Franskur nýliði sigrar óvænt í Pýrenneafjöllunum

Ungur franskur hjólreiðagarpur á fyrsta ári í atvinnumennsku, Brice Feillu, kom, sá og sigraði Tour de France í dag með eftirminnilegum hætti. Kleif hann hraðast upp brekkurnar upp til skíðastaðarins Arcallis, sem er í 2.240 metra hæð í smáríkinu Andorra í Pýrenneafjöllum.

Unun var að fylgjast með Feillu er hann sagði skilið við hóp samferðamenn sína sem slitið höfðu sig löngu áður frá meginhópnum á 224 km dagleiðinni frá Barcelona til Andorra.  Nokkrum sinnum áður gerðu einstakir knapar í fremsta hópi tilraun til að slíta sig frá og komast á auðan sjó en voru dregnir jafnharðan uppi.

Þegar Feillu lét hins vegar til skarar skríða er um sex km voru í mark fékk enginn við honum ráðið. Steig hann fák sinn jafnt og þétt og eitthvað svo áreynslulaust það sem eftir var upp fjallið. Þetta var fyrsti fjallaáfanginn af mörgum, enn bíða Alparnir alræmdu. Og annar dagleiðasigur Frakka í fyrstu viku túrsins, en Thomas Voeckler vann leið miðvikudagsins sl.

Feillu er aðeins 23 ára en verður 24 ára daginn sem Frakklandsreiðinni lýkur í París eftir hálfan mánuð. Og þetta er fyrsti sigur hans í atvinnumennsku og í fyrsta sinn sem hann keppir í mótinu.

Hann er 1,.88 m á hæð og 67 kíló og því langur og grannholda, eða rengla eins og sumir myndu segja. Með líkamsbygginguna eins og bestu klifrarar og því veikari á sprettreið. Þar er bróðir hans Romain hins vegar öflugur enda höfðinu lægri og samanrekið vöðvabúnt. Kom hann í mark ásamt hópi annarra sprettkarla tæpri hálfri klukkustundu á eftir.

Þar með var hann ekki fyrstur til að samfagna með yngri bróðurnum og liðsfélaga hjá Agritubelliðinu. En sýndi þó kröftugustu tilfinningar yfir sigrinum. „Um leið og mér var sagt í gegnum talstöðina að Brice hafði unnið brutust fram gleðitár hjá mér. Og ég grét alla leið í mark,“ sagði hann.  Í fyrra skrýddist Romain gulu treyju forystusauðs reiðarinnar í einn dag. Þá vann hann Bretlandsreiðina fyrir tveimur árum.

Feillu skrýddist rauðdoppóttu skyrtunni eftir daginn en henni klæðist sá er flest stig hefur í klifuráföngum. Það dró svo ekki úr gleðinni, að í öðru sæti varð annar Frakki, Christophe Kern í Cofidisliðinu.

Feillu er frá bænum Chateaudun í Lurudal, ekki langt frá borginni Orléans.

Sigur Voeckler í Perpignan og Feillu í Andorra gladdi aðstandendur Tour de France sem lifa í voninni að fyrr en varir eignist Frakkar sigurvegara í keppninni erfiðu. Það gerði Bernard Hinault, sem ég bý í næsta nágrenni við, 1985. Hann vann túrinn fjórum sinnum á sínum tíma og hefur undanfarin ár stjórnað verðlaunaafhendingu eftir hverja dagleið.

Þá skipti gula treyjan um hendur, öllu heldur búk, í dag. Ítalinn Rinaldo Nocentini var í fremsta hópnum og kom nógu langt á undan öðrum í mark til að taka hana af Fabian Cancellara, sikileyskum Svisslendingi. Þá reif Alberto Contador sig frá megin hópnum síðustu tvo km upp fjallið og komst upp fyrir liðsfélaga sinn Lance Armstrong í annað sæti í heildarkeppninni. Er hann 6 sek á eftir Nocentini og Armstrong átta.

Fyrir dagleiðina var Armstrong með 18 sekúndna forskot á Contador. Virtist sá síðarnefda koma útspil Contadors í opna skjöldu og lagði hann ekki upp í eftirför. Milli þeirra ríkir mikil spenna um forystuhlutverkið innan Astanaliðsins.

Nocentini er 31 árs og frá Toscanahéraði á Ítalíu. Hann er að keppa í fyrsta sinn í Tour de France. Hann á 10 bræður og systur. Hann er fyrsti Ítalinn til að skrýðast gulu treyjunni frá því Alberto Elli klæddist henni í fjóra daga árið 2000.

 


Franskur sigur í Tour de France

Vart gat það betra verið í Frakklandsreiðinni [Tour de France] í dag. Franskur sigur á fimmta degi, hinn fyrsti í ár, en vonandi verða þeir fleiri. Einn litríkasti hjólreiðamaður Frakklands undanfarin ár, Thomas Voeckler, hjólaði fyrstur yfir marklinuna eftir 196 km kappreið.

Voeckler sleit sig frá megin hópnum ásamt fimm öðrum eftir um 15 kílómetra. Og svo spretti hann frá keppinautum sínum er tæpir 5 km voru í mark. Megin hópurinn dró á hann á síðustu kílómetrunum en ekki nóg; Voeckler var sjö sekúndum á undan Rússanum Ignatiev og Bretanum Cavendish.

Þetta er í fyrsta sinn sem Voeckler vinnur dagleið í Frakklandsreiðinni. Og það bar ekki aðeins upp á afmælisdag liðsstjóra hans, Jean-René Bernaudeau, yfirmanns Bbox Bouygues Telecom. Heldur eru  einnig í dag nákvæmlega fimm ár frá því Voeckler hrifsaði til sín gulu treyjuna sem forystusauðurinn í keppninni skrýðist. Henni klæddist hann í nokkra daga í Túrnum 2004, eða þar til Lance nokkur Armstrong tók við henni í Ölpunum.

Þeir Voeckler og Armstrong eiga það sameiginlegt,  að báðir viðbeinsbrotnuðu með nokkurra daga millibili í mars sl.

Um Frakklandsreiðina er það annars að segja, að Svisslendingurinn Fabian Cancellara hefur enn forystu í keppninni og hefur skrýðst gulu treyjunni frá fyrsta degi. Armstrong er í öðru sæti, sekúndubrotum á eftir og þriðji er liðsfélagi Armstrong, Spánverjinn Alberto Contador, sem talinn er líklegur til að vinna keppnina í ár.

 


Gasfélögin GDF og E.ON fá risasekt fyrir samkeppnisbrot

Þá er best að búa sig undir hækkun á gasreikningnum því franska gasfélagið GDF Suez var sektað um 553 milljónir evra í dag fyrir brot á samkeppnislögum. Sömu sekt fékk þýska gasfélagið E.ON en félögin reyndust sek af samráði um verðlagningu og markaðsaðgang.

Þetta mun vera fyrsta sekt sem beitt er gegn orkufyrirtækjum í ESB af hálfu samkeppnisyfirvalda sambandsins. Bæði fyrirtækin neita enn sekt sinni og ætla að áfrýja niðurstöðunni.

Þau lögðu árið 1975 svonefnda Megal-leiðslu þvert yfir Þýskaland til að flytja gas frá Síberíu.  Sömdu félögin um að leisluna myndu þau aldrei nota til að selja gas inn á markaðssvæði hvors um sig. Uppvíst varð um samninginn árið 2005.

Afleiðing var skortur á samkeppni og með samningnum komu félögin í veg fyrir að birgjar sem boðið gátu upp á enn ódýrara gas fengju afnot af leiðslunni. Þar með var komið í veg fyrir að þeir gætu náð fótfestu á gasmarkaði í Þýskalandi og Frakklandi, segir í upphaflegri kæru framkvæmdastjórnar ESB.

