Mikil uppstokkun á frönsku stjórninni

Mestu tíðindin í uppstokkun á frönsku ríkisstjórninni, sem mun eiga sér stað á morgun, er tvenn. Annars vegar að Michele Alliot-Marie yfirgefur innanríkisráðuneytið og tekur við dómsmálaráðuneytinu af Rachida Dati, sem kosin var á Evrópuþingið 7. júní sl. Hins vegar þau, að Brice Hortefeux tekur við innanríkisráðuneytinu, en hann afsalar sér sæti á Evrópuþinginu.

Alls hverfa átta ráðherrar úr starfi og átta nýir koma inn í stjórnina. Eru það mun meiri breytingar en búist hafði verið við. Meðal þungaviktarmanna sem breyta um hlutverk er Xavier Darcos sem fer úr menntamálaráðuneytinu í atvinnumálaráðuneytið. Talsmaður stjórnarinnar, Luc Chatel, verður menntamálaráðherra.   

Verulega athygli vekur að hinn vinsæli ráðherra mannréttindamála, Rama Yade, yfirgefur þann starfa og tekur við starfi íþróttaráðherra af Bernard Laporte. Hann er einn ráðherranna átta sem hverfa úr stjórn Francois Fillon forsætisráðherra. Talið var að Yade yrði látin gjalda þess með missi ráðherradóms að hafa neitað beiðni Nicolas Sarkozy forseta að bjóða sig fram til Evrópuþingsins.

Meðal þungaviktar ráðherra sem hverfa úr stjórninni er Michel Barnier landbúnaðarráðherra og Chrstine Albanel menningarmálaráðherra. Barnier verður leiðtogi franska hægriflokksins á Evrópuþinginu. Jean-Louis Borloo gegnir áfram starfi umhverfisráðherra, Bernanrd Kouchner verður áfram utanríkisráðherra og Christine Lagarde efnahagsmálaráðherra.


Mitterrand sagður á leið í ráðherrastól

Búist er við þó nokkurri uppstokkun í frönsku ríkisstjórninni á morgun, miðvikudag. Einhverjir ráðherrar muni skipta um stóla, aðrir missa sína og nýir menn taka við þeim. Meðal þeirra sem sagðir eru verða ráðherrar er Frederic Mitterrand, bróðursonur Francois Mitterrand fyrrverandi forseta.

Hermt er að Mitterrand, sem er rithöfundur og leikstjóri, taki við menningarmálaráðuneytinu af Christine Albanel sem þykir hafa farið halloka í tilraunum til að koma mikilvægum málum gegnum þingið, þ. á m. lögum gegn sjóræningjastarfsemi á internetinu.    

Á vefsetri blaðsins Nouvel Observateur er skýrt frá því að Frederic Mitterrand hafi kallað nánustu samverkamenn í Medicishöllu í Róm, útibúi frönsku akademíunnar þar, til fundar við sig í gær. Þar tilkynnti hann þeim að hann væri á förum aftur til Parísar til að taka við nýju starfi. Nicolas Sarkozy útnefndi hann til starfans í Róm í júní í fyrra.

Annar sósíalisti er einnig nefndur í starf menningarmálaráðherra. Þar er um að ræða annan leikstjóra, Yamina Benguigui, sem er aðstoðarkona Bertrands Delanoe borgarstjóra í París.

 


Sarkozy styrkist í sessi

Sól Nicolas Sarkozy Frakklandsforseta hækkar á lofti í samræmi við árstímann, ef marka má niðurstöður nýrra skoðanakannana á fylgi hans í framhaldi af stórsigri flokks forsetans (UMP) í kosningum til Evrópuþingsins 7. júní.

 

Samkvæmt könnun Opinion­Way-Le Figaro-LCI í vikunni fengi Sarkozy enn meiri stuðning í fyrstu umferð en 2007 færu forsetakosningar fram nú. Hefur hann meira forskot á helstu andstæðinga sína í dag, en þegar forsetakosningarnar fóru fram fyrir röskum tveimur árum.

 

Þá fékk Sarkozy 31,18% atkvæða í fyrri umferðinni en fengi 33% nú, samkvæmt könnun Opinion­Way-Le Figaro-LCI. Segolene Royal fengi sama fylgi og síðast, 21%, en Francois Bayrou aðeins 13% en hann fékk 20% atkvæða í fyrri umferðinni 2007. Anti-kapitalistinn Olivier Besancenot fengi 8% atkvæða eða prósentu minna en 2007. Aftur á móti bætti Jean-Marie Le Pen við sig, fengi 9% núi í stað 7% síðast.

 

Spurt var einnig hvernig viðkomandi myndu kjósa væri Martine Aubry, leiðtogi Sósíalistaflokksins, í forsetaframboði í stað Royal. Fékk hún minna fylgi eða 19%. Það sem hana vantar af fylgi Royal skiptist milli Bayrou og Besancenot því Sarkozy hlaut sama hlutfall atkvæða sem fyrr, 33%.

 

Samkvæmt könnun TNS-Sofres í síðustu viku fjölgaði þeim sem traust bera til Sarkozy um níu prósent, úr 32% í 41%, frá apríl og fram í júní. Þeim sem voru öndverðrar skoðunar og bera ekki traust til hans fækkaði um 8 prósent, eða úr 65% í 57%.

