8.10.2009 | 17:56
Afburða fulltrúi Íslands
Það verður sjónarsviptir að Tómasi Inga og missir fyrir íslenska utanríkisþjónustu er hann lætur af starfi. Hann hefur staðið sig afburða vel í Frakklandi. Er flugmæltur á frönsku og kemur einkar vel fyrir sig orði í ræðu og riti. Það er ekki ónýtt fyrir land og þjóð að eiga svo ágæta fulltrúa sem hann hjá erlendum ríkjum.
![]() |
Mannabreytingar í utanríkisþjónustunni |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.8.2009 | 16:55
Ferðalangar gætu þurft að borga fyrir björgun
Franskir ferðalangar sem rata í vegvillur, einkum á varasömum svæðum í veröldinni, gætu þurft að borga fyrir björgunaraðgerðir þurfi ríkisstjórn þeirra að koma þeim til bjargar.
Samkvæmt drögum að lagafrumvarpi á vegum franska utanríkisráðuneytisins yrðu ferðalangar að endurgreiða fargjöld og annan kostnað sem til félli við að bjarga þeim af átakasvæðum, úr klóm mannræningja eða úr öðru fjandsamlegu umhverfi.
Embættismenn segja tilgang laganna að gera ferðalanga ábyrgari og meðvitaðri um hættur af grasserandi sjóræningjastarfsemi víða um heim og mannránum.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
18.8.2009 | 16:44
Hitabylgja hrjáir Frakka
Það er býsna heitt á okkur Frönsurum þessa dagana. Hitabylgja þjarmar að og franska veðurstofan hefur ekki látið á sér standa í viðvörunum. Ástandið er einna skást á mínum slóðum og engin ástæða til að kvarta undan eins og 30°C hita. Ekkert lát verður á hitunum fyrr en á föstudag en þá munu þeir sem verst eru settir líklega fagna komu þrumuveðri og rigningu.
Vegna ástandsins 2003 eru Frakkar á varðbergi gagnvart hitabylgjum. Um 15.000 manns biðu bana þá af völdum óbærilegs hita. Aðallega var þar um að ræða eldra fólk og hjartveika.
Hættuástandi hefur verið lýst í nokkrum sýslum, s.s. Rhone, Ardeche, Grome og Vaucluse í suðausturhluta landsins. Sérstöku viðbúnaðarástandi hefur verið lýst í öðrum sýslum á þeim slóðum og í suðvesturhluta Frakklands.
Veðurstofan spáði allt að 38 stiga hita í forsælu í Rhonedalnum í dag. Í gær mældist hiti 34°C í Lyon, 35°C í Montelimar og Aubernas og 37°C í Avignon.
Fólki hefur verið ráðlagt að drekka sem mest af vatni þótt það þyrsti ekki. Að lágmarki hálfan annan lítra yfir daginn. Einnig hefur það verið hvatt til að halda sig inni við yfir hádaginn þegar hitinn er hvað mestur - og dvelja tvo til þrjá tíma í svölum salarkynnum.
Hitabylgjan hefur sín áhrif á andrúmsloftið og gæði þess. Hafa ökumenn á Bouches-du-Rhone svæðinu fengið fyrirmæli um að aka ekki hraðar en 80 km/klst á vegum þar sem hámarkshraði er ella 110 km eða meiri. Sömuleiðis hafa iðnfyrirtæki verið beðin að draga úr framleiðslukrafti og þar með losun mengandi lofttegunda.
Hitabylgjan nú er ekkert í líkingu við hitana 2003 og mun staðbundnari, en þá sagði hún til sín í landinu öllu og eirði engu.
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.8.2009 | 15:28
Ofbeldisfullir makar beri rafarmbönd svo fylgjast megi með þeim
Gera ætti tilraunir með að brennimerkja ofbeldisfulla maka með armbandi sem sendir frá sér staðsetningarmerki. Það vill franski fjölskyldumálaráðherrann, Nadine Morano.
Hún lýsir þessari skoðun sinni við blaðið Le Figaro en hugmynd hennar er að makar sem gerst hafa sekir um heimilisofbeldi beri armbaönd sambærileg þeim sem t.d. barnaníðingar bera eftir að þeir eru lausir úr fangelsi. Með því móti sé hægt að fylgjast með ferðum þeirra allan sólarhringinn og þýðir lítt fyrir viðkomandi að þræta fyrir hvar þeir voru hverju sinni.
Ég vil að drengjum sé kennt í skóla að réttur þeirra til að slá stúlkur sé enginn. Einnig ættum við að gera tilraunir með að láta ofbeldisfylla maka bera rafarmbönd, eins og á Spáni. Ég vil að ríkisstjórnin ræði það, segir Morano við Le Figaro.
Spænska stjórnin ákvað í fyrravetur að ætlunin væri að fylgjast með ofbeldisfullum mökum með því að gera þeim að bera rafarmbönd með GPS-staðsetningarbúnaði.
Löggæsla | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
10.8.2009 | 19:09
Borgaði milljónir svo hundurinn gæti flogið á fyrsta farrými
Ekki er öll vitleysan eins, kom mér í hug er ég las um sextuga ísraelska konu sem borgaði um 30.000 evrur, vel á sjöttu milljón króna, svo hún gæti haft kjölturakka sinn með sér á fyrsta flugfarrými frá París til Tel Aviv.
Af hálfu frúarinnar, sem sögð er heita Rivkah, kom ekki til greina að hvuttinn Orchuk yrði settur í búr í farangurslest þotunnar. Þar gæti hann orðið einmana og óttasleginn, sagði konan. Af hálfu El Al félagsins kom ekki til greina að hundurinn, sem er af boxerkyni, lægi í kjöltu hennar í fluginu.
Heldur skyldi hann vera í búri á fyrsta klassa, en til að svo mætti verða varð að fjarlægja nokkur sæti til að koma því fyrir. Já, og frúin borgaði einnig undir dýralæknir sem fylgdist með heilsufari Orchuk þær fjórar klukkustundir sem hann var skýjum ofar.
"Ég vildi hafa barnið mitt hjá mér í fluginu svo ég gæti hlúð að því," sagði Rivkah. Hundinn hafði hún alið upp frá því hann kom í heiminn fyrir rúmum átta árum og samband þeirra eins og móður og barns.
"Hann er barnið mitt, ekki hundur. Og hann verðskuldar það besta," bætti hún við. Og sagðist ekki sjá eftir uppsettu verði fyrir flutninginn.
Talsmaður flugfélagsins El Al segir félagið aldrei hafa staðið frammi fyrir beiðni sem konunnar. "Eftir að hún útskýrði hið sérstaka samband sitt við hund sinn og kvaðst fúslega myndu borga aukalega fyrir það féllumst við á beiðni hennar," sagði talsmaðurinn.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)