1.8.2009 | 15:08
Franskur skútustjóri sigldi 1.626 km á sólarhring
Frakkar eru miklir siglingamenn og krökkt er yfirleitt af skútum við strendur landsins frá í mars og fram í október.
Svo hefur verið um áratuga skeið, ef ekki lengur. Oft á ári setja þeir einhver met. Í dag sigldu t.d. Pascal Bidegorry og áhöfn hans lengri vegalengd á sólarhring en nokkru sinni hefur áður verið gert á skútu.
Bidegorry of félagar lögðu að baki 880 sjómílur á 24 stundum og meðalhraðinn því 36,66 hnútar á klst. Það jafngildir 1.626 kílómetrum, sem er ekki fjarri vegalengdinni frá London til Reykjavíkur í beinni línu! Gamla metið átti annar franskur skútustjóri, Franck Cammas.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 15:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
30.7.2009 | 21:16
Bayern vildi a.m.k. 100 milljónir evra fyrir Ribery
Ekkert skrítið að Bayern München hélst á Franck Ribery, franska framherjanum sókndjarfa. Liðið setti það háan verðmiða á hann að lið sem sýndu honum áhuga misstu móðinn. Uli Höness staðfesti í dag, að Bayern hefði krafist a.m.k. 100 milljóna evra fyrir Ribery af Real Madrid er spænska stórliðið lagði sig í líma í sumar að krækja í hann.
Höness segir Bayern hafa viljað þriggja stafa tölu upphæð fyrir Ribery og er liðið sat fast við þann keip hafi Real Madrid gefist upp. Enda búið að reiða fram vel á annað hundrað milljónir evra fyrir Kaka og Ronaldo.
Að sögn franska íþróttadagblaðsins var Real Madrid reiðubúið að borga 80 milljónir evra fyrir Ribery. Hann gekk til liðs við Bayern 2007 og er samningsbundinn út árið 2011. Hann hefur sjálfur látið svo um mælt að frá Bayern færi hann ekki til neins annars liðs en hins spænska.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.7.2009 | 07:18
Yfirlið Sarkozy skrifað á kröfuhörku Carla Bruni
Vinir Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta gera því skóna að kröfuhörku forsetafrúarinnar Carla Bruni sé um að kenna, að yfir hann leið á morgunskokki á Versalasvæðinu sl. sunnudagsmorgun. Sarkozy var fluttur með þyrlu í Val-de-Grace hersjúkrahúsið í París og útskrifaður síðdegis í gær.
Læknar sögðu ekkert ama lengur að forsetanum, en hvöttu hann til að taka því rólega í nokkra daga og minnka við sig vinnu á meðan. Vinir Sarkozy hvetja hann til að draga úr umfangsmikilli og stífri líkamsrækt og hætta ströngum nýjum matarkúrum.
Hvort tveggja segja þeir vera að forskrift Bruni sem hafi stokkað upp lífshætti eiginmannsins og vilji hann helst líta út sem stæltur ungur maður en ekki karl á miðjum sextugsaldri.
Opinberlega eru ástæður yfirliðsins sagðar heitt veður og mikið starfsálag. Í dag er forsetinn væntanlegur hingað í nágrenni við mig í sínu fyrsta verkefni eftir veikindin. Heimsækir hann þá Mount St-Michel, hinn vinsæla áfangastað sem á fjórðu milljón ferðamanna heimsækja árlega.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.7.2009 | 16:25
Rauð boxerbrók kom upp um glæponinn
Búlgari nokkur að nafni Vanko Stoyanov hefur verið dæmdur í fimm ára fangelsi í Frakklandi fyrir þátttöku í skipulagðri glæpastarfsemi og endurtekin afbrot. Rauð boxerbrók kom upp um hann.
Brókin fannst á vettvangi eins glæpsins í mars árið 2007 og sönnuðu að lokum sekt Stoyanovs. Hann sérhæfði sig í stuldi á snekkjum og lúxusbílum.
Forsaga málsins er sú, að jeppi með lúxussnekkju á kerru í aftanídragi staðnæmdist á A8-hraðbrautinni er leiðin lokaðist vegna umferðarslyss. Er lögregla kom á vettvang voru bæði ökumaðurinn og skrásetningarnúmer bílsins horfin.
Fljótlega kom í ljós að snekkjunni hafði verið stolið á Spáni daginn áður, en hún var að verðmæti um 100.000 evrur, um 18 milljónir króna.
Lögregla komst að þeirri niðurstöðu, að hér hafi verið á ferð liðsmaður gengis sem ætlaði að flytja snekkjuna til Svartahafs. Einu sönnunargögnin sem þeir fundu í bílnum var boxerbrókin rauða. Ljóst þótti eftir erfðatæknifræðilegar rannsókn að Vanko Stoyanov hafi klæðst þeim.
Hann var á franskri sakarskrá fyrir stuld á dýrum bílum við Saint Tropez-flóa, á heimaslóðum Birgittu Bardot. Hann var nýlega framseldur til Frakklands frá Búlgaríu til að horfast í augu við réttvísina.
Löggæsla | Breytt s.d. kl. 16:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.7.2009 | 16:06
Grafarræninginn dó við iðju sína
Maður fannst látinn í kirkjugarði bæjarins Valeuil í Dordognehéraði í suðvesturhluta Frakklands. Sem væri vart í frásögur færandi nema vegna þess að hann lá ofan á gröf. Í ljós kom að þar var grafarræningi á ferð sem fékk hjartaslag við iðju sína.
Kona úr bænum kom að líkinu þar sem það lá við siga og hamar og meitill við hlið þess.
Maðurinn var 54 ára og af Bordeauxsvæðinu. Hann var önnum kafinn við að höggva skraut og trúartákn af legsteinum í kæfandi sumarhitanum, segir bæjarstjórinn Pascal Mazouaud.
Í bíl mannsins sem hann hafði lagt við kirkjugarðsvegginn fundust kynstrin öll af hlutum af legsteinum og grafhýsum.