 

Miðað við niðurstöður könnunarinnar í apríl, sem voru Sarkozy mun óhagstæðari en nú,  naut hann meiri stuðnings eftir tvö ár á valdastóli heldur en Jacques Chirac, forveri hans, naut eftir jafn langa vist í Elyseehöllu. Til Chiracs báru aðeins 22% traust en 65% ekki. Francois Mitterrand stóð örlítið betur eftir tvö ár við völd, 30% báru þá traust til hans en 54% lýstu vonbrigðum með hann þá, eða 1983.


Sarkozy segir búrkuna niðurlægingartól, ekki trúartákn

Söguleg stund átti sér stað í þingsalnum í Versalahöllu rétt fyrir utan París í dag. Þar flutti  Frakklandsforseti ræðu á þingfundi í fyrsta sinn í 136 ár. Þar talaði hann fyrir frekari umbótum á frönsku samfélagi en athygli vakti að hann talaði gegn því að konur gengju í búrkum í Frakklandi. Sagði hann klæðnaðinn sem hylur konur frá hvirfli til ilja kjallaravæða konur; búrkan væri niðurlægingartól en ekki trúartákn.

Eftir ræðuna sneri Sarkozy aftur til hallar sinnar í París en í kvöld heldur hann kvöldverð til heiðurs furstanum af Qatar, Sheik Hamad Bin Jassem Al Thani. Eflaust ber búrkur á góma undir kvöldverðinum því algengt er að kvenkyns þegnar furstans skrýðist þeim á almannafæri, jafnvel undir stýri.

Sarkozy sagði búrkuna ekki eiga heima í Frakklandi og væri beinlínis illa séða. Lýsti hann stuðningi við hugmyndir um að stofnuð verði þingnefnd til að gera úttekt á notkun búrka í Frakklandi og gera tillögur um ráðstafanir vegna þess. Hægrimenn eru flestir taldir fylgjandi aðgerðum gegn notkun búrka en andstaða hefur mest verið í röðum sósíalista. Þá hafa helstu samtök múslima í Frakklandi lagst gegn stofnun þingnefndarinnar.

Megin rök þeirra sem ekki vilja afskipti af búrkunotkun er að bann gæti storkað múslimum í Frakklandi og þeir litið á það sem útskúfun. Engan hljómgrunn eiga þeir hjá forsetanum. „Við getum ekki fallist á að konur séu fangar á bak við hulu í landinu okkar. Klipptar frá öllu félagslífi, sviptar auðkennum sínum,“ sagði Sarkozy við langt og kröftugt lófaklapp.

„Búrkan er ekki trúartákn, heldur tákn um undirlægjuhátt, tákn niðurlægingar - það segi ég í fullri alvöru. Hún verður ekki vel séð í franska lýðveldinu,“ sagði hann.

Árið 2004 voru sett lög í Frakklandi er bönnuðu skólastúlkum að bera höfuðklúta og önnur meint trúartákn á skólalóðum. Var það tilefni eldheitra umræðna heima fyrir og erlendis en fleiri múslimar búa í Frakklandi en nokkru öðru vestrænu Evrópuríki, eða um 5 milljónir.

 


Lágvaxinn Frakki smýgur yfir 6,01 metra á stöng

Franska stangarstökkvaranum Renaud Lavillenie hefur farið mjög fram á árinu. Í gær stökk hann 6,01 metra sem er franskt met og besti árangur í heiminum. Frakkar hafa átt urmul góðra stangarstökkvara um langt árabil en samt hefur engum þeirra tekist að rjúfa sex metra múrinn fyrr en Lavillenie nú.

Lavillenie vakti fyrst athygli á alþjóðavettvangi svo um munar er hann varð Evrópumeistari innanhúss sl. vetur. Múrinn mikla rauf hann í Evrópubikarkeppninni í Leira í Portúgal í gær. Hann hafði stokkið 5,96 fyrir viku sem var einnig besti árangur í heiminum í ár. Framfarirnar eru miklar því hann hefur bætt árangur sinn utanhúss frá í fyrra um 15 sentimetra.  

Lavillenie er tíundi stangarstökkvari heims til að stökkva yfir 6 metra. Í Leira komst hann yfir 5,80 metra í þriðju tilraun og lét þá hækka beint í 6,01. Fyrsta tilraun við þá hæð misheppnaðist en ekki sú næsta. „Stökkið yfir 6,01 var tæknilega ljótt en ég hafði það þó,“ sagði hann.

Gamla franska metið átti Jean Galfione, ólympíumeistari í Atlanta 1996. Var það 5,98 og vantaði rúman mánuð á að verða 10 ára gamalt. Galfione stökk reyndar 6,00 metra á heimsmeistaramótinu ínnanhúss árið 1999 í Maebashi í Japan. Þá var stangarstökk innanhúss ekki viðurkennt til utanhússmeta.

Lavillenie er ekki stór af stangarstökkvara að vera. Mælist sjálfur aðeins 1,78 metrar á hæð. Sannast því hið fornkveðna um að atgervi og færni ræðst ekki af líkamshæð.  


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband