23.7.2009 | 19:14
Franski herinn fær á baukinn fyrir að valda skógareldum
Í mínu ungdæmi var sagt um óhittna menn, að þeir myndu ekki hæfa belju þótt þeir héldu í halann á henni. Þetta rifjaðist upp er ég las fréttir af skógareldum í nágrenni Marseilles. Þeir eru raktir til misheppnaðra skotæfinga útlendingaherdeildarinnar. Hefur franski herinn fyrir bragðið verið hæddur í fjölmiðlum í dag.
Í stað þess að bæta hittni liðsmanna útlendingaherdeildarinnar olli æfingin víðtækum eldum og eyðileggingu í náttúrunni rétt við úthverfi Marseilles.
Heimskingjar og hálfvitar eru orð sem hafa fallið vegna eldanna sem eyðilagt hafa tugi íbúðarhúsa með þeim afleiðingum að hundruð manns hafa misst heimili sín.
Um 170 slökkviliðsmenn hafa tekist á við eldana frá í gærkvöldi en á þá hefur og verið varpað vatni úr þyrlum og sérsmíðuðum slökkviflugvélum. Náðu þeir yfirhöndinni í glímunni við eldana í dag. Þeir eru hinir umfangsmestu við suðurströnd Frakklands í þrjú ár.
Liðþjálfi í útlendingaherdeildinni hefur verið settur af ótímabundið og bíður hans að verða dregin fyrir herdómstól. Hann stjórnaði æfingu 1sta herdeildar útlendingahersins við bækistöðvar hennar við Marseille í gær. Hann er sakaður um að hafa virt að vettugi fyrirmæli um að nota ekki sérlegar glóðarkúlur við æfingar yfir sumarið á svæðum þar sem eldhætta er mikil vegna sumarhita, svo sem í nágrenni suðurstrandar Frakklands. Slíkar byssukúlu eru með efni sem brennur og skilur eftir sig slóð þegar hleypt er af. Af þeim sökum sjást þær á flugi.
Jean-Claude Gaudin borgarstjóri í Marseilles var ómyrkur í máli í garð hersins. Ég fæ ekki séð hvers vegna efnt skuli til heræfinga í 32°C hita og sterkum vindi. Þegar frámunalegur fíflaskapur sem þessi á sér stað verður að upplýsa um það.
Og lögreglustjórinn Michel Sappin gagnrýndi aulabárðana sem stjórnuðu æfingunni og sagði málið skaprauna sér sérdeilis. Hvatti hann til fullrar rannsóknar og að allir foringjarnir sem við sögu æfinganna komu yrðu dregnir fyrir herdómstól.
Meðal þeirra sem misstu heimili sitt í eldunum voru 120 íbúar elliheimilis. Þá varð að rýma fæðingardeild sem eldarnir ógnuðu. Voru nýorðnar mæður og kornabörn flutt í íþróttasal þar sem þau voru óhult.
Franski herinn þykir oft hafa gert hin ótrúlegustu axarsköft og skógareldarnir við Marseilles minnkar ekki skömm hans. Þetta voru hræðileg mistök og okkur þykir miður hvernig fór, sagði talsmaður hans í miklum iðrunartón í dag.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
21.7.2009 | 11:56
Barak Obama er franskur!
Þá er það í ljós komið, að Barak Obama Bandaríkjaforseti er franskur í aðra röndina. Þetta hafa ættfræðingar mormónakirkjunnar í Saltsjóstað (Salt Lake City) í Utahríki leitt í ljós.
Obama er beinn afkomandi fransks húgenotta, Mareen Duvall, sem fluttist til Maryland árið 1650 og kvæntist þar stúlku sem var barnabarn Richards nokkurs Cheney. Deilir hann því forfeðrum með varaforstanum fyrrverandi, Dick Cheney. Eru þeir í áttunda lið komnir af Richard Cheney.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
14.7.2009 | 11:48
Ferðamenn í Frakklandi tryggðir gegn rigningu
Þeir sem geta ekki sleikt sólina eins og til stóð á ferðalagi sínu til Frakklands gætu fengið bætur vegna þess, ferðist þeir á annað borð á vegum tveggja franskra ferðaskrifstofa, sem bjóða tryggingu gegn rigningu.
Gangi væntingar ferðalanga um veðurfar ekki eftir fá þeir sjálfkrafa endurgreiðslu á hluta ferðakostnaðar. Rigni til dæmis fjóra daga á einni viku á ferðalaginu er endurgreitt. Það eru ferðaskrifstofurnar Pierre et Vacances og FranceLoc sem ákveðið hafa að tryggja með þessum hætti skjólstæðingum sínum gott veður!
Tryggingafélagið Aon France mun notast við gervihnattamyndir frá frönsku veðurstofunni til að leggja mat á hugsanlegar bætur. Bætur fyrir ferðalag til Frakklands sem fer hálfpartinn í hundana vegna rigningar gætu numið 400 evrum.
Ferðamenn eiga þess kost á að fá sms-skilaboð eða tölvupóst um hvaða bætur þeim beri og munu síðan fá ávísun í pósti rétt eftir heimkomu.
Maðurinn á bak við hugmyndina að þessari veðurtryggingu, Hervé Kayser, segir við franska dagblaðið Le Figaro, að þegar gerð hafi verið prófun með tryggingu af þessu tagi í fyrra hafi niðurstaðan verið sú, að 10% þeirra sem áhuga höfðu á henni hefðu upplifað nógu mikla rigningu í ferðinni til að fá endurgreiðslu á kostnaði við ferðina.
Ferðalög | Breytt s.d. kl. 11:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.7.2009 | 22:15
Þriðji franski sigurinn í Frakklandsreiðinni
Þegar ég ritaði um sigur Brice Feillu í Tour de France láðist mér að ýta á réttan hnapp og senda bloggið upp á himnafestinguna. Í millitíðinni hafa Frakkar fagnað þriðja sinni því Pierrick nokkur Fedrigo vann síðustu lotuna í Pýrenneafjöllum í gær, sunnudag.
Fedrigo, sem er liðsfélagi Thomas Voeckler hjá Bouygues Telecom-liðinu er vann dagleið sl. miðvikudag, háði tvísýnt og spennandi endasprettseinvígi við ítalskan hjólreiðagarp, Franco Pellizotti, á 160,5 km leið frá Saint-Gaudens til Tarbes.
Pierrick Fedrigo stendur á þrítugu og hefur verið atvinnuhjólreiðamaður frá árinu 2000. Árið 2006 vann hann eina dagleið Tour de France.
Leiðin lá yfir tvö erfið fjöll, þar á meðal um Tourmalet-skarðið sem er einhver erfiðasti fjallvegur í Pýrenneafjöllum. Eftir um 24 km gerði Lance Armstrong tilraun til að brjótast frá meginhópnum og elta uppi þá er áður höfðu slitið sig lausa. Það gekk ekki eftir og var hann dreginn fljótt uppi.
Rinaldo Nocentini hélt forystu í heildarkeppninni og klæðist því gulu treyjunni á morgun, þegar níunda dagleiðin fer fram. Staða efstu manna breyttist ekkert um helgina. Sigurvegarinn frá 2007, Alberto Contador, er annar og liðsfélagi hans Armstrong, þriðji, en þeir keppa fyrir Astana.
Í dag áttu keppendur frí og söfnuðu þeir kröftum fyrir næstu lotu. Á morgun, þjóðhátíðardag Frakka, liggur leiðin um flatlendi er henta ætti sprettmönnum, sem verið hafa í bakgrunni síðustu daga.
Á morgun verða engar talstöðvar eða gemsar leyfðir sem liðsstjórar nota óspart til að stýra sínum mönnum í keppninni. Einnig verða tæki og tól af því tagi bönnuð nk. föstudag, í Ölpunum. Því er haldið fram að fjarskiptabúnaðurinn drepi í dróma allt frumkvæði hjólreiðamannanna sjálfra; það séu liðsstjórarnir í bílunum á eftir hópnum sem ráði ferðinni en þeir fylgjast með öllu í sjónvarpstækjum í bílum sínum.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 22:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
13.7.2009 | 21:19
Berlusconi harmar árásir á Carla Bruni
Silvio Berlusconi forsætisráðherra Ítalíu hefur beygt sig í duftið til að halda Frökkum góðum eftir ósmekklegar árásir ítalskra blaða, þ. á m. Il Giornale, blaðsnepils í eigu bróður hans, á frönsku forsetafrúna, hina ítölsku Carla Bruni. Segir Berlusconi að hann sé leiður yfir skrifum blaðsins.
Blaðið sagði Bruni vera dónalega og sýnt af sér snobbarahátt fyrir að hafa sniðgengið dagskráratriði G8-fundarins á Ítalíu í síðustu viku. Mér var stórlega misboðið og afar hryggur er mér var sagt af greinunum í ítölsku blöðunum, þar á meðal Il Giornale, með særandi ummælum um frú Carla Bruni, eiginkonu forseta franska lýðveldisins, segir Berlusconi í yfirlýsingu af þessu tilefni.
Ítalskir hægrimenn og fjölmiðlar þeirra eru sagðir hafa verið á tauginni af hræðslu við að umheimurinn fengi á tilfinninguna að eiginkonur leiðtoganna á G8-fundinum forðuðust Berlusconi vegna ókræsilegra uppljóstrana um framkomu hans í garð kvenna og álit á þeim.
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)