Sektirnar eru meðal þeirra hæstu sem sögur fara af en ekki nema skiptimynt í hlutfalli við veltu félaganna. Velta E.ON um víða veröld nam 87 milljörðum evra í fyrra og velta GDF Suez 68 milljörðum evra.

 


Íslenskt vatn streymir senn til Miðausturlanda

Íslenskt vatn, meir að segja jöklavatn, mun streyma til Miðausturlanda á næstunni. Þar mun það svala þorsta og þörf bandarískra hersveita fyrir drykkjarvatn næstu árin. Það verður einnig aðgengilegt almenningi í verslunum. Um er að ræða 180 milljónir flöskur af vatni næstu þrjú árin, eða fimm milljónir flöskur á mánuði.

Það er hollenskt fyrirtæki, Dalphin, með aðsetur í bænum Winterswijk í austurhluta Hollands, sem stendur fyrir vatnsflutningi frá Íslandi til Miðausturlanda. Hlaut það samning þar að lútandi frá bandarískum aðilum, ef marka má frétt hollensku fréttastofunnar Algemenn Nederlands Persbureau.

Vatnið verður einnig til sölu í búðum fyrir almenning sem veigrað hefur sér við því að kaupa drykkjarvatn frá ríkjum sem eru með hersveitir í Afganistan og Írak. Það mun því nýtast útflytjendum íslenska vatnsins að Íslendingar halda ekki úti her.

Hjá Dalphin-fyrirtækinu er 25.000 lítrum vatns tappað á flöskur á klukkustund. Íslenska vatnið verður flutt sjóleiðina til Miðausturlanda frá Rotterdam.  

 


Frakkar segja G8 tímaskekkju

G8, samtök sjö helstu iðnríkja heims og Rússlands, eiga ekki lengur við og ættu að taka fleiri lönd í raðir sínar, svo sem vaxandi efnahagsveldi. Það er mat Christine Lagarde, efnahagsráðherra Frakklands.

„G8 eru gömul samtök og miklu minna í takt við tímann miðað við samsetningu hennar og þróunina í veröldinni,“ sagði Lagarde við blaðamenn á efnahagsráðstefnu í Aix-en-Provence í Frakklandi í gær.

Leiðtogafundur G8 fer fram á Ítalíu í vikunni og verður settur í rústum borgarinnar L'Aquila sem varð illa úti í jarðskjálfta í vor. Samtökin mynda Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Ítalía, Japan, Kanada, Rússland og Þýskaland. Þau voru stofnuð 1975 sem samtök sjö helstu iðnríkja heims en árið 1998 slógust Rússar í hópinn.

Til funda G8 hefur leiðtogum annarra ríkja verið boðið sem gestum en það finnst Lagarde ónóg. „Voldugum vaxandi ríkjum eins og Indlandi, Kína og Mexíkó er boðið til fundanna en hafa þar litlu hlutverki að gegna á hliðarlínu. Það ber að breyta G8 og stækka og aðlaga samtökin þannig að raunveruleika okkar daga,“ sagði Lagarde.

Að frumkvæði Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta var efnt til fundar 20 helstu efnahagsvelda heims til að bregðast við heimskreppunni. Minnir mig að hann hafi þurft að beita Georg Bush, þáverandi Bandaríkjaforseta, miklum þrýstingi í fyrra til að fá hann inn á hugmyndina að þeim stóra fundi sem síðan var haldinn í London í apríl sl.

Þar var samþykkt að leggja Alþjóða gjaldeyrissjóðnum til þrjár trilljónir dollara til að hjálpa ríkjum sem illa urðu úti vegna kreppunnar.

Bandaríkjamenn verða gestfjafar á næsta G20-fundinum. Hann verður haldinn í Pittsburgh í  Pennsylvaniu 24. - 25. september nk.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband