honum er hann tengdi verkstæði sitt í Pessac í Gironde internetinu.

Zaidi er 39 ára og af innflytjendum frá Norður-Afríku kominn og vissi ekki hvaðan á sig stóð veðrið er hann fékk lykilorðið „salearabe“, sem útleggja mætti á besta veg sem „arabadurtur“. Á götumáli hér í landi er merkingin jafnvel enn verri.   

Svo sem skilja má kvartaði hann við netþjónustuna og forstöðukona hennar viðurkenndi við blaðið Ouest-France að málið væri hið hneykslanlegasta og með öllu óásættanlegt. „Þetta gekk fram af okkur öllum hér, háum sem lágum í fyrirtækinu,“ sagði hún við blaðið.

Samstundis var hafin innanhússrannsókn hjá Orange til að komast til botns í því hvers vegna Zaidi fékk úthlutað þessu lykilorði. Í þeirri athugun verður m.a. reynt að leiða í ljós hvort um vísvitandi inngrip af hálfu starfsmanna hafi verið að ræða.

Að öðru leyti get ég vitnað um að þjónusta Orange er með afbrigðum, er kaupandi að henni eftir að hafa verið hjá vonlausu netfyrirtæki áður, free.fr.


Þrír Frakkar af fjórum telja stjórnarandstöðuna máttlausa

Hún á ekki sjö dagana sæla, franska stjórnarandstaðan. Kvartar sýknt og heilagt yfir því hversu oft og mikið Sarkozy forseti sé í fjölmiðlum - og hefur m.a. klagað það til fjarskiptastofnunar (CSA). Vilja sósíalistar fá aukinn kvóta fyrir sjálfan sig í sjónvarpi í mótvægisskyni. Ætli það dugi til að rétta hlut hennar en 72% Frakka segja stjórnarandstöðuna neikvæða og máttlitla.

Þeir hafa krafist þess að sá tími sem Sarkozy er í ljósvakamiðlum skrifist á ríkisstjórnina. Því hafnaði CSA og skutu sósíalistar þeirri niðurstöðu rétt fyrir jól til ríkisráðsins, sem er nokkurs konar stjórnlagadómstól. Ástæðan er sú að reynt er að hafa í heiðri hér í landi þrískipta viðmiðunarreglu um fjölmiðlaveru fulltrúa stjórnmálanna.

Samkvæmt henni fær ríkisstjórnin sinn skerf, þingmeirihlutinn sinn og stjórnarandstaðan sinn. Ætlast er til að fjölmiðlar semji sig sem næst að þessu og þeim hlutföllum sem miðað er við. Forsetinn er undanskilinn reglunni og það gremst sósíalistum því í stað þess að loka sig af í höllu sinni svipað forverunum hefur Sarkozy látið innanlands- og utanríkismál til sín taka og virðist alls staðar nærri. Og af þeim sökum mjög í fjölmiðlunum.

Samkvæmt skoðanakönnun sem TNS-Sofres rannsóknarstofnunin gerði fyrir vikuritið Le Nouvel Observateur sögðust þrír Frakkar af hverjum fjórum ímynd stjórnarandstöðunnar neikvæða. Meir að segja 66% kjósendur vinstriflokka töldu hana veika. Sögðu 56% kjósenda Sósíalistaflokksins stjórnarandstöðuna málefnasnauða og 36% þeirra sögðu hana höfuðlausa.

Framundan eru sveitarstjórnarkosningar í mars og þær hyggst stjórnarandstaðan nota til að reyna blása til sóknar gegn stjórn hægrimanna. Sagði Francois Holland, leiðtogi Sósíalistaflokksins í gær, að þær kosningar myndu snúast um kaupmátt almennings. Eitt helsta kosningamál Sarkozy forseta í fyrravor var að auka kaupmátt fólks. Lítt hefur þótt fara fyrir aðgerðum í þeim málum á sama tíma og eldsneyti og nauðsynjar hafa hækkað í verði.

 


Fjórða kappsiglingin milli Frakklands og Íslands ákveðin 2009

Þá liggur fyrir að siglingakeppnin frá Frakklandi til Íslands og til baka, Skippers d’Islande, fer næst fram árið 2009. Í stað þess að sigla fram og aftur frá Íslendingabænum Paimpol á Bretaníuskaga eins og í fyrstu þremur keppnunum verður á  bakaleið frá Íslandi siglt til annars fornfrægs útgerðarbæjar, Gravelines í Normandí.

Markmið keppnisstjórnarinnar er að 40 skútur fáist til leiks, í keppnisflokkunum "class 40" og "IRC". Siglingaleið keppninnar er a.m.k. 2.950 sjómílur og er fyrsti leggurinn sá lengsti, frá Paimpol til Reykjavíkur, eða 1.210 mílur.

Keppnin hefst 27. júní 2009 í Paimpol og liggur leiðin út Ermarsund og sunnan Írlands og Scillyeyja til Íslands. Annar leggur hefst í Reykjavík 7. júlí og verður þá sigld 1.130 mílna leið framhjá Færeyjum og Hjaltlandi og niður Norðursjó til Gravelines.  Lokaleggurinn hefst svo 16. júlí og þá siglt til Paimpol. Þangað eru 250 mílur frá Gravelines, sem var mikil miðstöð útgerðar á Íslandsmið, svo sem lesa má um í bók Elínar Pálmadóttur um sjósókn Frakka á Íslandsmið á öldum áður.

Ég fylgdist með upphafi keppninnar í Paimpol í fyrra. Það var tilkomumikil sjón, ánægjuleg upplifun og eftirminnileg. Kom snemma dags til bæjarins og var fram yfir miðnætti. Stemmningin var einstök en frá Paimpol var stunduð mikil útgerð til Íslands á 19. öld og fram eftir þeirri tuttugustu. Manna á meðal er þar enn talað um Íslendingabæinn. Þar minnir gata, Íslendingagata (Rue des Islandais), upp frá höfninni að miðbænum á tengslin yfir hafið og eitt helsta veitingahús bæjarins, niður undir höfn, heitir Íslendingurinn (L'Islandais). Íslenski fáninn blakti víða við hún í bænum síðustu daga fyrir keppnina.

Nafn bæjarins er bretónskt að uppruna. Ef leggja ætti það út á íslensku verður næst merkingunni komist með því að kalla hann Vatnsenda.

Fjöldi skúta var í höfn vegna keppninnar, þar á meðal gamlar og glæsilegar gólettur, álíka þeim sem sóttu á sínum tíma á Íslandsmið. Sigldi öll hersingin út á ytri höfnina en þar voru keppendur ræstir af stað. Um borð í fylgdarskipum voru mörg hundruð manns til að hvetja keppendur af stað. Báturinn sem ég var í fylgdi skútunum eftir einar 10 mílur á haf út áður en snúið var til hafnar fyrir myrkur.

Sérstök heimasíða er helguð siglingakeppninni, www.skippersdislande.org. Þar verður fjörugra og meira um fréttir og upplýsingar er nær dregur. Tvær ágætar síður um þennan fagra upphafsstað keppninnar, Paimpol, er að finna á slóðunum http://www.paimpol.net/ og http://www.ville-paimpol.fr/ Keppnin 2009 verður sú fjórða í röðinni, hin fyrsta fór fram þúsaldarárið, 2000, síðan 2003 og 2006.  Á þeirri fyrrnefndu (http://www.paimpol.net/galeries/photos.php) má sjá myndir frá upphafi keppninnar 2006.

 

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband