8.8.2009 | 10:06
Páfagaukurinn sló fjármálasnillingunum við!
Maður skyldi ætla, að þeir séu skömmustulegir 10 sérfræðingar í hlutabréfaviðskiptum sem tóku þátt í fjárfestingakeppni sem fram fór í Seoul í Suður-Kóreu. Meðal þátttakenda var fimm ára kvenpáfagaukur frá Papúa Nýju Gíneu. Hann reyndist flestum hámenntuðum sérfræðingunum snjallari.
Páfagaukurinn heitir því frumlega nafni Ddalgi, eða Jarðarber, í íslenskri þýðingu. Keppnin fór fram á vegum fyrirtækis að nafni Paxnet sem sérhæfir sig í hlutabréfaupplýsingagjöf á netinu.
Dalgi byrjaði með 60 milljónir wona sýndarfjár eins og hver og einn sérfræðinganna, en upphæðin jafngildir 48.000 dollurum. Í hverjum viðskiptum voru bréf keypt eða seld fyrir 10 milljónir wona.
Hlutabréfafræðingarnir völdu þau bréf sem þeim leist á. Páfagaukurinn ákvað sín viðskipti hins vegar þannig, að hann greip í gogginn bolta úr hópi 30 bolta sem hver um sig táknaði eitt 30 fyrirtækja sem öruggt þótti að fjárfesta í, t.d. Samsung rafeindarisann.
Niðurstaðan var ótrúleg. Ddalgi varð þriðji með 13,7% hagnað af fjárfestingum sínum, sagði forstjóri Paxnet, Chung Yeon-Dai við frönsku fréttastofuna AFP.
Að meðaltali varð halli af fjárfestingum karlanna 10, sem nam 4,6% Aðeins tveir þeirra skákuðu páfagauknum, annar skilaði 64,4% hagnaði og hinn 21,4%. Allir starfa mennirnir hjá litlum eða meðalstórum fjármálafyrirtækjum.
Á vikunum sex keyptu þeir eða seldu 190 sinnum hver. Á sama tíma fékk páfagaukurinn sjö sinnum að velja sér hlutabréf.
Niðurstaðan af tilrauninni er sú, sagði Chung, að langtíma fjárfestingar í hlutabréfum öruggra fyrirtækja séu öruggar og skilvirkar.
6.8.2009 | 15:57
Þurfa leiðtogar að veikjast til að öðlast stuðning?
Þurfa þjóðarleiðtogar eða háttsettir ráðamenn að veikjast til að ná augum og eyrum landa sinna og öðlast aukins stuðnings þeirra? Þannig hef ég spurt sjálfan mig eftir að ný könnun sýnir mikla fylgisaukningu við Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta. Yfir hann leið á dögunum er hann skokkaði á Versalasvæðinu að morgni sunnudagsins 26. júlí sl.
Sarkozy var fluttur á spítala en útskrifaður daginn eftir. Honum var fyrirskipað að hvílast. Er hann nú í sumarleyfi á landareign tengdaföður síns á suðurströnd Frakklands. Atvikið hefur líklega orðið til þess að hann hefur hægt á líkamsrækt sinni. Að sama skapi virðist það hafa haft áhrif á vinsældir hans.
Fjórum dögum seinna kannaði CSA-stofnunin afstöðu kjósenda til Sarkozy. Reyndust stuðningur við hann hafa aukist um 12 prósentustig frá samskonar könnun í maí. Sögðust 53% ánægð með frammistöðu forseta síns en 41% í maí. Í nýjustu könnuninni sögðust aðeins 38% óánægð með frammistöðu Sarkozy í starfi, miðað við 55% fyrir þremur mánuðum. Munar þar 17%.
Spurt var álits á líkamsrækt forsetans og skiptist þátttakendur í tvennt í afstöðunni til þess. Svöruðu 51% því til að hann ætti að hlýða læknum sínum og nota sumarleyfið til að hvíla sig rækilega. Hinn helmingurinn, eða 49%, sagðist ekkert hafa á móti íþróttaiðkun Sarkozy.
Spurt var einnig um afstöðu til persónuleika forsetans og kom hann betur út á öllum sviðum en í síðustu könnun. Þannig sögðu 63% hann viðfelldinn náunga og 80% sögðu hann duglegan og kjarkmikinn. Loks sögðu 90% hann kraftmikinn og framkvæmdasaman. Helmingurinn, eða 50%, sögðu hann í nánum tengslum við þjóðina en þeirrar afstöðu voru aðeins 36% í maí.
Fjölmiðlar fengu vissa ábendingu úr könnuninni, því 60% aðspurðra sögðu þá hafa gert alltof mikið úr yfirliði Sarkozy. Voru sjónvarpsstöðvar m.a. með beinar útsendingar frá lóð sjúkrahússins sem hann dvaldist á í sólarhring.
5.8.2009 | 19:30
Laumaðist inn í landið í boði breskra landamæravarða
Breskir landamæraverðir eru skömmustulegir þessa dagana, eftir að upp komst að ólöglegur innflytjandi laumaðist frá Frakklandi til Englands í boði þeirra, ef svo mætti segja. Hann kom sér fyrir í undirvagni rútu þeirra á leiðinni um Ermarsundsgöngin til Englands.
Bresku landamæraverðirnir voru við störf í landamærastöðvum Coquelles í Frakklandi, miðstöð ferða um göngin undir Ermarsund þar sem ólöglegir innflytjendur reyna að smeygja sér með farartækjum til Englands.
Verðirnir, sem eru starfsmenn breska útlendingaeftirlitsins, höfðu enga hugmynd um aukafarþegann í rútu þeirra er hún fór til baka til Englands um göngin. Það var ekki fyrr en þeir komu til Folkestone á suðurströnd Englands að þeir urðu hins óboðna samferðamanns varir. Er hann laumaðist úr fylgsni sínu við eldsneytistank rútunnar.
Ekki tókst þeim þó að hafa hendur í hári hans og komst hann undan og úr augsýn þeirra á hlaupum. Hér þykir um hneyksli að ræða og hefur innanríkisráðuneytið í London hrundið af stað rannsókn.
Þrátt fyrir þetta kjaftshögg leggur breska landamæraeftirlitið áherslu á, að komið hafi verið í veg fyrir tilraunir 28.000 aðila til að komast inn í Bretland með ólögmætum hætti í fyrra, 2008.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 19:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Frönskum ávaxta- og grænmetisbændum er vandi á höndum og víst að þeir munu berja sér mjög á næstunni. Nú hefur Evrópusambandið (ESB) lýst niðurgreiðslur til þeirra á árunum 1992 - 2002 ólöglegar. Franska stjórnin segir bændur verða borga til baka. Bændur hóta á móti sjóðheitum mótmælum.
Franska stjórnin studdi ávaxta- og grænmetisbændur um jafnvirði rúmra 330 milljóna evra á tímabilinu. Framkvæmdastjórn ESB hefur úrskurðað að greiðslurnar hafi verið til þess fallnar að skekkja samkeppnisstöðu bændunum í hag. Að núvirði, með vöxtum, frá því greiðslurnar hófust, jafngilda styrkirnir samkeppnisskekkjandi 500 milljónum evra, að sögn ESB.
Bruno Le Maire landbúnaðarráðherra Frakka segir að hefja verði aðgerðir til að endurheimta fjárstuðninginn. Hann sagði ekki hversu stóran hlut yrði reynt að heimta til baka. Og bætti við að mál hvers og eins bónda yrði skoðað til að hrekja bændur ekki í gjaldþrot.
Franska stjórnin fékk á baukinn frá ESB fyrir niðurgreiðslur þessar. Þær komu úr varasjóði sem var hugsaður til að styðja bændur á krepputímum á ávaxta- og grænmetismarkaði. Michel Barnier, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, vísaði máli þessu til Evrópudómstólsins og arftaki hans, Le Marie, sagðist myndu halda þeim málarekstri áfram. Hann segist sjálfur þeirrar skoðunar að hluti styrkjanna geti ekki talist ólöglegur.
Af fjármunum ESB til landbúnaðarmál hefur langstærstur hluti runnið til Frakklands, eða nálega 40%.
Eins og ég áður sagði, hafa bændur borið sig aumlega yfir þessu. Formaður samtaka ávaxta- og grænmetisbænda, Francois Lafitte, segir, að ekki komi til greina að borga styrkina til baka. Þeir hafi gert bændum kleift að keppa við innflutning frá Spáni og Portúgal.
Laffite varaði stjórnvöld við og sagði hana ekki eiga von á góðu ef hún reyndi að endurheimta. Boðaði hann sjóðheita uppreisn ef ríkisstjórnin lætur til skarar skríða gegn bændum.
Greiðslurnar ólöglegu runnu til að niðurgreiða verð frá bændum, geymslukostnað, förgun hluta uppskerunnar og til að hvetja til úrvinnslu ferskra ávaxta- og grænmetis.
3.8.2009 | 20:49
Tvær franskar skútur þveruðu Atlantshafið á rúmum þremur dögum
Það er ekki aðeins að franski skútustjórinn Pascal Bidegorry og áhöfn hans hafi siglt lengri vegalengd á sólarhring en nokkru sinni hefur áður verið gert á skútu. Áhöfnin vann það afrek einnig, að vera fljótari á leiðinni frá Ambrose-vita við New York til Lizard Point í Bretlandi en áður þekkist, eða rúma þrjá daga!
Bidegorry og 11 manna áhöfn hans á fjölbytnunni risastóru, Banque Populaire V, var þrjá daga, 15 klukkustundir, 25 mínútur og 48 sekúndur frá New York til Bretlands.
Gamla metið var í eigu annars Frakka, Franck Cammas, og var 4 dagar, 3 stundir, 57 mínútur og 54 sekúndur, frá í júlí árið 2007.
Cammas freistaði þess einnig að bæta metið og því var í raun og veru um nokkurs konar kappsiglingu að ræða milli frönsku skútustjóranna tveggja að ræða. Methafinn gamli þveraði Atlantshafið einnig á innan við fjórum sólarhringum og bætti sitt gamla met. Var tæpum þremur klukkutímum á eftir Bidegorry; sigldi á 3 dögum, 18 stundum, 12 mínútum og 56 sekúndum.
Bætti Bidegorry gamla siglingametið um rúmar 12 stundir og Cammas var 9 stundum og 44 mínútum fljótari en í metsiglingunni 2007.
Um er að ræða 2.925 sjómílna vegalengd, eða 5.405 km. Meðalhraði skútunnar var 32,94 hnútar eða næstum því 61 km/klst. Meðalhraði Cammas á siglingunni fyrir tveimur árum var 28,65 hnútar.
Eins og ég hafði áður bloggað gerðist það á siglingunni, að skútan Banque Populaire V undir stjórn Bidegorry lagði að baki lengri vegalengd á sólarhring en nokkur önnur skúta hefur gert í sögunni, eða 880 sjómílur. Meðalhraðinn því 36,66 hnútar á klst. Það jafngildir 1.626 kílómetrum, sem er ekki fjarri vegalengdinni frá London til Reykjavíkur í beinni línu! Gamla metið átti Cammas.
Skúturnar tvær eru engin smásmíði. Groupama 3 er 103 feta löng, eða 31 metri. Banque Populaire V er nokkuð lengri, 131 fet, eða 39,9 metrar.
Cammas hóf siglinguna 2:35 stundum á undan Bidegorry og því munaði ekki mörgum mínútum er þær sigldu yfir marklínuna undan Lizard Point á suðurodda Cornwall-skaga í Englandi.
Íþróttir | Breytt 4.8.2009 kl. 15:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)