4.7.2009 | 07:52
Frakklandsreiðin að hefjast - augu allra á Armstrong
Frakklandsreiðin, Tour de France, hefst í dag með einstaklingskeppni í kapp við klukkuna. Þetta er í 96. sinn sem túrinn fer fram, en honum hefur verið lýst sem erfiðustu íþróttakeppni heims. Það hefur aukið á athygli og eftirvæntingu fyrir keppninni í ár, að bandaríski knapinn Lance Armstrong er snúinn aftur til keppni.
Armstrong vann Tour de France á sínum tíma sjö sinnum í röð, sem er einstakt í sögu keppninnar. Löngum hefur loðað við hann að hafa beitt óleyfilegum meðölum til að ná þessum árangri og ekki hefur vantað á að jafnvel gamlir sigurvegarar - eins og landi hans Greg Lemond - hafa haldið slíku fram opinberlega.
Aldrei hefur þó neitt misjafn sannast á Armstrong. Vissulega voru lyfjapróf færri þegar hann var upp á sitt besta og framleiðendur jafnvel langt á undan eftirlitinu. Öldin er líklega önnur núna og síðast í þessari viku var hollenskur hjólreiðagarpur, Tomas Dekker, felldur á grundvellil sýnis frá í desember 2008.
Og Armstrong til stuðnings hefur hann sætt hvorki fleiri né færri en 55 lyfjaprófunum það sem af er þessu ári. Í viðtali við franska sjónvarpsstöð sl. sunnudag kom t.d. fram, að einn daginn nýlega hafi hann verið prófaður tvisvar sama daginn - af sitthvoru eftirlitinu!
Frönskum almenningi er afar illa við sviksemi í íþróttum og margir gruna Armstrong um græsku. Því má hann búast við misjöfnum móttökum á reiðinni, ekki síst ef hann er í keppni um toppsæti. Vonandi fær hann þó frið og frelsi til að glíma við keppinauta sína. Hann hefur undirbúið sig einstaklega vel og hef ég enga trú á öðru, en hann verði í fremstu röð þótt flestir toppmannanna séu um og yfir 10 árum yngri.
Í gær vann belgíski hjólreiðagarpurinn Tom Boonen mál fyrir áfrýjunardómstól frönsku ólympíunefndarinnar og getur keppt. Frönsku framkvæmdaraðilarnir höfðu hafnað þátttöku hans á þeirri forsendu að hann hafi verið fundinn sekur af notkun kókaíns í apríl. Slíkt skemmtanadóp utan íþróttakeppni mun ekki bannað.
Mótshaldarar héldu því engu að síður fram, að marg skjalfest fíkniefnanotkun Boonen setti óæskilegan og skaðlegan blett á Túrinn. Fíkniefnaneysla sannaðist einnig á Boonen í fyrravor og kom þá í veg fyrir þátttöku hans í Frakklandsreiðinni. Boonen er einstaklega öflugur á endaspretti ef hann er annars vegar í fremstu röð þegar á sprettinn kemur. Fjöllin hafa hins vegar löngum verið honum Þrándur í Götu.
Hvað sem öllu líður, þá verð ég límdur við sjónvarpið næstu þrjár vikurnar meðan Tour de France fer fram. Gamanið byrjar í Mónakó í dag með rúmlega 15 km keppni í kapp við klukkuna. Keppendur eru sendir af stað með nokkurra mínútna millibili og hjóla um götur furstadæmisins.
Armstrong er í hópi þeirra sem sigurstranlegastir teljast í ár. Þar er einnig sigurvegarinn frá í fyrra, Spánverjinn Carlos Sastre, Christian Vande Velde og sigurvegarinn frá 2007, Alberto Contador sem er í sama liði og Armstrong, Astana. Keppnisleiðin er sögð henta klifrurum betur en öðrum og þar eru allir farmangreindir á heimavelli, sérstaklega þó Sastre.
Alls er keppnisvegalengdin um 3.500 km og dagleiðirnar 21. Lýkur Frakklandsreiðinni í París sunnudaginn 26. júlí.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 08:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
29.6.2009 | 20:43
Jeannie Longo - Ótrúlega seig frönsk afrekskona
Franska hjólreiðakonan Jeannie Longo hefur lengi verið að og unnið margt afrekið. Um helgina varð hún franskur meistari í 56. er hún vann kapp við klukkuna á franska meistaramótinu, sem fram fer um helgina í og við borgina Saint Brieuc á Bretaníuskaga.
Það sem fertugur getur, gerir fimmtugur betur, var einhvern tíma sagt. Það sannas á Longo sem er á 51. aldursári. Á ólympíuleikunum í Peking í fyrra varð hún hálf svekkt yfir því að hljóta aðeins fjórða sætið í tímareið, keppni við klukkuna.
Fyrsta franska meistaratitilinn vann Longo árið 1979 eða fyir 30 árum. Eftir að hafa unnið tímareiðina keppti hún í 115 km einstaklingskeppni kvenna daginn eftir en varð þriðja, tapaði tveimur áratugum yngri konum fram úr sér á lokametrunum.
Longo hefur á ferlinum unnið 106 verðlaunapeninga á ólympíuleikjum, heimsmeistaramótum og frönsku meistaramótunum. Þar á meðal eru ein gullverðlaun frá í Atlanta 1996 er hún varð ólympíumeistari á götuhjóli. Í safni þessu eru einnig frönsk stúlknameistaraverðlaun á skíðum frá 1973, héraðsmeistaramótsgull í kringlukasti unglinga frá 1975 og 800 m hlaupi 1976.
Sex sinnum hefur hún unnið bæði tímareiðina og götureiðina á franska meistaramótinu, síðast í fyrra. Sjöunda tilraunin nú gekk ekki upp, eins og fyrr segir. Alls hefur Longo unnið 1.069 kappreiðar á hjólaferlinum. Meðal afreka hennar eru heimsmet í klukkundarreið á lokaðri braut. Það setti hún í þunna loftinu í Mexíkó árið 2000 og lagði þá að baki 45.094 metra.
Samkvæmt könnun á vegum íþróttadagblaðsins L'Equipe er Longo sjötti vinsælasti íþróttamaður Frakklands um þessar mundir - og fremsta konan.
Íþróttir | Breytt s.d. kl. 20:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2009 | 14:30
Rossi vinnur 100. kappaksturinn
Aldrei hef ég verið neitt fyrir mótorhjól, þ.e. aldrei haft löngun til að ferðast á slíkum fákum. Tek reiðhjólið og bílinn fram yfir. Það getur hins vegar verið gaman að horfa á keppni á mótorhjólum. Því langar mig að halda því til haga, að ítalski knapinn frái, Valentino Rossi, vann í dag sinn hundraðasta kappakstur í HM á mótorhjólum, MotoGP.
Afrekið vann Rossi, sem keppir fyrir Yamaha, á HM-móti sem fram fór í Assen í Hollandi í dag. Annar varð liðsfélagi hans Jorge Lorenzo frá Spáni og þriðji Ástralinn Casey Stoner, sem ekur á Ducati.
Rossi hefur margoft orðið heimsmeistari á mótorhjólum og stefnir hraðbyri að titlinum í ár. Aðeins einn annar knapi hefur unnið 100 mót í æðsta flokki HM á mótorhjólum. Þar er um að ræða annan Ítala, Giacomo Agostini.
Íþróttir | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
27.6.2009 | 13:05
Franskur saksóknari krefst þess að vísindakirkjan verði leyst upp
Saksóknarinn í París, Maud Coujard, krefst þess í fjársvikamáli á hendur vísindakirkjunni, að hinn franski armur hennar verði leystur upp. Jafnframt krefst hann þess höfuðstöðvar kirkjunnar og bókabúð verði sektaðar um fjórar milljónir evra.
Vísindakirkjan er skráð sem trúfélag í Bandaríkjunum og nýtur þar skattfrelsis sem slíkt. Hún státar þar af liðsmönnum á borð við leikarann Tom Cruise og John Travolta sem varið hafa hana opinberlega sem raunverulegt trúfélag.
Kirkjan nýtur engrar lögverndar í Frakklandi og er ekki undanþegin gjöldum. Þar nýtur hún heldur engra frægra sem stökkva fram fyrir skjöldu henni til varnar. Hefur hún ítrekað verið ásökuð hér í landi um að vera sértrúarsamtök er stundi fjárplógsstarfsemi.
Þau réttarhöld sem nú standa yfir á hendur vísindakirkjunni snúast um kvartanir fyrrverandi fylgismanna sem rúnir voru inn að skinni er þeir voru krafðir um risaframlög fyrir námskeið í fræðunum og andlega hreinsunarpakka. Um er að ræða tvær féflettar konur sem kvörtuðu til lögreglu í desember 1998 og júlí 1999.
Hafðar voru rúmlega 20.000 evrur af annarri þeirra fyrir ýmis konar námskeið og vörur sem kirkjan býður liðsmönnum sínum upp á. Hin konan segist hafa verið neydd af yfirmanni hennar á vinnustað til að sækja námskeið hjá kirkjunni, sem hann var innvígður í. Rannsókn þessara mála vatt upp á sig allt þar til það kom til kasta dómstóla.
Vísindakirkjan er sökuð um að hafa stundað skipulega fjárplógsstarfsemi sem að mestu er sögð hafa verið stunduðí nafni bókaverslunar kirkjunnar. Auk þess að gera kröfu um sektargreiðslur af versluninni og höfuðstöðvunum krefst saksóknari þess, að sex af æðstu stjórnendum kirkjunnar í Frakklandi verði harðlega refsað. Þeir verði sektaðir stórt og dæmdir í a.m.k. fjögurra ára skilorðsbundið fangelsi. Meðal þessara er stofnandi vísindakirkjunnar í Frakklandi, Alain Rosenberg.
Almennt eru Frakkar mjög þenkjandi fólk og velta gjarnan fram heimspekilegum spurningum. Til að mynda þeirri hversu langt trúfrelsið nær? Og hvað skuli langt ganga í að leggja blessun sína yfir hlutina af virðingu við trúarbrögðin? Við þessum spurningum - og fleirum - fást væntanlega svör þegar dómur verður kveðinn upp í málinu á hendur vísindakirkjunni frönsku.
Fari saksóknari með sigur af hólmi verður kirkjan sakfelld um og sektuð stórt fyrir að hafa sviksamlega haft hundruð þúsundir evra af fylgismönnum sínum fyrir persónuleikapróf, andlega hreinsandi vítamín, fyrirlestra, ráðgjöf og fleira. Stærsta spurningin sem beðið er svara við, er hvort franskir dómstólar kveði á um að kirkjan skuli leyst upp.
Af hálfu kirkjunnar er öllum sakarefnum mótmælt og málaferlin sögð brjóta gegn rétti manna til trúfrelsis. Maud Coujard saksóknari segir trúarbrögð manna enga vörn í máli sem snýst um brot á hegningarlöggjöfinni. Málið snerist ekki um trúfrelsi en lögmaður vísindakirkjunnar hélt því fram, að saksóknarinn gerði kröfu um ekkert minna en dauðadóm yfir trúfélaginu.
Ekki er búist við að dómur gangi í málinu fyrr en í haust.
Trúmál og siðferði | Breytt s.d. kl. 13:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.6.2009 | 12:02
Rændu ösku föðurs hjólreiðagarpsins
Frakkar vilja ekki sjá Tyrki í Evrópusambandinu en halda aftur á móti mjög upp á hjólreiðagarpa hvers konar. Þótt ekki skuli dæma heila þjóð af fáum rötum þá hefur afstaða þeirra til Tyrkja tæpast batnað er þeir lásu fréttir af óförum skoska trésmiðsins og hjólreiðagarpsins Keith Hallagans.
Hallagan lagði upp í hnattferð á reiðhjóli sínu frá Edinborg með ösku föður síns í farteskinu. Henni hugðist hann dreifa, í smáskömmtum, á fögrum og völdum áfangastöðum á leiðinni. Hann hafði hjólað um Evrópu og Miðausturlönd er hann rataði í ógöngur.
Er hann brá sér inn á lestarstöð í bænum Mersin í Tyrklandi sl. miðvikudag og leit sem snöggvast af hjólinu, sem þó var næstum við hlið hans, tóku þjófar það traustataki og brunuðu á brott. Stálu þeir hjólinu og öllu sem á því var.
Þar á meðal öskukerinu, tjaldinu, fötum Hallagans og vegabréfi. Ég fór að miðasölunni en þegar ég sneri mér við aftur var hjólið horfið. Ég ætlaði ekki að trúa því og æddi um og leitaði að því. Lögregla kom á vettvang og áttaði sig fljótt á geðshræringu minni og kallaði á eina 15 til viðbótar, sagði Hallagan.
Honum var boðin ókeypis gisting á hóteli í nágrenninu meðan hann biði eftir nýju vegabréfi. Þá leitaði hann til tyrkneska sjónvarpsins sem kom þeirri ósk hans á framfæri að hann fengi þó ekki nema væri duftkerið til baka. Það hafði ekki borið árangur þegar síðast fréttist.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)